27.03.1923
Neðri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (2978)

107. mál, baðlyfjagerð og útrýming fjárkláða

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Það er raunar óþarfi fyrir mig að taka til máls, því að háttv. frsm. (ÞórJ) sagði rjett og satt frá öllum málavöxtum, og hefi jeg þar engu við að bæta. En jeg áleit þó viðkunnanlegra að standa upp til að lýsa yfir því, að mjer er sönn ánægja að framfylgja þessari tillögu.

Tillagan er í 2 liðum. Fyrri liðurinn, að halda áfram rannsókn á innlendri baðlyfjagerð, er alveg sjálfsagður. Stjórnin fól Gísla gerlafræðingi Guðmundssyni þessa rannsókn; hefir hann haft hana með höndum um nokkurn tíma og býst við að geta lokið henni í ágústmánuði. Að því loknu liggur fyrir að prófa, hvort baðlyfið sje örugt, og reynist það svo, er til þess ætlast, að stjórnin leggi fyrir næsta þing frv. um baðlyfjagerð. Reynist baðlyfið aftur á móti ekki óyggjandi, býst jeg við, að nefndin ætlist til, að rannsóknum verði haldið áfram, en ekki verði ráðist í aðrar framkvæmdir í málinu.

Ef það kemur í ljós, sem full ástæða er til að vænta, að baðlyfið reynist gott og örugt, verður stjórnin að hafa vandlegan undirbúning undir frv. Þarf hún þá mikillar aðstoðar, sjerstaklega frá dýralækninum í Reykjavík. Með því verður lagt á hann talsvert aukastarf, sem jeg efast um, að hann telji sjer skylt að inna af hendi endurgjaldslaust, enda efast jeg ekki um, beri þessar tilraunir góðan árangur, að þingið muni ekki telja eftir, þó að honum verði greidd hæfileg þóknun. Verði þessi tillaga samykt, og ef því verður ekki mótmælt, álít jeg því, að í henni felist heimild fyrir stjórnina til að greiða nauðsynlegan kostnað við rannsókn og undirbúning þessa máls.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um danska baðlyfið, er keypt var síðastliðið haust. Þó skal jeg geta þess, að þó að keypt hefði verið besta tegundin, er kostar kr. 1,40 lítrinn í Danmörku, hefði hún orðið talsvert ódýrari en þau baðlyf, er bændur hafa keypt áður. Kreólín mun hafa kostað 3 kr. lítrinn áður fyr, en að vísu kom yfirlýsing í fyrra frá gömlu lyfjabúðinni í Reykjavík, að hún mundi geta selt það talsvert ódýrara, eða fyrir kr. 1,50 lítrann. Samt þótti A-tegundin of dýr, en B-tegundin var keypt, sú sem kostaði 65 aura lítrinn, þar sem hún þótti sæmilega örugt baðlyf, að dómi Gísla Guðmundssonar og efnafræðings ríkisins. En ástæðan til þess, að baðlyfið varð miklu dýrara í útsölu en menn höfðu búist við og líkur þóttu til, var sú, að brúsamir, sem lyfið var sent í, reyndust afardýrir. Jeg var staddur í Kaupmannahöfn, þegar kaup þessi vora gerð, og var rjett komið að því, að hverfa þyrfti frá kaupunum á baðlyfinu vegna þessa. Það var víða leitað tilboða um þessar umbúðir, og ódýrasta tilboði tekið, en þó þurfti að leggja svona mikið á baðlyfið.

Um gæði þessa baðlyfs skal jeg geta þess, að jeg hefi fengið upplýsingar víða af landinu um, að það hafi reynst mjög vel. Fyrir því hygg jeg, svo sem hv. frsm. (ÞórJ) tók líka fram, að þar sem það hafi ekki komið að haldi, eða valdið tjóni, hafi það verið fyrir handvömm eða ranga blöndun, og megi bæta úr því með rækilegum leiðbeiningum.

Háttv. frsm. (ÞórJ) bar upp þá spurningu, hvort lagt hafi verið fram nokkurt fje til undirbúnings þessa máls. Jeg man ekki eftir því, að svo hafi verið, og geri ekki heldur ráð fyrir, að það verði gert hjer eftir að neinu ráði.

Um það, hversu mikið sje til fyrirliggjandi af þessu baðlyfi, veit jeg ekki, en tel líklegt, að eftirstöðvar birgðanna muni seljast upp í haust.