17.03.1923
Neðri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í C-deild Alþingistíðinda. (2413)

68. mál, gerðardómur í kaupgjaldsþrætum

Jakob Möller:

Jeg kann háttv. þm. Dala. (BJ) þakkir fyrir að hafa flutt þetta frv. Það er að mínum dómi hið mesta nauðsynjamál, sem hjer er um að ræða. Hins vegar skil jeg vel háttv. samþingismann minn (JB) og afstöðu hans til málsins. Eins og hann tók fram, hafa jafnaðarmenn tekið svo í þetta, og um leið var svo sem auðvitað afstaða þessa hv. þm. (JB) ákveðin, hvað sem leið rjettu og röngu. En það, sem mig furðaði á, var, að háttv. þm. (JB) sagði ekki nema hálfa söguna. Því það eru ekki einasta verkamenn, sem barist hafa á móti gerðardómum í öðrum löndum, heldur einnig vinnuveitendur eða sá stjórnmálaflokkur, sem þeir fylla aðallega, Íhaldsflokkarnir. Afstaða beggja aðilja er því sú, að vilja ekki annað en að hnefarjetturinn skeri úr slíkum málum. En svo er 3. flokkurinn, þeir frjálslyndu menn, sem ekki vill hnefarjettinn, en í hans stað gerðardóma.

Það er vitanlega rangt hjá hv. 2. þm. Reykv. (JB), er hann segir, að ráðherrar, dómarar og önnur stjórnarvöld hallist á sveif með vinnuveitendum; skal jeg minna hann á, að þegar slíkar deilur hafa risið upp hjer og leitað hefir veraðstoðar þeirra um þessi mál, veit jeg ekki betur en að niðurstaðan hafi ávalt orðið verkamönnum í vil. Nægir að nefna prentaraverkfallið nú síðast þessu til sönnunar; þá studdi stjórnin málstað prentara, eins og líka má á sjá, á skilmálum þeim, sem báðir aðiljar þá sættust á að lokum. Er því þessi fullyrðing hv. þm. (JB) algerlega rakalaus. Vona jeg að hv. deild veiti frv. þessu góðar viðtökur og að það fái að ganga til nefndar, sem lagi góðfúslega þá galla, er á því kunna að vera.