20.03.1923
Neðri deild: 24. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í C-deild Alþingistíðinda. (2444)

86. mál, mælitæki og vogaráhöld

Bjarni Jónsson:

Það verður að líta á, hvað felst í skýrslum löggildingarstofunnar. Það kemur í ljós, að Spánverjar hafa kvartað yfir vigt á fiski, sendum hjeðan, áður en hún tók til starfa, en eigi síðan, og sýna því þessar skýrslur augljóslega, að allmikil þörf hefir þegar verið á þessari stofnun, og hefir hún því gert mikið gagn í þessu efni með eftirliti sínu, því enginn mun telja þetta smávægilegt atriði fyrir viðskifti vor út á við. Sýnir þetta ljóslega, að ástandið hefir alt á eina bókina lært verið, hvað snerti mál og vog í viðskiftum vorum, áður en þessi stofnun tók til starfa, og mun fljótt sækja í sama horfið, ef hennar missir við. Dæmi hv. þm. Ísaf. (JAJ) sanna lítið í gagnstæða átt, þótt hann tilfæri eitthvað, sem altaf getur komið fyrir, að yfirsjónir geta átt sjer stað og það jafnvel, þó svona góð stofnun eigi í hlut.