30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

92. mál, hlunnindi

Eiríkur Einarsson:

Jeg vil gera grein fyrir atkv. mínu um þetta mál. Jeg tel margt vera til gildis þessu frv. og þekki marga af þeim heiðursmönnum, sem að þessu máli standa, og veit, að þeim gengur það eitt til, er þeir ætla vera til þjóðþrifa. En þó er margt varhugavert við þetta. Það vaknar hjá manni spurningin, sem svo margir eru nú að velta fyrir sjer, hvort ekki sje til nóg veltufje í landinu. Jeg segi fyrir mitt leyti, að það má líta á það mál frá ýmsum hliðum. Ef vel væri með það fje farið, sem vjer höfum, og því væri varið til þess að auka framleiðslu til lands og sjávar eða annara mjög nauðsynlegra hluta, þá gæti jeg tekið undir með þeim, sem segðu aldrei vanta veltufje. En á þessu er allmikill misbrestur, og það gerir allan mismuninn. Það hefir verið varið alt of miklu fje til kaupa á ýmsu, sem betur aldrei hefði keypt verið, og til ýmislegra varhugaverðra „spekulationa“.

Jeg vil ekki halda því fram beinlínis, að þessi fyrirhugaði nýi banki verði „spekulations“ fyrirtæki. Nöfn ýmsra þeirra, sem að honum standa, nægja til að sýna, að sú er ekki ætlunin, hver sem reyndin verður. En á meðan ekki eru fastari skorður reistar en raun er á, um hvernig umráðafje landsmanna skuli varið, svo að það komi sem best að þjóðnotum, er naumast rjett að sækjast eftir meira fje til handahófsstarfrækslu í landinu. Er því best að bíða og sjá.

Þá þykir mjer lítil trygging fyrir því, að þessum banka, er myndi verða smár í uppvexti, tækist betur en t. d. þjóðbanka vorum að auka lánstraustið erlendis eða afla veltufjár til nauðsynlegra aðgerða. Þá er annað, sem veldur því, að jeg get ekki gefið þessu frv. atkv. mitt, en það er, að þessari stofnun er ætlað að versla með sparisjóðsfje manna. Það er ekki þar með sagt, að bankanum geti ekki farið það vel úr hendi, en jeg álít ekki nógu tryggilegt að veita banka, sem starfar að mestu með útlendu fje og með útlenda hagsmuni fyrir augum, rjett til þess að taka við sparisjóðsaurum landsmanna. Þær stofnanir, er slíkan rjett hafa, verða að vera undir svo nákvæmu opinberu eftirliti, að mjer finst ekki geta komið til mála, að slíkt leyfi sje veitt þessum banka, nema rjettur ríkisins gegn honum sje miklu betur trygður en er samkvæmt frv. Það er nú líka svo, að alment er talið, að æskilegt væri að öðruvísi væri ástatt með tryggingar banka, sem fyrir eru, gagnvart ríkinu, en jeg skal ekki fara út í það nú. En hitt er auðsætt, að því fleiri bankar sem eru, þess meiri er hættan að illa fari. Er það dýrkeypt reynsla, ef illa tekst til með bankastofnanir, og þarf ekki annað en minna á, hvernig fór í Noregi nú fyrir skemstu. Þó að vonandi sje, að svo fari ekki hjer. Þá er þó altaf hætta á, að illa geti viljað til, og það er í sjálfu sjer mjög varhugaverð stefna að veita útlendingum gálausleg sjerleyfi, þótt í smærri stíl væri en hjer er farið fram á. Það er með peningaverslunina eins og vatnsaflið, að því máttugri sem við verðum að nýta það sjálfir, þess minni rjettindi ber oss að veita útlendingum til þess að hagnýta það. En ekki er jeg með þessu að andæfa því, að rjett sje að leita útlendrar hjálparhandar, þar sem við erum ekki sjálfir megnugir að velta steini úr vegi.