17.04.1923
Efri deild: 42. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í C-deild Alþingistíðinda. (2340)

101. mál, hæstiréttur

Forsætisráðherra (SE):

Jeg tók það fram við 1. umr. þessa máls, að jeg sæi mjer eigi fært að koma fram með breytingar á hæstarjettarlögunum, er færi í þá átt, er þál. í fyrra ætlaðist til, og færði jeg rök fyrir þeirri afstöðu minni. Meðan dómstigin eru aðeins tvö, treysti jeg mjer eigi til að fækka dómendunum í hæstarjetti. Skildist mjer það á tilvitnunum í orð prófessors Lárusar H. Bjarnasonar, að hann líti svo á, að eigi beri að fækka dómendum í hæstarjetti, nema miðstig komi aftur. Er það alveg rjett, að jeg tel, að vel mætti fækka dómendum ef dómstigin yrðu 3. En jeg veit þó fyrir víst, að þá væri sparnaðurinn búinn.

Að því er snertir fyrirspurn hv. 5. landsk. þm. (JJ), þá skal jeg taka það fram, að svo framarlega sem á næsta ári losnar embætti í hæstarjetti, þá mun jeg sjá svo um, að því verði haldið lausu til næsta þings. Jeg vil taka það fram, að jeg er eigi á móti dagskrá þeirri, er fram er komin. Jeg er ekki á móti því, að rannsakað sje, hvort heppilegt er að bæta við miðstigi. Skal jeg játa, að jeg álít, að ef miðstigi verður bætt við, þá verði tryggingin jafngóð, þó að hæstarjettardómendum verði fækkað.