09.05.1923
Neðri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í D-deild Alþingistíðinda. (3438)

62. mál, steinolíueinkasalan

Jón Auðunn Jónsson:

Þar sem hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) var að bera það á mig, að jeg gengi hjer erindi erlends olíufjelags, þá eru slíkt vísvitandi ósannindi og blekkingar. Og þó að þessi hv. þm. hafi stundum fengið orð fyrir að ganga erindi erlends fjelags, má hann ekki ætla öðrum það sama.

Viðvíkjandi olíuverðinu, sem rætt hefir verið hjer og sagt, að jeg vildi, að gróðinn færi í vasa erlendra milliliða, skal jeg geta þess eins, að jeg vil, að útgerðarmenn fái gróðann sjálfir, á þann einfalda og sanngjarna hátt, að þeir fái olíuna við sannvirði. Því það get jeg sannað, sem jeg sagði, að hægt hefði verið að fá olíu, einkum hráolíu, jafnvel í smærri kaupum, alt að 35–50% ódýrara en landsverslunin seldi.