07.04.1923
Neðri deild: 36. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (631)

1. mál, fjárlög 1924

Jón Auðunn Jónsson:

Mjer virðist þörf á því að fara nokkrum fleiri orðum en orðið er um þá stjórnarráðstöfun hæstv. fjrh. (MagnJ), að hann ávísaði sjálfum sjer húsaleigu fyrir herbergi í einkaíbúð sinni. Því út úr hinni skýjuðu yfirlýsingu hans, sem hefði þó átt að vera skýlaus, hefir víst enginn fengið neitt, nema ef til vill það, að talsvert ský sje á velsæmistilfinningu hæstv. ráðherra (MagnJ). Jeg verð því að leyfa mjer að biðja hæstv. forsrh. (SE) um yfirlýsingu um það, hvort hann sje tiltæki þessu sammála eða hvort hann ætlar að láta þetta líðast áfram.

Af upptalningu húsmunanna í Geysishúsinu er það bersýnilegt, að þeir voru ekki þannig, að þeir hæfðu einir á sveitaheimili. Ráðherrann hefir því sannað það, sem ætla má, að hann vildi ósanna, sem sje það, að þessir munir voru fremur gefnir en seldir. Því um verðið er það að segja, að það er auðsjeð, að það nær engri átt, þegar þess er gætt, að meðal munanna voru 6 vönduð rúm með öllum búnaði, allir borðbúnaður handa 24 manns, sem alt hafði verið notað handa konunginum og hans fylgdarliði, og má geta nærri, hvort þetta eitt hefir ekki verið meira en 1500 kr. virði, auk alls annars, sem þarna var selt, enda ekki ósennilegt, að sá, sem tekur handa sjálfum sjer, geti líka tekið til að gefa öðrum.

Þegar hæstv. ráðherra (MagnJ) fór svo að tala um utanförina í sumar, varð grauturinn nokkuð heitur, og ef ekki kemur annað fram um það ferðalag en það, sem hann mælti í ræðu sinni, munu víst flestir líta svo á, sem ferðin hafi verið alveg óþörf. Yfirleitt verður að segja, að framkoma þessa hæstv. ráðherra (MagnJ) í málum þessum hafi verið á þann veg, að hún sje alveg óforsvaranleg og ósæmileg, og hefir því að maklegleikum verið vítt af öllum þeim, sem um þetta hafa talað, og vænti jeg þess líka, að hæstv. forsrh. (SE) gefi einnig skýra yfirlýsingu, til þess að þvo sínar hendur af þessum málum, því ekki ætla jeg hann samsekan í ósómanum.