24.02.1923
Neðri deild: 5. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í C-deild Alþingistíðinda. (2489)

4. mál, embættaskipun

Jón Þorláksson:

Mjer virtist það nokkuð sterklega til orða tekið hjá hæstv. forsætisráðh. (SE), að kalla það háðung fyrir þingið, þó þetta frv. fái ekki þá afgreiðslu, sem hann telur rjetta vera. (Forsrh. SE: Það sagði jeg ekki; jeg notaði orðið í alt öðru sambandi). Þetta skiftir litlu máli, en þó heyrðu það fleiri en jeg, hvað hæstv. ráðherra sagði. Hann mintist einnig á sparnaðartill. síðasta þings, og gerði lítið úr þeim, og sagði, að þá hefði verið rifist alt þingið um afnám eins eða tveggja embætta. En þetta er ekki rjett, því á síðasta þingi komu fram till. um það, að leggja niður 9 embætti, auk víðtækra breytinga til sparnaðar á barnafræðslunni. En till. stjórnarinnar nú fara að eins fram á afnám 8 embætta. Af þessum 9 embættum í fyrra voru 2 utan Reykjavíkur, en 7 í Rvík, en nú er þessu snúið við í stjfrv., þannig, að flest embættin, sem farið er fram á að leggja niður, eru nú utan Reykjavíkur og flest gömul, og þar á meðal elsta embætti landsins, en ekkert þeirra embætta, sem farið var fram á að leggja niður á síðasta þingi, hefir ennþá náð fermingaraldri, því þau eru öll yngri en 14 ára. Hjer er auðsær stefnumunur milli sparnaðarmannanna á síðasta þingi og stjórnarinnar nú, annars vegar eru íhaldsmenn, sem vilja ráðast á það, sem þeir telja ónauðsynlegan nýgræðing í þjóðfjelaginu, til sparnaðar, hins vegar umrótsmenn, sem helst vilja burtu hið gamla og rótgróna. Og hæstv. forsætisráðherra má ekki furða sig á því, þótt íhaldssamir menn hafi eitthvað að athuga við þessar sparnaðartillögur hans, þar sem hann sjálfur gat ekki fallist á eina einustu embættisfækkun á síðasta þingi, en vill þó nú láta telja sig sparnaðarmann.