05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í D-deild Alþingistíðinda. (3446)

108. mál, ullariðnaðarmálið

Fyrirspyrjandi (Eiríkur Einarsson):

Jeg vil leyfa mjer að þakka hæstv. atvrh. (KIJ) fyrir svörin og yfirlit það, sem hann gaf um störf nefndarinnar. Jeg vil aðeins skjóta því fram, þar sem hæstv. atvrh. (KIJ) felst á tillögur nefndarinnar, að hafa eina klæðaverksmiðju á Suðurlandi, auk Gefjunar á Akureyri, hvort hann hugsi sjer, að bráðlega verði hafist hana á einhvern hátt til undirbúnings því máli. Jeg vil drepa á þetta, til þess að fá vísbendingu um, hvers er að vænta og hvort hæstv. stjórn vill hreyfa málinu nokkuð frekar. Jeg spyr þessa því fremur, sem hæstv. atvrh. (KIJ) gat þess fyrir skömmu, að ef til vill væri von um að fá einhverskonar tilboð frá Englandi, að einhver maður þar mundi vilja takast á hendur að reisa slíka verksmiðju, er ríkið ætti að þriðjungi, einstakir menn að öðrum þriðjungi og hann sjálfur legði fram þriðjung. Taldi hann, að kostnaður mundi ekki fara mikið fram úr 1 miljón kr. Mjer þótti þetta merkilegt, og þætti mjer æskilegt að heyra eitthvað frekar um það, hvort nokkuð hefði gerst í málinu síðan, hvort eitthvert fjelag væri líklegt að sækja þetta mál með alvöru og hvernig hæstv. stjórn mundi þá taka því. Alþýða manna gefur þessu máli mikinn gaum og ætlast til, að engar upplýsingar verði látnar liggja í láginni og alt gert, er verða má svo merku málefni til framgangs.

Jafnframt því að forvitnast um þetta, leyfi jeg mjer að skjóta því til hæstv. atvrh. (KIJ), hvort hann álíti ekki hagkvæmast og málinu best með því borgið, að ullariðnaðarnefndin hjeldi störfum sínum áfram að einhverju leyti. Væri þá heppilegt að bæta nýjum manni í nefndina, í stað þess, sem látinn er, ef stjórnin teldi sig hafa heimild til þess. Ef stjórnin er hlynt málinu og vill vinna að framgangi þess, tel jeg nauðsynlegt, að hún haldi áfram að hafa nefnd þessa við hönd sjer til aðstoðar og ráðuneytis.