27.04.1923
Neðri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

121. mál, varnir gegn berklaveiki

Sveinn Ólafsson:

Jeg get byrjað með því að þakka háttv. allshn. fyrir meðferð hennar á frv. Vænti jeg, að jeg þurfi ekki frekar að sýna nú en jeg gerði við 1. umr., hvernig þessu máli er farið úti um land, þar sem mest er kvartað undan framkvæmd berklavarnalaganna. Aðeins í tveim af þeim sýslum, sem jeg hefi sjeð skýrslur úr um þetta efni. hefir gjaldið orðið lægra en 2 kr. Á jeg þar við Húnavatnssýslu og Eyjafjarðarsýslu. En í skýrslum frá þessum sýslum er þó tekið fram, eins og hjá öllum hinum, að fyrirsjáanlegur sje á þessu ári mikill kostnaðarauki. Allar hinar sýslurnar eru fyrir ofan hámarksgjaldið, sem frv. tiltekur. Viðvíkjandi brtt. háttv. þm. Dala (BJ) skal þess getið, að vjer flm. gátum ekki orðið á eitt sáttir um það, hvað gjaldið skyldi vera hátt, og varð loks að samkomulagi að setja kr. 2.25, En jeg verð að segja, að mjer þótti það of hátt, og get því best felt mig við varatill. háttv. þm. Dala.

Í flestum tilfellum mun meðlag með sjúklingum þessum í sjúkrahúsum vera 5 kr. á dag, og er þá hlutfallið það sama og gert er ráð fyrir í berklavarnalögunum, sem sje 2/5 sýslusjóði og 3/5 úr ríkissjóði. Auðvitað er það tóm tilviljun, á hvaða sýslu leggjast mest útgjöld vegna berklavarna. En þar sem þau gjöld keyra úr hófi, virðist sanngjarnlegt, að ríkissjóður beri bróðurpart gjaldsins; sumpart vegna þess, að byrðin getur þar orðið hjeruðunum of þung, og er jafnvel orðin það, en einkum þó vegna þess, að landssjóði ber að annast sóttvarnir, og berklavarnirnar eru fyrst og fremst sóttvarnir, fyrirskipaðar af Alþingi og heilbrigðisstjórninni.

En þar sem háttv. þm. Dala. (BJ) hyggur, að sýkingin sje mest í þeim hjeruðum, sem menn fjölmenna í til að leita sjer atvinnu, þá held jeg, að það sje nokkuð vafasöm tilgáta. Má t. d. benda á N.-Múlasýslu og Dalasýslu, er virðast einna verst staddar í þessu efni, en á þeim stöðum er lítið aðstreymi fólks. Hins vegar má nefna Suður-Múlasýslu, sem virðist talsvert minna sýkt, þrátt fyrir það, að þangað er mikið aðstreymi af mönnum í ver.

Skal jeg að lokum lýsa því yfir, að mjer mundi kærast, að samþykt yrði varatill. hv. þm. Dala. (BJ), og hygg jeg, að hún fari meiri óskum margra annara.