02.05.1923
Neðri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

92. mál, hlunnindi

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Jeg mun ekki svara háttv. 1. þm. Rang. (GunnS) frekar en jeg hefi gert. Í frv. er heimild til að hafa 3 milj. kr. höfuðstól, og ef háttv. þm. gæti útvegað forgöngumönnum þessarar stofnunar 3 miljónir í stað 2, tel jeg víst að þeir mundu kunna honum þökk fyrir. Jeg skildi brtt. hans sem tilraun til að stöðva málið, og gleður mig að heyra, að svo er ekki.

Háttv. þm. Ak. (MK) þarf jeg heldur ekki að svara miklu. Það er auðvelt að gera samanburð á skattgjaldi til ríkissjóðs eftir þessu frv. og tillögum nefndarinnar 1920. Jeg hefi gert það og miðað við, að bankinn græði þó milj. kr. árlega, og er það sá mesti gróði, sem með nokkru móti verður gert ráð fyrir með 2 milj. kr. höfuðstól, og þó vafalaust of mikið. Eftir tillögum nefndarinnar 1920 yrði gjaldið af þessum arði 37000 kr., en eftir þessu frv. rúmlega 50000 kr. Liggur í augum uppi, hvar lengra er farið. Það er síður en svo, að slakað hafi verið á kröfunum síðan 1920; þær hafa einmitt verið auknar.

Um hinar brtt. á þskj. 510 skal jeg ekki fara fleiri orðum. Þær eru lítilsverðar, en sá frestur til hlutafjársöfnunar, sem þar er farið fram á, gæti orðið til þess að draga allar framkvæmdir um misseri, og því óheppilegt að samþykkja þær.