11.05.1923
Efri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

92. mál, hlunnindi

Frsm. meiri hl. (Sigurður Hjörleifsson Kvaran):

Háttv. 5. landsk. þm. (JJ) byrjaði ræðu sínu með því að taka í strenginn með mjer, að ekki þýddi að halda langar ræður, en satt að segja fanst mjer hann samt vera nokkuð langorður og að ræða hans hefði, honum að skaðlausu. mátt vera nokkru styttri, því að í raun og veru kom ekkert nýtt fram í ræðu hans. Háttv. þm. mintist enn á hættuna á því, að verslað yrði með leyfið. Skil jeg ekki nú frekar en fyr óttann við þá hættu. Þó jeg ætli mjer ekki að tala mikið um þann ástæðulausa ótta, þá vildi jeg benda háttv. 5. landsk þm. (JJ) á eitt atriði, sem ef til vill kynni að draga lítið eitt úr honum, sem sje það, að mjer er ekki kunnugt um, að landi þessu bjóðist peningar yfirleitt. Miklu fremur mun vera ástæða fyrir okkur að leita eftir peningum en búast við því, að aðrir leiti að okkur, til þess að bjóða fram peninga sína. Það mun líka vera mjög sjaldgæft í heiminum, að peningum sje troðið upp á menn, til þess að þeir sjeu notaðir í ákveðin fyrirtæki, nema því aðeins, að vissa sje fyrir því, að fyrirtækið gefi óvenjulega góðan arð og sje ágóðavænlegt í framtíðinni; en það verður því miður ekki sagt um fyrirtæki, sem hjer eru rekin nú, og heldur ekki mun reynsla þeirra, sem lagt hafa fje í einkabankastofnunina hjer, það er að segja Íslandsbanka. vera svo góð, að hún hvetji aðra til þess að ráðstafa fje sínu á þvílíkan hátt. Til frekari áherslu vil jeg svo að endingu endurtaka það, að sú niðurstaða að við þurfum fremur að hafa fyrir því að útvega peningana en að búast við því, að þeir verði lagðir upp í hendurnar á okkur, er bæði eðlilegri og einkanlega langtum samkvæmari kringumstæðunum, eins og þær eru núna á voru landi.