24.03.1923
Efri deild: 26. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í C-deild Alþingistíðinda. (2334)

101. mál, hæstiréttur

Flm. (Jónas Jónsson):

Mjer kom á óvart sá blær, sem mjer virtist vera á ræðu hæstv. forsrh. (SE), því að jeg vissi ekki betur en að slík breyting hafi vakað fyrir honum. Og jeg má segja, að hann hafi látið það uppi annarsstaðar, að hann yrði ekki á móti breytingunni.

Viðvíkjandi dómi hæstarjettar sjálfs er það að segja, að slíka dóma má ekki taka of bókstaflega. Það er reynsla, að hver stjett, sem er spurð um, hvort fækka megi starfsmönnum innan hennar, svarar á þá lund, að slíkt sje óframkvæmanlegt. Spyrjið þið símamenn, póstmenn, presta, kennara. Þeir svara allir á einn veg: hjá okkur er ekki hægt að spara. En þeir eru ekki rjettir dómarar um þetta efni, heldur þingið. Hlutaðeigendur hafa aldrei nema tillögurjett. Einn dómandinn hefir þó viljað fækka, en um leið setja undirstig. Þetta gæti komið til mála, ef því yrði svo háttað, að t. d. dómendur yfirdómsins yrðu um leið prófessorar við háskólann. En hvað sem þessu líður, þá er viðsjárvert að kasta frv. í pappírskörfuna í von um að sú breyting gæti fylgt með, því að ef til vill verður hún óframkvæmanleg. Og hún á að verða nú. 2 dómendur eru nú komnir yfir aldurstakmarkið, og væri heppilegast að þeir færu frá. Þetta má ekki skiljast svo, að jeg sje að niðra þessum mönnum, en aldurstakmarkið á að vera meira en aðeins á pappírnum. Jeg hefi bent á það í öðru sambandi, hve menn eldast hjer illa, og er því ekki treystandi starfsafli manna lengur en til 65 ára aldurs.

Hæstv. forsrh. (SE) mintist ekki á þann sparnað, sem leiddi af afnámi hæstarjettarritara. Jeg þarf því ekki að tala um það nú, en jeg vil endurtaka, að jeg tel heppilegast að dómendur annist þau störf sjálfir.