23.03.1923
Neðri deild: 27. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

24. mál, fjáraukalög 1922

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Háttv. frsm. (MP) bar á ný upp fyrirspurn til stjórnarinnar. Hvort fjáraukalög fyrir þetta ár yrðu lögð fyrir þingið. Stjórnin hefir fengið ýms erindi frá háttv. fjvn., sem jeg hefi athugað og atvinnumálaráðuneytið hefir einnig sjeð, en þau eru nú hjá 1. skrifstofu, og hefir ekki enn þá borist svar frá henni, hvort hún teldi þörf á nokkrum aukafjárveitingum. Frá atvinnumálaráðuneytinu hefi jeg fengið umsögn um brimbrjótinn í Bolungarvík. Telur hæstv. atvrh. (KIJ), að því verki þurfi að vísu að ljúka sem fyrst, en þó sje ekki nauðsynlegt að bera fram frv. til fjáraukalaga vegna þess eins. Þá fjárveitingu megi taka upp í fjárlögin fyrir 1924, með heimild til þess að greiða fjeð fyrirfram. Hingað til hefir ekki legið neitt fyrir stjórninni um, að frekari fjárveitingu þurfi til fyrirtækisins á Mosfelli, og það, sem er veitt til jarðabóta þessara í fjáraukalögum, er engin byrjunarfjárveiting, er sje bundin við áframhaldandi greiðslur. Lokasvar get jeg því ekki gefið við fyrirspurn háttv. frsm. (MP) nú sem stendur, en mun gera það, þegar jeg hefi fengið svar frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, sem jeg býst við að verði mjög bráðlega.