14.04.1923
Neðri deild: 42. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í D-deild Alþingistíðinda. (3397)

32. mál, landsspítali

Forsætisráðherra (SE):

Það er rjett hjá hv. fyrirspyrjanda (JB), að landsspítalinn er ein af þeim stofnunum, sem heimild er til að byggja í lögum, og til þeirrar byggingar má einnig taka lán. En eins og hv. fyrirspyrjanda (JB) mun jafnkunnugt, hefir ekki getað orðið úr þessu enn, sökum hinna erfiðu tíma. Jeg er annars samdóma hv. þm., að ekki verði hægt að reisa landsspítalann án þess að taka lán. En þótt bara sje um það að ræða að taka lán, þá er ekki hlaupið að því á hverri stundu, sem vera skal. Ríkissjóðurinn verður fyrst og fremst að hugsa um að sjá þeim fyrirtækjum borgið, sem hann er byrjaður á. Nú er Flóaáveitan efst á dagskrá, þá kemur Kleppsspítalinn, sem ómögulega getur beðið lengur, og auk þess er nú í ráði hjá þinginu að kaupa strandvarnarskip. Það er því auðsætt, að í mörg horn er að líta. Og þótt um lán sje að ræða, þá verður það líka að vera takmörkum bundið. Við verðum þó að sjá fótum okkar svo forráð, að við fáum klofið afborganir og vexti af þeim lánum. Það fer því líka undir efnum og ástæðum, hve nær hægt er að taka slík stórlán. Og á slíkum tímum, sem nú standa yfir, verðum við að reyna að takmarka okkur á allan hátt í þeim efnum.

Jeg sje mjer því ekki fært að gefa ákveðnari loforð í þessu efni en jeg hefi gert nú.