30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í C-deild Alþingistíðinda. (2835)

141. mál, skoðun á síld

Þorsteinn Jónsson:

Hv. 1. þm. Reykv, (JakM) sagði áðan, að síld veiddist aðeins á haustin á Austfjörðum. Það má vera, að þá sje veiðin einna mest. En víst er um það, að einnig veiðist á sumrin, og það mikið stundum. Skal jeg til dæmis benda á það, að talsvert veiddist í lagnætur í fyrra um þann tíma. Háttv. flm. (StSt) kvað hjer ekki vera um neitt stórmál að ræða. Að vísu ekki, að því er snertir þennan eina mann og afkomu hans. En það gæti farið svo, að málið hefði talsverða þýðingu, ef mikið veiddist af síld á Austfjörðum, og enginn yfirsíldarmatsmaður væri þar til að meta hana. Annars fanst mjer háttv. þm. Dala. (BJ) fara inn á nokkuð óskylt mál þessu, er hann tók að tala um kennaraembættin á Akureyri. En úr því hann fór út í þetta mál, get jeg ekki látið vera að mótmæla því, sem hann fór rangt með. Hann var enn að tala um það, að ef frv. um mentaskóla á Akureyri hefði verið samþykt, þá þyrfti að bæta þar við 5 kennurum. Þetta er einkennilegt skraf hjá þm., eftir að jeg hefi með rökum þeim, sem hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) kom með, sýnt fram á, að ekki þyrfti að bæta við nema 11/2 kennara. (JÞ: Þetta er ekki rjett). (BJ: Jú, en það var bara ekki rjett reiknað hjá háttv. þm. (JP)).

Það er annars undarlegt, að þessir háttv. þm. skuli nú berjast svo ákaft fyrir breytingu á síldarmatslögunum. Man jeg þó ekki betur en að þeir greiddu þeim atkvæði á þinginu 1919, og veit jeg ekki til, að meira hafi þá veiðst á Austfjörðum af síld en nú.

Háttv. þm. Borgf. (PO) sagði, að við háttv. þm. Dala. (BJ) berðumst gegn frv. þessu, bara af því, að við vildum vera á móti öllum sparnaði. Kvað hann okkur hafa staðið saman að því máli í fyrra. En svo vill nú til, að sannleikurinn er hið gagnstæða. Við stóðum einmitt gegn hver öðrum í þeim málum flestum, sem háttv. þm. Borgf. (PO) mun kalla sparnaðarmál. Skal jeg til dæmis nefna barnafræðslumálið. Sama er að segja um sýslumannafækkun, sem jeg var með, en þm. Dala. (BJ) var á móti. Mætti nefna mörg fleiri slík mál, sem verið hafa á döfinni. Þetta er því ekki einasta lítið eitt rangt hjá háttv. þm. Borgf. (PO), heldur að öllu leyti rangt.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Ef þingið breytir nú lögum þessum, má búast við að þeim yrði breytt aftur í sama horfið á næsta þingi.