19.03.1923
Neðri deild: 23. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

24. mál, fjáraukalög 1922

Forsætisráðherra (SE):

Fjármálaráðherra er ekki viðstaddur nú sem stendur, en hann kemur bráðum, svo jeg geymi honum að svara þeim almennu athugasemdum, er honum koma við, en vil aðeins með fáum orðum svara því, er mig snertir og mínar persónulegu fjármálasyndir.

Þar er þá fyrst launaviðbótin til sendiherrans í Kaupmannahöfn, sem líklega er talin ein af mínum stærstu syndum, þó háttv. þm. Str. (MP) hafi ekki minst á það atriði. Jeg skal þá strax viðurkenna, eins og nefndin tekur fram, að æskilegast hefði verið, að þetta hefði komið til athugunar á síðasta þingi. Jeg skal játa, að jeg hafði þá ekki tekið eftir því, að í brjefi sendiherrans var farið fram á launahækkun það ár líka. En þegar jeg var í Kaupmannahöfn, skýrði hann mjer frá, að hann yrði að biðjast lausnar frá embættinu, fengi hann ekki þessa launaviðbót. Sýndi hann mjer fram á með glöggum tölum, þó jeg telji ekki viðeigandi að birta þær hjer í deildinni, hversu mikið fje hann hefði orðið að greiða úr eigin vasa upp í kostnaðinn við embættið. Var það ekkert smáræði, og sýnilega órjettmætt að búast við því, að halda mætti slíku áfram. Var því nauðsynlegra að bæta úr þessu, sem hann hafði reynst ágætlega í stöðu sinni, og því kom ekki til mála að láta hann fara frá á miðju ári, sökum þess, að hann fjekk ekki þau laun, sem hann nauðsynlega þurfti. Jeg játa auðvitað, að það er ávalt ábyrgðarhluti fyrir stjórnina að taka á sína ábyrgð fjárveitingar sem þessa, en jeg ráði tali um þetta við allmarga þingmenn, líklega fullan helming, og tóku allir vel í það. Og fjárveitinganefnd þakka jeg fyrir undirtektirnar, þó hún finni að því, að þetta kom ekki fyrir þingið í fyrra. Þetta mun nú vera mín stærsta synd, en jeg vænti þess, að háttv. deildarmenn líti öðrum augum á það mál, er þeir heyra þessar forsendur mínar.

Þá er það annað atriðið, sem snertir mig, og er það kirkjugarðurinn í Reykjavík. Jeg er sammála háttv. frsm. (MP) um það, að kostnaðurinn við hann er ákaflega mikill. Það var farið fram á það við mig, að jeg veitti til hans 50–60 þúsund kr., en jeg sá mjer það ekki fært, og því varð það úr, í samráði við vegamálastjóra, að viðbótin yrði að þessu sinni eins lítil og komist yrði af með. Hvað viðvíkur legkaupinu, þá finst mjer ekkert á móti því, þó það yrði hækkað alt að helmingi. Annað er það, að það yrði samt sem áður engin stórupphæð, sem fengist á þennan hátt. Samkvæmt skýrslum hefir legkaup í Reykjavík numið:

Árið 1920 kr. 2101.

— 1931 — 1306,

— 1922 — 1540.

Þetta er engin stórupphæð, en munar þó nokkuð um hana, ef hækkunin verður veruleg. — Hvað því viðvíkur að flytja kirkjugarðinn, þá er jeg óundirbúinn að svara því að þessu sinni, því jeg hefi enn ekki athugað það mál. Öðru man jeg ekki eftir, sem snerti mig sjerstaklega.