07.04.1923
Neðri deild: 36. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í B-deild Alþingistíðinda. (608)

1. mál, fjárlög 1924

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg mun eiga að svara þeirri fyrirspurn háttv. 1. þm. Skagf. (MG). hvort búið sje að greiða uppboðsskuld. 9–10 þús. kr., fyrir fisk, sem seldur var í Viðey. Þessi sala fór fram löngu áður en jeg tók við stjórn, og er jeg því ekki svo kunnugur málinu frá byrjun, að víst sje, að jeg geti gefið fullnægjandi svar nú; en jeg get þá bætt úr því seinna við tækifæri. Fiskur sá, er hjer ræðir um. var búinn að ganga gegnum margra hendur, eftir því, sem jeg frekast veit, og var að lokum seldur á uppboði að tilhlutun útflutningsnefndar. Kaupandi fisksins greiddi síðar alt uppboðsverðið, nema 9 til 10 þúsund krónur. Voru gerðar margvíslegar tilraunir til að ná þeim hjá honum, en það tókst ekki. Loks kom svo í vetur erindi frá sýslumanni Gullbringu- og Kjósarsýslu, þar sem þess var beiðst, að skuldin yrði gefin eftir, og var það gert. Ástæðan, sem til þess lá, var sú, að fiskurinn seldist á uppboðinu fyrir miklu hærra verð en annars hefði verið hægt að fá fyrir hann, eftir því sem mjer hefir verið frá skýrt, og varð því í raun og veru gróði af sölunni, enda þótt þessi hluti söluverðsins væri eftir gefinn. Hefði ekki orðið neitt betra að selja fiskinn miklu lægra verði, þótt það kaupverð hefði alt verið greitt.

Þá ætla jeg að leyfa mjer að fara nokkrum orðum um fyrirspurnir háttv. þm. Borgf. (PO). Skal jeg þá fyrst geta þess viðvíkjandi húsaleigumálinu, að jeg hefi ekkert um það vitað nje heyrt minst á það fyr en nú í dag, og get jeg því ekkert um það sagt.

Þá hefir stjórninni verið lagt það til ámælis, að hún veitti Reykjavíkurbæ ábyrgð við lántöku í Danmörku. Jeg skal ekki um það segja, hvort það sje rjett, að ekkert fordæmi sje til fyrir þessu, en á mörgum öðrum stöðum er svipað fordæmi. Sem dæmi má nefna það, er hreppar taka lán, og þurfa til þess oft og tíðum ábyrgð sýslunefndar, þá er það oft, að sýslumaður tekur slíkt á sig og veitir leyfi fyrir hönd sýslunefndarinnar, upp á væntanlegt samþykki hennar, er hún næst kemur saman. Hjer er mjög líkt ástatt. Reykjavíkurbær þurfti á láni að halda til vatnsveitunnar og átti kost á láni með hagfeldum kjörum, ef ábyrgð fengist. Það var því blátt áfram nauðsynlegt fyrir bæinn, að þetta lán fengist, en það var gert að skilyrði af lánveitanda, að samningar yrðu gerðir innan viss tíma, 15. október að mig minnir. Engin stjórn hefði í þessum sporum viljað takast á hendur þá ábyrgð að neita bænum um ábyrgðina, svo að hann hefði orðið af þessu hagfelda láni. Það er því alls eigi rjett hjá háttv. þm. Borgf. (PO), að það lýsi á nokkurn hátt virðingarleysi fyrir hinu háa Alþingi, þótt ekki væri eftir því beðið með þetta mál. Jeg ber mjög mikla virðingu fyrir því og mundi aldrei takast á hendur ábyrgð á fjárveitingum án heimildar þess, nema brýnasta nauðsyn lægi til. En jeg skal viðurkenna, að rjettara hefði verið að bera ábyrgðina undir þingið nú og leita samþykkis þess, og er enn tími til að bæta úr því.