21.03.1923
Neðri deild: 25. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í C-deild Alþingistíðinda. (2303)

55. mál, útflutningur hrossa

Bjarni Jónsson:

Jeg var á göngu hjer fyrir framan og heyrði þá háa rödd hv. þm. Borgf. (PO) gegnum dyr og gættir. Vildi hann vega að mjer fyrir það, er jeg hefi áður sagt um þetta mál. Reyndi hann að ósanna þá sögu mína, að erfitt mundi og dýrt að elta uppi hrossahópana í ýmsum höfnum landsins, og færði þau rök fyrir, að ekki væru flutt út hross nema frá þremur höfnum á öllu landinu. En hver hefir ákvarðað, að svo skuli vera, er það löggjafinn? eða guð almáttugur? eða er það einungis háttv. þm. Borgf. (PO)? Jeg hygg, að fleiri hlutar landsins mundu vilja njóta jafnrjettis við þessar þrjár hafnir og fá skipin send til sín til að sækja hrossin, ef útflutningur yrði leyfður að vetrarlagi. Margir mundu vilja selja hesta, sem ekki ættu hægt með að koma þeim yfir fjöll og firnindi til einhverrar af þessum þremur höfnum, er einkarjettinn eiga að hljóta. Býst jeg við, að hv. þm. Borgf. (PO) mundi verða manna fyrstur til að unna landshlutunum jafnrjettis í þessu máli sem öðru.

Háttv. þm. Borgf. (PO) virtist reiðast því, að jeg sagði eitthvað í þá átt, að á hörðum vetrum væri máske betra að senda hestana út en að þeir fjellu hjer úr hor. Hann ætti þó að vita, sem aðrir, að á þeim 1000 árum, sem Ísland hefir verið bygt, hafa aldrei komið svo verulega harðir vetur, að ekki hafi eitthvað af hrossum fallið, einhversstaðar á landinu. Auðvitað tel jeg slíkt ekki mundu bæta markað bænda, því sjálfsagt yrði þá oft teflt á tvent með útflutninginn.

Háttv. þm. Mýra. (PÞ) undraðist þá mótstöðu, sem frv. fengi hjer í deildinni, þrátt fyrir það, þótt til væru 17 ára gömul lög, sem fara mætti eftir. En jeg vil benda þeim hv. þm. á, að samkvæmt þeim lögum voru vetrarflutningar bannaðir. Jeg hygg einnig, að það verði hvorki lög nje eftirlitsmenn, sem ráða mestu um útlit útfluttra hrossa, heldur er það náttúran og hagarnir, sem sjá um slíkt, og því treysti jeg betur. En bændum er annað betra en að spilt sje markaði fyrir vöru þá, sem flutt er út frá þeim.