21.03.1923
Efri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 834 í C-deild Alþingistíðinda. (2586)

97. mál, vaxtakjör

Flm. (Einar Árnason):

Jeg býst við að frv. þetta þyki að ýmsu leyti nýlunda, og vel má vera, að það mæti nokkrum mótmælum. En þó svo kunni að vera, þá er það eigi óeðlilegt, að frv. sem þetta komi fram. Þau atvik hafa nú undanfarið gerst með þjóð vorri og eru að gerast enn, að nauðsynlegt er að gera ráðstafanir til þess að forða frá falli þeirri atvinnugrein, sem verið hefir mergur þessarar þjóðar frá fyrstu tíð. Það er á allra vitorði, að peningastofnanir landsins, sjerstaklega þó önnur þeirra, sem sje Íslandsbanki, hefir á síðustu tímum tapað stórfje. Veit jeg eigi, hve miklu það tap nemur, en það veit jeg, að tap það á mikinn þátt í því, að nauðsynlegum framkvæmdum þjóðarinnar hefir verið siglt í strand. Það hefir verið reynt að vinna upp skakkaföllin, að draga úr tjóninu, með óhæfilega háum vöxtum af útlánum, en þeir vextir hafa mjög lamað framkvæmdalíf þjóðarinnar, og þá sjerstaklega komið hart niður á þeim framkvæmdum, sem meira eru til frambúðar en fljótra uppgripa, svo sem landbúnaðinum. En hjer er líka annað meira og verra í efni. Í kjölfar fjármálaóhappanna hefir siglt verðfall á íslensku krónunni, og sá skattur, er gengismunurinn hefir skapað, nemur mörgum miljónum króna árlega. Hann heldur uppi dýrtíðinni í landinu og drepur niður framkvæmdaþróttinn; og þennan skatt verður öll þjóðin að gjalda, eins sá hluti hennar, sem enga sök ber á ástandinu.

Jeg ætla mjer eigi að fara að metast um það, hverjir eigi sök á þessu; þeir eru vafalaust margir. En því vil jeg halda fram, að landbúnaðurinn eigi þar litla eða enga skuld að gjalda. Þegar lánsstofnun ákveður vexti af útlánum sínum, þá athugar hún, hvaða vexti hún verður sjálf að greiða af fje því, sem hún hefir til veltu, og gætir þess að auki að hafa nóg til þess að greiða allan kostnað af rekstri stofnunarinnar. Enn fremur verður hún að taka tillit til mikilla áhættulána, og ákveða vextina því hærri. Er það eigi nema eðlilegt. En hitt er óeðlilegt, að þau lán, sem trygg eru, beri skatt fyrir ótryggu lánin, og því er nauðsynlegt að flokka lánin í sundur. Reynslan hefir sýnt, að landbúnaður og jarðrækt eru svo tryggar atvinnugreinir, að lán til þeirra eru eigi hættuleg. Er því eigi síður ábatavænlegt fyrir bankana að lána fje til þeirra, þó að vextirnir sjeu lægri en á áhættulánum. Það er eigi ætlun vor flm. að íþyngja með frv. þessu öðrum atvinnugreinum, heldur aðeins að færa vaxtakjörin til meira rjettlætis. Vil jeg í þessu sambandi minna á það, að það eru tekin hærri iðgjöld af timburhúsum en steinhúsum, sem brunatrygð eru, hærri iðgjöld af skipum, er sigla um hættusvæði, en hinum, og að hærra flutningsgjald er tekið á skipum, er sigla til slæmra hafna. Er það eigi nema sanngjarnt, enda neitar því enginn. Hvers vegna ætti þá ekki að skipa vaxtakjörunum á sama hátt Verið getur, að þau mótmæli komi fram, að hjer sje verið að veita einni atvinnugrein styrk á kostnað fjöldans. En slík mótmæli eru hin mesta skammsýni. Frændur vorir, Norðmenn, leggja árlega stórfje til búnaðarframkvæmda og jarðræktar, og lita svo á, að engu fje frá ríkinu sje eins vel varið. Þeir segja: Þetta er ekki styrkur til neinna manna eða stjetta. Þetta fje er lagt í sjóð, sem síðari kynslóðir taka við í byggilegra og frjósamara landi. Því betur sem landið er ræktað, því meira sem lagt er til hliðar fyrir framtíðina í bættum lífsskilyrðum, því sjálfstæðari og þroskaðri verður þjóðin.

Sannarlega ættum við að líta svipað á þetta, hjer heima í okkar lítt ræktaða landi.

Jeg skal svo eigi fjölyrða um þetta mál, en jeg vona, að hv. deild taki því vel. Legg jeg til, að því verði vísað til fjárhagsnefndar.