20.04.1923
Neðri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í D-deild Alþingistíðinda. (3120)

130. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Tveir hv. þingdeildarmenn hafa nú tekið flest það fram, er jeg vildi sagt hafa, og því mun svar mitt ekki verða langt.

Þó vildi jeg svara nokkru hæstv. forsrh. (SE) og hv. 3. þm. Reykv. (JÞ), enda þótt jeg geti að mestu leyti látið mjer lynda svör þeirra hv. 2. þm. Reykv. (JB) og hv. þmAk. (MK). En það var eitt, sem jeg tók ekki eftir, að andmælt væri hjá hæstv. forsrh. (SE) og hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) og hv. þm. Dala. (BJ). Allir þessir þm. hafa haldið því fram, að við höfum farið fram á rannsókn á bankanum, sem leiddi til vantrausts á honum og spilti áliti hans. En hvorki í þáltill. nje í framsöguræðu minni er minst á rannsókn, heldur aðeins á athugun á þeim atriðum, er þáltill. fjallar um. Tók jeg fram, að jeg ætlaðist til, að þeir trúnaðarmenn þingsins, sem kosnir yrðu, mundu snúa sjer til bankastjórnarinnar og fá hjá henni allar upplýsingar. Tók jeg það einnig fram, að jeg treysti vel bankastjórunum, einkum hinum stjórnskipuðu, til þess að gefa þessa skýrslu. Og þegar þetta er rjett skilið og upp tekið, þá er auðsætt, að tíminn til slíkrar athugunar er nægur.

Hvorki hefir vakað fyrir mjer „kritisk“ rannsókn á bankanum, nje heldur hafði jeg nefnt hana. Þess vegna er allur þessi hávaði málsvara bankans utan við efnið. Hins vegar er nákvæm athugun á hag bankans og upplýsingar um hann ómissandi, til að slá niður þann óhug, er ríkir gegn bankanum í öllum landsfjórðungum. Er engin ástæða til að leggja þetta illa út fyrir oss flm., þótt vjer leitum þessara upplýsinga. En hrópyrði þau, sem hjer hafa fram komið gegn oss, leiða hvorki til gagns eða vinsælda fyrir bankann. Hitt mætti verða, að þau yki fremur á tortrygni fólksins gegn honum.

Liggur hjá oss flm. enginn misjafn tilgangur á bak við till. Sjest það best á því, hversu vægilega var hjer af stað farið á öndverðu þingi. Hirði jeg ekki, þótt kastað sje kaldyrðum að oss fyrir þetta, og er það alt skiljanlegt þeim, sem riðnir voru við deiluna um bankalögin nýju frá 1921, og vissu, hve margir gerðust þá til að halda fram hagsmunum bankans og verja bresti hans og dylja.

Þessi vörn var líka að þessu sinni ljós í ræðu hv. 3. þm. Reykv. (JÞ). Stefndi öll ræðan að því að drepa á dreif aðalefni till. og leiða gruninn á Landsbankann. Vissulega gæti þessi hv. þm. (JÞ) borið fram till. um rannsókn á Landsbankann, ef hann væri hræddur um hag hans, en um það mun hann líklega ekki hirða. En segja vil jeg þessum hv. þm. (JÞ), að hann má ekki ætla, að vjer flm. till. getum tekið skýrslu hans um hag Íslandsbanka með trúarinnar augum. Fleira eða færra þar var ekki litlaust. Einkanlega gætti þess þó, er hann mat gullið, er bankinn hefir til tryggingar, 2/5 meira en nafnverð þess er. Er auðsætt af því og ýmsu öðru, hvað skýrslan var villandi. Mætti minna hv. þm hjer á, að það er skylda bankans að halda seðlum sínum í nafnverði eða jafngildum gulli. Allur verðmunur þeirra frá gullverði er í raun og veru skuld, sem bankinn er í við handhafa seðlana því hastarlegra er það að gera nú seðlana með lággengi að myntfæti og meta gullið langt yfir nafnverð.

Þá upplýsti þessi hv. þm. (JÞ), að tap Landsbankans væri á 4. milj. kr. Um þetta hefi jeg fengið nokkrar upplýsingar og veit nú, að þetta fer mjög fjarri sanni hjá hv. þm. Hitt veit jeg nú, að upphæð sú, sem týnd er hjá Landsbankanum, er tiltölulega lítil, og þar á meðal munu vera nokkrar skuldir, sem nokkrar líkur eru þó til, að greiðist að meira eða minna leyti. Er þetta því alls eigi hliðstætt Íslandsbanka. Enn fremur er mjer kunnugt um það, að Landsbankinn hefir lagt til hliðar upphæð til uppbótar á væntanlegu tjóni, þó að það sje eigi enn þá komið á pappírinn. Væri vel, ef Íslandsbanki hefði lagt jafnvel til hliðar fyrir tjóni sínu. Má vera, að bankinn hafi þegar gert það, en um það sannfærðist jeg eigi af ræðu hv. þm. Annars var alt skraf hv. þm. um Landsbankann og samanburðurinn við hann nauðalíkur gauraganginum undanfarið út af skuldum Sambands íslenskra samvinnufjelaga.

Þegar ýmsir fjárglæframenn og stórbraskarar hjer í höfuðstaðnum höfðu gefið upp skuldagreiðslur eina af annari við bankann og látið vanskilin bitna á fjelitlum skilamönnum í okurvöxtum, sem Íslandsbanki að minsta kosti hefir haldið uppi, þá fyltust þessir braskarar heilagri vandlætingarsemi út af skuldum Sambandsins og æptu að því, þótt enginn eyrir hefði þar týnst og allar skuldir þess væru á þurru landi og tryggar. Alt þetta var til ólíkinda gert, eins og samanburður hv. þm. (JÞ) við Landsbankann, sem ekkert kemur till þessari við, og kemur fram í þessu sama eðlishvötin og hjá beljunum, þegar þær veifa óhreinum hala, af því að þær vilja aðra eins og sig.

Þannig reyna þessir menn að draga athygli fólks frá sjer og yfir á aðra. Kom það fram í ræðu hv. þm. (JÞ), sem og ræðu hæstv. forsrh. (SE), sem annars mælti mjög hóglega og jafnvel vingjarnlega í garð vorra flutningsmanna og taldi, að hagur Íslandsbanka væri góður nú orðið. Slíkt eru að vísu góð tíðindi, en betra væri að fá þau staðfest með athugun trúnaðarmanna þingsins og með reynslu, sem sýndi, að gengið færi hækkandi. Hæstv. forsrh. (SE) og hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) verða að fyrirgefa, þótt trúin hjá oss sje veik á skýrslugjafir þeirra um glæsilegan hag bankans, þegar gengi krónunnar er litlu meira en 2/3 nafnverðsins og dýrtíð í algleymingi hvarvetna.

Hæstv. forsrh. (SE) lagði áherslu á það, að það þyrfti að vera knýjandi ástæða fyrir hendi til þess að ráðast í eftirgrenslun á hag bankans, svo sem vjer krefðumst; hann sagði reyndar „rannsókn“, sem jeg neita, að eigi við orð mín eða till. Jeg er honum öldungis sammála um það, að knýjandi ástæða þurfi að vera fyrir hendi, en sú ástæða er einmitt til, og hefi jeg tekið hana fram áður. Vjer höfum nú um langt skeið búið við lamandi lággengi peninga, og það skiftir miklu máli, hvort og hve nær lagfæring á því er væntanleg.

Þegar menn mæla því ástandi bót með því, að það sje nokkrum mönnum í landinu að liði, þá sjest þeim sömu mönnum yfir það, að annarsstaðar á landinu eru menn sokknir niður í botnlaust skuldafen vegna illvígra ókjara í viðskiftum við bankann og dýrtíðarverðs, sem lággengið skapar.

Jeg ætla mjer eigi að gefa tilefni til að lengja umræðurnar, en þó get jeg eigi að því gert, þó að einhverjir vilji reyna að hrekja orð mín. Yfirlýsingar þær, sem fram hafa komið, einkum frá hæstv. forsrh. (SE) um blómgun bankans, eru auðvitað mikilsverðar og fullkomið gleðiefni, eftir því sem þær þá eru metnar, en þær sýna líka vel, þótt eigi sje nema milli línanna, að spurningar vorar hafa eigi verið að ástæðulausu.

Mjer skildist á ræðu hv. 1. þm. Eyf. (StSt), að hann segði, að bankastjórar Íslandsbanka væru að undirbúa skýrslu um hag bankans, til birtingar fyrir þinginu. Sje svo, þá ætti ekki að þurfa frekari aðgerða við um till., en ekki rætast allar vonir, og má vera, að lítið verði úr þessari líka.

Enda þótt margt hafi það verið í ræðum þeim, sem haldnar hafa verið á móti okkur flutningsmönnum, sem ástæða hefði verið til að svara, þá ætla jeg þó, til að lengja eigi umr., að sýna þá sjálfsafneitun að sleppa þeim flestum. Læt jeg mig hjeðan af litlu skifta, hvort till. gengur fram óbreytt eða ekki, því að bæði er málið orðið margspjallað og tafið í ótíma af málfærslumönnum bankans, og hins vegar virðist von á skýrslu um tryggingar enska lánsins og aðrar niðurstöður bankastarfseminnar næstl. ár, eftir því sem hæstv. forsrh. (SE) og hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) hafa látið á sjer skilja.

Það var ýmislegt í ræðu hv. þm. Dala. (BJ), sem mjer kom ókunnuglega fyrir. Er jeg eigi viss um, að það sje rjett hjá þeim hv. þm., sem hann hjelt fram, að þegar auka ætti seðlaútgáfuna af nýju vegna þess, að Íslandsbanki hefði fest í útlánum seðlalán Landsbankans, þá væri aukning seðlanna í þarfir almennings. Finst mjer það einkar hæpin kenning, því ef Íslandsbanki fær fje að láni hjá Landsbankanum og festir það í hættulegum fyrirtækjum, þá er það eigi fyrir þarfir almennings, að aukin er seðlaútgáfan, heldur ef til vill hreint og beint gert vegna bralls með seðlana, sem leitt getur til þess að halda seðlaverðinu niðri.

Líka er það hæpin ályktun hjá hv. þm. (BJ), að það sje einungis fyrir greiðasemi bankans við atvinnuvegina, að svo mikið hefir týnst af fje og vaxtakjörin eru svo þungbær. Víst er um það, að mikið fje hefir týnst, en það hygg jeg sanni næst, að mest hafi það farist í þeim fyrirtækjum, sem lítinn eða engan stuðning veita atvinnuvegunum.

Ýmsar fleiri hæpnar kenningar um lofsamlegar athafnir bankans flutu með olnbogaskotunum til vor flm. hjá hv. þm., en ekki borgar sig að elta þær. Aðalatriðið er það, að fram hefir komið yfirlýsing um, að skýrsla um hag bankans sje í vændum. Í því er nokkur viðurkenning fólgin. En þótt efndir verði litlar á þessu, þá er þess að vænta, að athygli verði veitt starfsháttum þessarar stofnunar eftirleiðis.