16.03.1923
Neðri deild: 21. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í C-deild Alþingistíðinda. (2752)

39. mál, vörutollur

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Frv. á þskj. 39 hefir tekið nokkrum breytingum hjá fjhn. og þá aðallega verið aukið við það, en síður, að dregið hafi verið úr því. Þó er feldur niður einn liður: að hækka tollinn á niðursoðinni mjólk. Nefndin sá sjer ekki fært að gera það, vegna kaupstaðanna, og þá sjerstaklega Reykjavíkur, því að þar er vitanlega engin leið að komast af án niðursoðinnar mjólkur. En þegar svo er komið, að jafnan verður auðið að fá nægilega mjólk hvar sem er, telur nefndin sjálfsagt að vernda þá framleiðslu með tolli. Nefndin er því ekki ósamþykk stefnu frv., en telur þetta of snemt og ekki tímabært. Annars er frv. í heild sinni tekið óbreytt upp í tillögur nefndarinnar á þskj. 123.

Nefndin jók við frv. að hækka vörutoll á fleiri tegundum en þar voru taldar. Mest er hækkunin á vefnaðarvöru, upp í 75 aura á kg. Þetta er mjög mikil hækkun, og býst jeg við, að nefndin hefði aldrei hugsað sjer að mæla með jafnmikilli hækkun, ef ekki hefði vakað fyrir henni að reyna að draga úr útflutningsgjaldinu.

Jeg vona, að ekki verði ágreiningur um, að þær vörutegundir, sem nefndin hefir bætt við, sjeu ekki nauðsynjavörur, og að sumar mætti jafnvel tolla hærra en nefndin hefir lagt til.

Hækkun þessi eða aukning vörutollsins af vefnaðarvörum mun nema 2– 3 kr. á karlmannsfatnaði. Raunar fer þetta eftir þyngd hans, en miklu munar það ekki frá þessu. Þessi brtt. nefndarinnar ber jafnframt að skoða sem álit hennar um verðtollsfrv. stjórnarinnar. Nefndin sá sjer ekki fært að hafa hvorttveggja.

Þótt verðtollur sje sanngjarnari en vörutollur, þá eru svo miklir erfiðleikar á framkvæmdinni, að nefndin sá sjer ekki fært að aðhyllast þá leið.

Hv. 1. þm. Reykv. (JakM) hefir gert aths. við nál., og mun sennilega ekki greiða frv. atkvæði sitt, enda þótt hann vilji lækkun útflutningsgjaldsins. Fjölyrði jeg svo ekki meira að sinni.