09.05.1923
Efri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

92. mál, hlunnindi

Jónas Jónsson:

Jeg ætla mjer eigi við þessa umræðu að fara út í einstök atriði málsins. Jeg gerði ekki ráð fyrir því, að hæstv. forseti mundi taka málið til umr. nú, eftir þær umræður, sem nú hafa orðið. En til að freista að víkja málinu til rjettrar leiðar, hefi jeg hugsað mjer að koma fram með rökstudda dagskrá, því að hún skýrir að nokkru leyti afstöðu mína til málsins. — Þessi dagskrártillaga mín hljóðar svo:

Með því að fjelag það, sem biður hjer um hlunnindi fyrir nýjan banka, hefir eigi fært sönnur eða jafnvel líkur fyrir því, að það ráði yfir nægilegu fjármagni til stofnunar bankans, og með því ennfremur, að nánari athugunar þarf um nauðsyn bankans og áhrif hans á hag þeirra bankastofnana, sem fyrir eru í landinu, telur deildin ekki tímabært að afgreiða frumvarpið og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.

Eins og háttv. þm. hafa heyrt, hefi jeg leyft mjer að koma fram með þessa rökstuddu dagskrá, aðallega af tveim ástæðum. Fyrri ástæðan er sú, að það vantar allar sannanir fyrir því, að frv. Þetta verði nokkurn tíma að gagni í framkvæmdinni. Og hin ástæðan er sú, að jeg tel alls eigi hægt að taka afstöðu til svona máls á þeim stutta tíma, sem þingið á eftir að standa.

Hvað snertir fyrri ástæðuna, þá ber frv. alls eigi með sjer, að stofnunin hafi neina tryggingu fyrir peningum þeim, sem hún þarf, og það kemur hvergi fram í áliti nefndanna, sem um málið hafa fjallað, hvorki efri nje neðri deildar nefndarinnar, og í umræðunum hefir það eigi komið fram. Jeg er því, þegar af þessari ástæðu, á móti frv. Ennfremur hefir hv. frsm. meiri hl., 2. þm. S.-M. (SHK), tekið það fram, að sannanir fyrir því, að fje fáist, sjeu eigi fyrir hendi. Álít jeg, að vjer Íslendingar getum eigi oftar vansalaust veitt slík sjerleyfi, sem hjer um ræðir, alveg út í bláinn. Á jeg hjer eigi við Íslandsbanka. Þegar hann fjekk sitt misheppilega leyfi forðum daga, var þó látið glamra í peningunum á kistubotninum. Því var meira að segja haldið þá fram, 1899, að auðmennirnir mundu sópa peningunum í vasann og fara með þá heim, ef leyfið yrði ekki veitt samstundis. Aftur hafa tvenn lög verið afgreidd frá Alþingi í jafnlausu lofti sem þetta fyrirtæki. Eru það hin svonefndu eldfjallasandslög. Þar var manni á Seyðisfirði, er eigi þykir neinn sjerstakur fjesýslumaður, fengið einkaleyfi til að vinna eldfjallasand. Hin lögin eru einkaleyfi til saltvinslu úr sjó hjer við land. Bæði þessi einkaleyfi voru notuð erlendis til þess að stofna humbugsfjelög. Síðan lög þessi voru samþykt er þeirra altaf minst í sambandi við hlægilegar og vanhugsaðar tillögur, sem stefna í þá átt að leyfa bröskurum að leika sjer erlendis með íslensk sjerleyfi.

Jeg skal nú skýra nokkuð frá því, sem mjer er kunnugt um þetta bankamál, sem hjer liggur fyrir. Þess er þá fyrst að minnast, að laust eftir ófriðinn mikla hugðust nokkrir efnamenn hjer að koma upp nýjum banka og fá til þess fje erlendis. Fóru menn í því skyni til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar. Ætluðu þessir menn svo að fá sjerleyfi. svipað því sem hjer um ræðir, en úr þessu varð þó eigi í þetta skifti. Þegar málið var á döfinni. sagði einn háttv. þm., sem nú á sæti í hv. Nd., sem sje hv. þm. Dala. (BJ). — jeg man eigi hvort hann sagði það í þingræðu eða utan þings, — að ef þetta sjerleyfi væri veitt, þá ætlaði hann að biðja um annað sjerleyfi og selja það erlendis og græða miljón á því. Í þessu liggur að vísu engin sönnun gegn þessum banka, sem nú er til umræðu, en það sýnir þó ljóslega, hvernig litið er á veitingu slíkra sjerleyfa. Þeir menn eru eigi nema örfáir, sem efast um framsalsgildi þess sjerleyfis, sem hjer ræðir um. Jeg sje eigi betur en að frv. sje svo orðað, að auðvelt sje að framselja þau rjettindi, sem samkvæmt því verða veitt, þar sem aðeins er talað um þá, sem „nú eru í stjórn“ fjelagsins; en engu orði er minst á það, að eigi megi framselja rjettindin.

Í fyrra vetur heyrði jeg svo aftur þessa bankamáls getið. Þá var það, að ungur maður, sem rekið hefir hjer nokkurs konar miðlarastarfsemi og sölu á erlendum gjaldeyri hjer í bæ, fór eitthvað að tala um stofnun nýs banka. Var það af flestum tekið sem spaug. Þessi ungi maður sigldi svo árið sem leið til Noregs og dvaldi þar alllengi. Komu þá. þær frjettir hingað heim, að nægir peningar fengjust í þennan fyrirhugaða banka. Svo er það, að snemma í vetur kemur mikilsvirtur lögfræðingur, sem er í þjónustu landsins, til mín og er mjög að falast eftir atkvæði mínu í sambandi við þennan nýja banka, sem hann gaf í skyn, að mundi leita til þingsins í vetur um einhver hlunnindi. Jeg vildi vitanlega fá upplýsingar um það. hvort nokkur von væri um peninga handa bankanum, en fjekk ekkert svar því viðvíkjandi. Jeg hitti svo þennan mann af tilviljun á götu eigi alls fyrir löngu, og spurði hann mig þá, hvernig gengi með þennan banka í þinginu. Jeg beindi aftur þeirri gagnspurningu til hans, hvort hann væri eigi enn þá með í því að ýta þessu máli fram. Hann kvað nei við því. Kvaðst hann hafa haft þá trú í vetur, að peningar til bankans mundu fást frá Noregi, en svo hefðu æ komið verri og verri frjettir og að síðustu hefði hann skilið fjelagsskapinn við bankakongana. Virtist mjer sem þessi maður gerði gys að þingmönnum yfirleitt fyrir það traust, sem þeir hefðu á þessari loftkendu bankahugmynd. Maður þessi er mjög gætinn og áreiðanlegur. Hann hefir við nánari kynningu litið svo á þetta mál, að hann hefir kosið þann kostinn að draga sig út úr fjelagsskapnum. Enda hefir það, eins og jeg hefi áður tekið fram, eigi verið sannað í umr. um þetta mál nú á þingi, að nokkrir peningar til stofnunarinnar sjeu í boði, Er hjer því um samskonar fyrirtæki að ræða og járnsandinn og saltvinsluna forðum, að nú á að veita sjerleyfi, sem leyfishafar geta framselt og grætt á því, Er engin trygging fyrir því, að úr þessari bankastofnun verði, enn síður, að nokkur trygging sje fyrir, að hún verði þjóðinni til gagns.

Meiri hluti nefndarinnar hjer í deildinni neitaði að fá stjórn þjóðbankans til viðtals um málið, en jeg hitti í gær einn af bankastjórum Landsbankans og spurði jeg hann um það, hvað hann vissi um þennan banka. Kvaðst hann ekkert um hann vita, en að sjer þætti leiðinlegt, ef þingið ætlaði sjer að fara að veita slíkt sjerleyfi sem þetta, alveg út í bláinn. Sagði hann ennfremur, að norski konsúllinn hefði eigi heyrt getið um neitt norskt fjelag í sambandi við þennan fyrirhugaða banka. Þar sem málið er svo gersamlega óundirbúið. finst mjer eigi ósanngjarnt að fara fram á það, að háttv. þm. líti dálítið nánar á þetta mál, því eins og það er nú, svífur það mjög í lausu lofti, og sje jeg því enga ástæðu til, að það nái fram að ganga að sinni. Og þar eð háttv. frsm. meiri hl. hefir lýst yfir því, að eigi liggi fyrir meiri gögn í málinu en hann hefir þegar skýrt frá, þá er besta lausnin sú, að láta málið bíða til næsta þings. Svo afhendi jeg hjer með hæstv. forseta dagskrána.