11.04.1923
Efri deild: 37. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í D-deild Alþingistíðinda. (3250)

129. mál, húsmæðraskóli á Staðarfelli

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg vildi aðeins benda hæstv. atvrh. (KIJ) á það, að þegar tekið var við Staðarfelli, hvort sem það nú heldur var gjöf eða sala, þá var gert ráð fyrir því, að jörðin og skólinn yrðu eitt og hið sama. Er það því afgerður hlutur, sem ekki er hægt að rifta nema brjóta rjett á hjónunum, sem gáfu jörðina með þessu skilyrði. En af því að jeg sje, að hv. 4. landsk. þm. (JM) ætlar að taka til máls, en jeg hins vegar mun varla taka aftur til orða í þessu máli, þá vil jeg taka það fram, að þótt það ef til vill sje ekki lagalega bindandi, þá er það þó siðferðislega sjeð afgerður hlutur. Af því leiðir, ef ekki getur verið um annan stað að ræða, þá er bara eftir það atriði, hversu lengi tefja skuli málið.

Ef smátt er byrjað, með kenslukonu, sem er tilbúin að taka við starfanum, og 12 nemendum, sem er jafnhá tala og er á hverju hússtjórnarnámsskeiði við kvennaskólann hjer, þá þarf ekkert fje úr landssjóði til þess. Og þótt þetta muni litlu, þá er nú of lítið gert fyrir sjermentun kvenna. Má þá stækka skólann síðar, er ástæður leyfa.