09.05.1923
Neðri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í D-deild Alþingistíðinda. (3437)

62. mál, steinolíueinkasalan

Jón Þorláksson:

Jeg er hæstv. atvrh. (KIJ) þakklátur fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf um afstöðu stjórnarinnar til þessa máls. Hann staðfesti það, sem jeg hafði áður haldið fram, að hæstv. stjórn hefir farist svo klaufalega í þessu máli, að hún hefir með því stygt voldugasta stórveldi heimsins, og mætti þó halda, að nokkum veginn takmarkalausan klaufaskap af okkur smælingjunum þyrfti til þess, að stjórn Bandaríkjanna í Ameríku tæki eftir því.

Hann skýrði frá því, að hann hefði ekki haft afskifti af því, hvaðan leitað var sölutilboða um steinolíu, en gat þess þó jafnframt, að hann mundi ekki hafa leitað til danska steinolíufjelagsins, þótt hann hefði ráðið. En hver hafði orð á því? Það fjelag er ekki steinolíuframleiðslufjelag, en hitt hefði ekki verið nema sjálfsögð skylda, að aðalframleiðslufjelaginu, Standard Oil Company, hefði gefist kostur á samningum. Og ástæðan, sem hann kom með gegn því að semja við danska fjelagið, var líka út af fyrir sig harla ljettvæg, eða með öðrum orðum alveg óframbærileg. því þótt það fjelag hefði sent mann til samninga fyrir 10–12 árum á fund nefndar, sem auk þess hafði enga heimild til að semja um kaup á steinolíu, og þótt hann hefði þá stygst eitthvað við sendimanninn, þá var fyrir þá sök eina alls ekki rjett að ganga fram hjá því. En auðvitað var það Bandaríkjafjelagið, sem fyrst og fremst bar að leita til. Það er almenn kurteisi milli þjóða, sem krefst þess, að fjelagi, sem áður hefir birgt landið upp, gefist kostur á að bjóða vöru sína, og því var það eigi nema rjettmætt, að stjórn Bandaríkjanna tæki upp þykkjuna fyrir það fjelag, sem hjer átti hlut að máli. Enda staðfestist líka tilgáta mín um sambandið milli þessa og ullartollsins. Að minsta kosti setur sendiherrann í Washington það í samband hvað við annað. Raunar bera ummæli hans þess vott, að honum hefir ekki verið ljóst, hve nær samningamir voru gerðir við enska fjelagið, en víst er um það, að ekkert heyrðist um hækkun ullartollsins fyr en eftir 10. ágúst 1922, og það segir sig sjálft, að úr því að tollurinn kom á eftir steinolíusamningnum, þá er samband þessara hluta þannig, að tollhækkunin er hefnd fyrir samninginn, en hitt er ekki til neins að bera fram, að útilokunin á Standard Oil sje hefnd fyrir ullartollinn, sem seinna kom.

Hæstv. atvrh. (KIJ) skírskotaði til nál. meiri hlutans frá síðasta þingi. Það tjáir samt ekki. Það er fullkomlega ljóst, að meiri hlutinn vildi ekki fara út í einkasölu á steinolíu, og sjest það af því, sem hann sjálfur las upp, og orð frsm. benda á alt annað en að slík hafi verið ætlunin þá. Hitt var álitið rjettmætt, að landsverslunin hjeldi uppi samkepni við steinolíufjelagið, og við það var auðvitað ekkert að athuga. En nú hefir það upplýst, að um hitt hefir verið rætt innan Framsóknarflokksins, en svo vendilega hefir verið um það þagað, að það barst ekki út.

Viðvíkjandi framtíðinni gat hæstv. atvrh. (KIJ) þess, að hann væri fús til þess að segja upp samningnum frá 31. des. 1924, og upplýsti það, að danska fjelaginu hefði verið gefið einhverskonar loforð eða vilyrði fyrir því, að svo yrði gert.

Þegar verið er að tala um það hjer í deildinni, að við sjeum að ganga fram fyrir hönd steinolíufjelagsins í þessu máli, þá verð jeg að segja, að lítil rök eru færð fyrir því. En hæstv. ráðherra (KIJ) hefir þótt rjettara að eiga meiri mök við danska fjelagið um þetta en sjálft Alþingi. Við, sem sitjum hjer á þingi, höfum að minsta kosti ekkert fengið að vita, sem jafnist á við þessa skriflegu „uppáteikningu“ hjá danska fjelaginu. En annars er best að svara ummælum þeirra hv. þm. Ak. (MK) og hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), að við værum að reka erindi steinolíufjelagsins. Ef til vill gætu þeir gert sjer von um, að einhver yrði til að leggja trúnað á þetta, ef það væri ekki öllum kunnugt fyrir fram, að við viljum yfirleitt hafa frjálsa verslun og erum algerlega mótfallnir einkasölu á öllum nauðsynjavörum. Annars hefir mjer borist sá orðrómur, að íslenska steinolíufjelagið sje ekki svo mjög óánægt með kosti sína og kjör, eins og málum er komið. Og jeg geri ráð fyrir, að alla ánægju þar megi mæla í krónum og aurum, og fyrst fjelagið er ánægt með sinn hlut, þá er það af því, að svo mikið fellur í skaut þess af krónum og aurum, og þarf engum getum að leiða að því, að þeir, sem borga, eru þeir, sem nota landsverslunar-steinolíuna.

Hæstv. atvrh. (KIJ) talaði um, að sjer hefði verið borið á brýn leynimakk og leynisamningar, en enginn, svo jeg viti, hafði orð á slíku. En það, að hann fór að bera það af sjer, gæti sýnt, að hann hefði eitthvað misjafnt á samviskunni í því efni. Og vel kann það að vera, að eitthvað talsvert sje af leynisamningum kringum þetta mál, og ekki er víst, hvaðan ánægja Hins íslenska steinolíufjelags er sprottin.

Jeg hafði ekki ætlað mjer að lengja hjer umræðurnar um skör fram frá því, sem orðið var, og fer því ekki langt út í ræðu hv. þm. Ak. (MK). Bæði hann og hæstv. atvrh. (KIJ) mintust á sölu landssjóðsskipanna. Gaf jeg þeim samt ekkert tilefni til þess. Má líka segja, að það sje neyðarúrræði að fara að selja þau nú, þótt það á hinn bóginn væri ef til vill heppilegra heldur en halda þeim úti með stöðugu tapi. Vil jeg að sinni engan dóm á það leggja, hvað rjettast væri að gera í því efni.

því, sem hv. þm. Ak. (MK) vjek að mjer persónulega, verð jeg að svara fám orðum. Hann sagði, að jeg talaði mjer oft þvert um geð. Þessi ummæli hans sýna það eitt, hversu oft þeim hv. þm. (MK) skjátlast í því, hvað sje rjett mál. Því það á jeg forsjóninni að þakka, að ástæður mínar leyfa mjer að segja með fullri einurð í hverju máli það, sem jeg meina, án tillits til þess, hverjir í hlut eiga, og þetta nota jeg mjer ávalt hjer í þinginu, ekki síður en annarsstaðar.

Hann sagði einnig, að jeg hefði verið að ráðgera það, hvernig jeg ætlaði að haga mjer á næsta þingi. Ekki var það nú rjett. En um hitt talaði jeg, hvernig jeg ætlaði að haga mjer við næsta kosningaundirbúning. Það er áreiðanlega rjett, sem hv. þm. Ak. (MK) sagði um sjálfan sig, að hann veit ekkert um það, hvort hann verður á næsta þingi eða ekki. En þetta á ekki við mig, því að jeg veit alveg fyrir víst, hvort jeg verð á næsta þingi eða ekki. En jeg kæri mig ekkert um að segja honum það hjer.

Loks sagði hv. þm. Ak. (MK), að landsverslunin væri með þessu steinolíubraski að bjarga landsmönnum úr höndum erlendra fjárplógsmanna. Jeg hefi kanske ekki næga trú á landsmönnum, en því trúi jeg þó, að þeir geti betur bjargað sjer sjálfir heldur en hr. Magnús Kristjánsson, forstjóri landsverslunarinnar og fiskimatsmaður á Akureyri, og hr. Hjeðinn Valdimarsson, skrifstofustjóri sömu verslunar og formaður verkamannafjelagsins Dagsbrúnar, geta gert. Svo að þessu leyti held jeg, að hv. þingmaðurinn hafi gert of mikið úr sjer og of lítið úr þjóðinni.