24.04.1923
Efri deild: 47. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í C-deild Alþingistíðinda. (2596)

97. mál, vaxtakjör

Jónas Jónsson:

Háttv. 2. þm. G.-K. (BK) fjell frá því að deila um aðalefnið í frv., og játaði eiginlega með því okkar málstað, að vextirnir ættu að miðast við áhættuna. Því er játað, að lán til sveita sjeu jafnaðarlega tryggari en lán til sjávar, og er því gengið inn á aðalatriði frv.

Bankarnir gera sjer auðvitað sem best far um að vita, til hvers eigi að nota lánin. Þetta gerði hv. þm. (BK) líka, þegar hann var bankastjóri, og er það lofsvert. Aðalatriðið er, að sveitalánin eru áhættuminni, til hvers sem þau eru notuð, heldur en víxlar og sjálfskuldarábyrgðir til útgerðar og kaupsýslu í kauptúnum. Eins og líka hv. þm. (BK) tók fram, þá hefir þingið húsbóndavald yfir bönkunum og getur látið þá fara að vilja sínum í þessu efni.

Nú stendur svo á, að ýmsar sýslur, eins og t. d. Borgarfjörðurinn og Árnes- og Rangárvallasýslur, sem gert hafa einna mest, hafa gert miklar umbætur á húsum, girðingum og fleiru, og standa að nokkru í skuldum vegna þessara umbóta. Er þá rjett að láta þessa menn, sem standa alment full skil á skuldum sínum, — er rjett að láta þá menn borga tap-„premiuna“ fyrir útgerðina. Nei, og aftur nei. Og þótt frv. þetta verði drepið hjer í dag, þá koma þau þing síðar, sem sinna fullum rjettlætiskröfum í þessu máli.

Þá kem jeg að því, sem var sögulegt að heyra, að eftir umr. í gær, þá eru hluthafar Íslandsbanka svo drýldnir, að þó bankinn hafi fengið hverja stórhjálpina á fætur annari, þá má þingið ekki einu sinni hafð íhlutunarrjett um vexti bankans. Eða eru þeir þeir fáfræðingar, að neita svona sjálfsagðri kröfu, en ætlast þó til, að bankanum sje hjálpað af þinginu?

Fyrir bankann ætti þetta ekki að verða neinn skaði, því þó vextirnir sjeu minni, þá er áhættan líka minni.

Jeg skal aðeins árjetta það, sem hv. þm. Vestm. (KE) sagði um þetta efni. Það ætti að vera hægt að knýja Íslandsbanka til að verða við svona kröfum, með þeim tveim mönnum, er stjórnin skipar, ef hún hagar sjer eftir rjettum reglum í því efni. Það er lafhægt fyrir stjórnina að knýja bankann til að beygja sig í þessu efni. Ef þingmenn eru húsbændur Landsbankans, þá erum við það líka yfir Íslandsbanka, þar sem við erum fulltrúar þeirrar þjóðar, er hefir lánað honum nálega alt sitt fje.

Eins og búast mátti við, hafði háttv. frsm. minni hl. (BK) ekki ljósa hugmynd um lánsfjelögin í Danmörku. Eru þau bygð á þeim grundvelli, sem þau verða ekki framkvæmd á hjer. Þau ná yfir lítið svæði, svo að fjelagar geti sjálfir kosið virðingarmenn sína, og þekkja þeir til á öllu fjelagssvæðinu. Þetta er alt saman nýr fróðleikur fyrir háttv. frsm. (BK). Jeg er glaður að geta þannig aukið þekkingu hans, og vona jeg að það beri góðan ávöxt. Það er misskilningur hjá hv. þm. (BK), er hann blandar saman ríkisfyrirtækjum og samvinnufyrirtækjum, sem ekki eru lögboðin. Það er jafnmikil fjarstæða að blanda saman „Kreditforeningunum“ dönsku og veðdeildinni, sem er ríkisfyrirtæki, eins og að bera saman landsverslunina og Sambandið. Þess vegna var allur sá vaðall, sem hv. frsm. (BK) kom fram með, viðvíkjandi fyrirkomulagi samvinhufjelaganna dönsku og Íslensku hliðstæðunni, hrein og bein vitleysa.

Úr því að hann fór að minnast á samábyrgðina hjá Sambandinu, skal jeg taka það fram, að það er óþarfi fyrir hann að leiða það atriði inn í umræðurnar hjer í deildinni, þar sem hann mun á sínum tíma fá tækifæri til þess að fara ítarlega út í það frammi fyrir dómstólunum og standa þar reikningsskap gerða sinna út af hinni lengstu stefnu, sem nokkru sinni hefir gerð verið hjer á landi, og þar sem farið er fram á þá hæstu skaðabót, sem þekst hefir.

Háttv. þm. (BK) var þó ekki betur að sjer en fyrri daginn, er hann mintist á þetta, því að hann sagði, að jeg hefði komið samábyrgðinni á hjer á landi. Þótt honum kynni að þykja jeg vera voldugur nú, þá er það oflof að segja, að jeg, sem var þá barn að aldri, þegar norðlensku fjelögin komu á þessu skipulagi, hafi komið samábyrgðarfyrirkomulaginu á. Annars tel jeg rjettast af hv. þm. (BK) að fara ekki langt út í þessa sálma, því að, sem sagt, fær hann síðar tækifæri til að tala miklu ítarlegar um þau málefni.