03.04.1923
Efri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í C-deild Alþingistíðinda. (2315)

55. mál, útflutningur hrossa

Guðmundur Guðfinnsson:

Jeg sagði fáein orð um þetta mál við 1. umræðu og lagðist þá heldur á móti frv. og geri það enn þá. Jeg amaðist við því, að landsstjórnin hefði veitt undanþágu, en kvaðst þó geta fyrirgefið það í þetta sinn, eftir ástæðum, en kvað langt frá því, að jeg vildi gera undanþáguna að reglu.

Háttv. 1. þm, Húnv. (GÓ) kvað eigi ástæðu til að vera óánægður, þar eð alt hefði gengið vel í þetta sinn. En hvað sem því líður, þá er eigi víst, að svo fari framvegis.

Samt virðist, sem háttv. frsm. (GÓ) sje eigi alls kostar ánægður nú við þessa umr., því það var eins og hann væri að afsaka frv. með því, að nú væri um miklu betri skipakost að ræða en áður og meira eftirlit. Má vel vera, að svo sje, en þó held jeg, að nægileg trygging sje eigi fyrir góðri meðferð á hestunum, nje því, að eigi sjeu fluttir út ljótir hestar. Hefir háttv. Nd. reynt að bæta trygginguna í því efni, en nefndin hefir lagt til að fella niður þá breytingu. Er það mjög varhugavert og getur orðið til þess að eyðileggja hrossamarkaðinn, ef leyft verður að flytja út hross á öllum tímum ársins. Finst mjer allar mannúðarástæður mæla á móti frv. eins og það er. Er töluvert annað mál, þó að stjórnin veiti einstöku sinnum undanþágu, þegar sjerstakar ástæður eru fyrir hendi. Jeg mun því greiða atkvæði á móti þessu frv. Það gladdi mig að heyra, að fleiri urðu til þess að taka málstað kláranna en jeg, sem sje háttv. 4. landsk. þm. (JM). Finst mjer till. hans miða í rjetta átt. Jeg skal svo eigi orðlengja þetta, en helst vildi jeg, að frv. yrði felt.