07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (3091)

140. mál, slysatryggingar

Flm. (Stefán Stefánsson):

Jeg þarf ekki að vera margorður um þessa till. í greinargerðinni eru tekin fram helstu atriðin, sem liggja til grundvallar fyrir því, að hún er fram komin. Er þar bent á, hve mikil nauðsyn sje, að ríkisstjórnin fari að aðhafast eitthvað í þessu máli, svo að þeir menn, sem fyrir slysum verða, sjeu ekki lengur svo báglega settir, sem þeir eru nú. Annars var á þinginu 1921 samþykt till. til þál. um það, að ríkisstjórnin skuli undirbúa og koma fram með frv. til laga um almennar líftryggingar og slysatryggingar. En þar sem líkur eru til, að fleiri ár taki að undirbúa svo yfirgripsmikil lög, og hins vegar lítið starf að undirbúa frv. um slíkar slysatryggingar, þá hefi jeg komið fram með þessa till. í því skyni að reka á eftir ríkisstjórninni með að hraða því máli. Munu flestir viðurkenna, að svo nauðsynlegar sem líftryggingar eru, þá eru þó slysatryggingar enn nauðsynlegri. Þau eru ekki svo fá slysin, sem þegar hafa orðið við þá vinnu, sem till. hljóðar um, og eftir því, sem útlit er fyrir, þá má búast við, að verksmiðjum hjer á landi fjölgi á næstunni, og mundi þá slysum fjölga að sama skapi. Eins er um uppskipun og útskipun. Við þá vinnu verða slys altaf annað slagið, og eru þau heldur að færast í vöxt. Er því sannarlega mál til komið, að samin sjeu lög um þetta, og væri mjög æskilegt, að stjórnin yndi sem bráðastan bug að undirbúningi þeirra og kæmi fram með frv. þessa efnis á næsta þingi.

Vona jeg svo, að hv. deild taki vel í málið og samþykki það mótmælalaust.