09.04.1923
Efri deild: 35. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

24. mál, fjáraukalög 1922

Frsm. (Einar Árnason):

Það mun vera óvenjulegt, að fjvn. hafi til meðferðar fjáraukalagafrumvarp fyrir ár, sem þegar er liðið. Reglan hefir verið sú, að vísa þesskonar frv. til fjhn., vegna þess að þau eru talin eiga fremur skylt við landsreikninga en fjárveitingar. En nú stendur hjer svo sjerstaklega á, að fæstir af þeim útgjaldaliðum, sem í frv. standa, hafa verið ákveðnir af Alþingi, heldur hefir stjórnin greitt þetta fje upp á væntanlegt samþykki þess. Að svona er í pottinn búið, stafar af því, að engin fjáraukalög voru lögð fyrir þingið í fyrra.

Nefndin er þeirrar skoðunar, að þetta sje mjög óheppilegt og ætti helst ekki að koma fyrir, því að með þannig löguðu fyrirkomulagi rýrist vald þingsins, en hins vegar tekur stjórnin of mikla ábyrgð á vafasömum fjárgreiðslum. Nú stendur svo á með þetta frv., að nær allar fjárhæðirnar, sem í því standa, eru þegar greiddar. Og jafnvel þótt nefndin líti svo á, að allmjög orki tvímælis um það, hvort þingið mundi hafa veitt ýmsar þessar fjárhæðir, ef álits þess hefði verið fyrirfram leitað, þá sjer hún þó ekki annað en að þingið verði nú að láta við svo búið standa og samþykkja frv. með þeirri einni breytingu, sem nefndin leggur til á þskj. 291.

Jeg get þó ekki látið þetta frv. fara svo hjá, að ekkert sje minst á einstaka liði þess, og þá aðallega til þess að fá nokkra skýringu hjá hæstv. stjórn.

Það er þá fyrst kostnaðurinn við ferðalag augnlæknis til Austfjarða. Í fjárlögunum er veitt nokkur upphæð til ferðalags augnlæknis, og því er undarlegt, að það skuli þurfa að kosta sjerstaka ferð til Austfjarða. Jeg vil biðja stjórnina um skýringu á þessu.

Þá er kostnaður við byggingu á prestssetrinu á Mælifelli. Þar mátti til að byggja, en jeg hygg, að ekki hafi verið gætt hins ítrasta sparnaðar. En það er vitanlegt, að ríkissjóður þarf að byggja á prestssetrum í framtíðinni, og því verður að fara varlega í að láta mikið fje í einn stað.

Þá kem jeg að kirkjugarðinum hjer í Reykjavík. Það virðist, að hann ætli að verða landinu nokkuð dýr. Í fjáraukalögunum 1918–19 voru veittar til hans 4733 kr. Í fjáraukalögunum 1920–21 kr. 23065.19 og í þessu frv. kr. 5308,15, eða samtals kr. 33106.34. Þetta er mikið fje, og væri þó sök sjer, ef fjárframlögunum væri lokið með þessu; en svo er ekki. Eftir því, sem komið hefir fram í hv. Nd., má búast við því, að enn þurfi að leggja til hans 70 þús. kr., og verður það þá alls rúmlega 100 þúsund kr. Fjvn. þessarar deildar sjer ekki, að við svo búið megi standa. Það verður að gera ráðstafanir til þess, að fjárframlög ríkissjóðs til hans verði í framtíðinni lítil eða engin. Jeg á þar við, að hækka megi legkaupið, svo að það geti borið upp kostnaðinn við uppfyllinguna. Nefndin hefir ekki getað fengið nákvæmar skýrslur um, hvað margar jarðarfarir sjeu hjer árlega, en ekki mun fjarri sanni að giska á, að þær muni vera um 300; og ef legkaupið er hækkað, koma þar fram allmiklar tekjur. Nefndin vill beina því til stjórnarinnar að taka þetta til íhugunar.

Þá kem jeg að 8. lið 4. gr., um viðgerð gagnfræðaskólans á Akureyri. Þessi liður stingur dálítið í augun, því að hann er nokkuð hár. Ekki vil jeg þó áfellast stjórnina fyrir hann; miklu fremur lofa. Henni hefir tekist að gera skólahúsið ágætt. Í fyrra skoðaði jeg skólann áður en viðgerðin fór fram, og svo aftur nú á þessum vetri, og mjer brá í brún að sjá mismuninn. Með hinni nýju miðstöðvarhitun og raflýsingu er meðal annars komið í veg fyrir eldhættu þá, er sífelt vofði yfir skólanum. Þar voru 40 eldstæði, og er þau voru rifin, kom það í ljós, að þau voru öll sprungin og af sjer gengin, og virðist næstum óskiljanlegt, að ekki skyldi hafa kviknað út frá þeim fyrir löngu.

Þessu næst kemur upphæð, 4500 kr., til utanferða þriggja manna. Þetta er að vísu ekki stórfje, og vil jeg ekki áfellast stjórnina fyrir það, en viðkunnanlegra væri, að slíkar upphæðir væru veittar af þinginu.

Þá kemur Skeiðaáveitan og brimbrjóturinn í Bolungarvík. Það eru miklar fjárhæðir, sem nefndin hefir ekki getað gert sjer grein fyrir, því að engin skilríki lágu fyrir um það; væntanlega gefur stjórnin skýringu á því. Sama er að segja um mómýrarnar.

Þá kemur skrifstofukostnaður húsagerðarmeistara ríkisins. Í fjárlögunum 1922 er ekki ætlaður skrifstofukostnaður, en þó hefir honum verið greitt í því skyni nokkurt fje. Nefndin veit nú ekki annað en að borgun fyrir uppdrætti, sem húsameistari gerir fyrir einstaka menn eða stofnanir, eigi að renna í ríkissjóð, og mætti þá nota það fje, sem þannig kemur inn, til skrifstofukostnaðar hans.

Þá kem jeg að læknisstyrknum til Flateyjarhjeraðs og brtt. nefndarinnar. Þessi liður var settur inn í Nd., af fjvn. þar. Liggja til þess þau drög, að læknirinn í Flateyjarhjeraði var utanlands síðastliðið ár að kynna sjer ýmsar nýjungar í læknisfræði. Gerði hann það að tilhlutun bæði hjeraðsbúa og landlæknis. Ætlaði landlæknir að útvega lækni í hjeraðið á meðan, en það tókst ekki, og var þá lækninum í Stykkishólmi falið að gegna hjeraðinu. Nú hafa 9 menn úr Flateyjarhjeraði sent stjórninni reikning yfir kostnað við læknisvitjanir til Stykkishólms og krefjast þess, að stjórnin greiði reikning þennan að fullu. Hann er rúmar 1700 krónur. Nefndin í Nd. hefir tekið 1000 kr. af þessu til greina og bætt þeirri athugasemd við, að stjórninni sje falið að innheimta upphæðina hjá hjeraðslækninum. Nú virðist fjvn. þessarar deildar ekki hugsanlegt fyrir stjórnina að innheimta upphæð þessa hjá lækninum, því að þótt stjórnin hjeldi fjenu eftir af launum hans, þá mundi hann geta krafist þess með málssókn. Honum ber engin skylda til að greiða þetta, er hann fór ferðina í samráði við hjeraðsbúa og landlækni. Nefndin hefir því felt burtu athugasemdina og lækkað fjárhæðina niður í 600 krónur. Það gæti kannske verið álitamál um upphæðina, en nefndin tók meðaltal af því, sem veitt er í fjárlögum til hreppa, sem örðugt eiga með læknisvitjanir. Hjer er um 2 hreppa að ræða, og eru áætlaðar 300 kr. á hvorn, en upphæðin skiftist eftir reikningum þeim, sem fyrir liggja.

Fleira hefi jeg ekki að segja að sinni. Hjer er komin fram brtt. frá hæstv. atvrh. (KIJ), en nefndin hefir ekki sjeð hana fyr en nú, og getur því ekki tekið afstöðu til hennar að sinni.