24.03.1923
Neðri deild: 28. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í C-deild Alþingistíðinda. (2871)

84. mál, einkasala á áfengi

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Það er tilætlun okkar flutningsmanna þessa frv. að reyna til að draga úr kostnaði við starfrækslu einkasölu landssjóðs á þeim vörutegundum, er undir hana heyra.

Eins og háttv. þm. muna, lagði stjórnin fyrir þingið 1921 frv. um einkasölu á tóbaki og áfengi, og mun tilætlunin þá hafa verið sú, að þessar tvær tegundir einkasöluvarnings yrðu framvegis hafðar saman. En þetta fór á annan veg. Fyrir einkennilegt öfugstreymi í þinginu voru þessar vörutegundir aðskildar, tóbakssalan lögð undir landsverslun, en áfengisverslunin sameinuð lyfsölunni, og komst undir eftirlitsmann lyfjabúða, er þá var skipaður. Mun þetta hafa orðið fyrir vangá og bygst á því, að ráðgerð var lyfjaverslun af ríkinu, sem lítið hefir orðið úr. Hins vegar er áfengissalan og eftirlit lyfjabúða svo ólík störf, að miklu eðlilegra virðist að leggja áfengissöluna undir landsverslun.

Sú reynsla, sem fengist hefir síðan þessi skipun var á gerð um lyfjabúðir og áfengissölu, bendir ekki til þess, að nein ástæða sje til að hafa vínsöluna aðgreinda frá hinum öðrum einkasölugreinum landsins, er undir landsverslun liggja. Landsverslunin hefir nú á síðustu tímum verið látin draga saman seglin, hún er nú alveg hætt við matvöruverslun og hefir einungis einkasöluvörurnar, tóbak og steinolíu. Virðist svo sem þar hafi nú rýmst svo til, að vel mætti koma vínversluninni þar fyrir. Bæði eru starfskraftar þar góðir og sjálfsagt nokkur húsrýmindi.

Það segir sig sjálft, að það, að hafa verslun landsins í tveimur stöðum, hefir mikinn beinan kostnaðarauka í för með sjer. Fyrst og fremst eru yfirmennirnir tveir og alt, sem til þarf að leggja, tvöfalt. Jeg ætla ekki að fara hjer inn á að sundurliða kostnaðinn við verslanirnar til þess að sýna fram á kostnaðaraukann við að hafa þær tvær, því slíkt er ekki hægt að gera í fljótu bragði, en jeg ætla að benda á það, að eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi aflað mjer — því miður hefi jeg ekki við hendina heildaryfirlit — þá munu einungis starfslaun þeirra, er vinna við áfengisverslun ríkisins, nema um 85 til 100 þúsundum króna. Þar munu nú vera 13 fastir starfsmenn sem stendur, auk aðstoðarmanna. Um laun hvers einstaks er mjer ekki vel kunnugt. Yfirmaðurinn, sem jafnframt er eftirlitsmaður lyfjabúða, mun hafa 15000 krónur. Laun hinna munu vera breytileg, þetta frá 4–8 þúsund krónur. Við þennan kostnað bætist húsaleiga í tveim eða þrem stöðum.

Eins og háttv. þm. er kunnugt, hafa verið gerðar ítrekaðar tilraunir til að draga úr embættismanna- og starfsmannakostnaði landsins. Hefir þetta verkefni verið fengið þessu þingi og síðasta þingi. En alt virðist ætla að verða árangurslaust í þeim efnum. Margt hefir verið borið fram til varnar því, að frv. um fækkun embættismanna verði lögfest, en hjer er talsvert öðru máli að gegna, og varla hægt að koma að sömu mótbárum hjer sem um embættin gömlu. Ekki er áfengisverslunin orðin svo gömul, að á henni hvíli nein forn helgi eins og biskupsembættinu. Ekki virðist það heldur vera svo vandasamt starf að fást við vinverslun, að fjölhæfari menn eða hæfari þurfi til þess en við þær greinar einkasölunnar, er nú heyra undir landsverslun. Starfsmenn hennar ættu fullkomlega að vera þeim vanda vaxnir.

Erfitt er að ætlast á í fljótu bragði, hve mikið níundi sparast við það að sameina verslanirnar; til þess þarf að rannsaka kostnað við hvorttveggja, og annað fleira. Það ætla jeg þó, að spara mætti 2/3 hluta af starfsmannahaldi því, er nú er við áfengisverslunina, eða að minsta kosti 60000 kr. Þar að auki tel jeg víst, að húsaleigukostnaður minkaði að mun, vegna afnota af húsakynnum landsverslunar, sem nú teppast ekki af matvöruverslun. En líklega þyrfti fyrst í stað að nota eitthvað af þeim leigðu húsum.

Annars má þess geta, í sambandi við húsaleiguna, að sá orðasveimur gengur hjer, að leigukjör þau, sem áfengisverslunin verður nú að hlíta, sjeu með afbrigðum hörð, og bæjarstjórn um kent. Veit jeg ekki, hvað satt er í þessu, en ef svo væri, mætti máske lagfæra þetta með sameiningunni; því landsverslunin hefir allgóðan húsakost, en að öðru leyti fer jeg ekki frekar út í það.

Það er auðvitað, að þó lagt sje til í frv. að breyta 4. grein í víneinkasölulögunum frá 1921, og að þessar tvær einkasöluvörur, tóbak og áfengi, sjeu sameinaðar, þá er ekki hægt að leggja niður embætti eftirlitsmanns lyfjabúða fyr en hans ráðningartími er úti, en hann mun nú ráðinn til þriggja ára. Við flm. frv. höfum þess vegna hagað tillögum okkar þannig, að þessi eftirlitsstarfi geti falli niður að ráðningartíma loknum, því að það starf, eftirlit með lyfjabúðum landsins, er beinlínis einn liður í starfi landlæknis og þaðan tekinn, og ætti því eftirleiðis að heyra undir heilbrigðisráðið. Var ekki annað hægt að sjá en skipun þessa eftirlitsmanns 1921 væri hrein og bein vantraustsyfirlýsing til landlæknis.

Jeg ætla ekki að fara út í það, hvernig á þetta muni litið af háttv. landsverslunarforstjóra, Vel trúlegt, að honum sje ekki meir en svo ljúft, að þessi sameining verði gerð, er. á það má ekki líta, því hjer er að ræða um allmikinn sparnað fyrir ríkissjóð, og ef nokkursstaðar er hægt að spara, í opinberu starfsmannahaldi, þá er það hjer.

Jeg býst ekki við að þetta mál, fremur en önnur, nái fram að ganga mótmælalaust, en þetta þarf að athuga vel, og vona jeg, að háttv. deild greiði gang þess til 2. umr. og geri jeg það að tillögu minni, að því verði vísað til allshn., þótt það eftir efni öllu gæti eins vel átt heima í fjárhagsnefnd.