14.04.1923
Efri deild: 40. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í C-deild Alþingistíðinda. (2803)

28. mál, vörutollur

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Það er ekki ástæða til að fara út í einstök atriði brtt., því að það hefir háttv. frsm. þegar ítarlega gert. Frá því að frv. stjórnarinnar um vörutoll kom fram, hefir aðferðin að vísu töluvert breyst, en að efni til er frv. í öllum aðalatriðum það sama. Jeg skoða það meira sem fyrirkomulagsatriði, hvort hætt sje við að hafa verndartollsform á vörutollum eða ekki. Jeg er þeirrar skoðunar, að verndartollur færi betur að sumu leyti, en nefndin hefir álitið það ótiltækilegt að koma honum við, vegna erfiðleika með framkvæmdirnar. Annars er breytingin á frv. eins og það kom frá Nd, í aðaldráttunum sú, að það er haldið sjer meira við fjárhagshliðina á því; hækkunin er almennari og jafnari. Þannig koma af þessu nokkrar tekjur, sem ekki veitir af, þegar athugað er, hversu t. d. tekjuskatturinn hefir verið lækkaður. Það er áætlunarmál, hvað tekjur þessar muni nema miklu, en ekki er fjarri sanni það, sem nefndin áætlar, eða hátt á 3. hundrað þúsund kr. Og eins og hv. frsm. (BK) tók fram, mega menn vera vissir um tolltekjur af mörgum vörutegundum, þó að kunni að draga úr innflutningi einstöku vörutegunda. Við þann tekjumissi, sem af því leiddi, mætti ríkissjóður vel una, því þá kæmi í ljós, að spöruðust vörur, sem menn geta án verið.