09.04.1923
Neðri deild: 37. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (648)

1. mál, fjárlög 1924

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Mjer þykir óviðkunnanlegt, að hæstv. stjórn skuli ekki vera viðstödd á fundinum, þar sem jeg þyrfti að beina máli mínu til hennar.

Áður en jeg fer út í hinar einstöku brtt., vil jeg benda háttv. deild á það, að ef það tækist að láta fjárlagafrv. ganga gegnum þingið eins og fjárveitinganefnd hefir gengið frá því, þá mætti afkoman teljast góð.

Þá vil jeg vænta þess, að allir hv. þm. hafi kynt sjer nefndarálitið. Jeg vona, að jeg hneyksli engan, þótt jeg segi þetta, því stundum hafa frsm. rekið sig á það, að svo hefir ekki verið. En jeg vildi forðast að þurfa að endurtaka það, sem sagt er í áliti nefndarinnar, heldur aðeins árjetta það, sem þar er ekki nógu ítarlega tekið fram.

Eins og segir í áliti nefndarinnar, þótti oss rjettara að halda aðskildum skrifstofukostnaði bæjarfógetans í Reykjavík frá skrifstofukostnaði annara bæjarfógeta og sýslumanna. Þó þetta hafi ekki neina fjárhagslega þýðingu, þá fæst með því gleggra yfirlit yfir skrifstofukostnað ýmsra embættismanna. Nefndin hefir tekið til greina við áætlun skrifstofukostnaðar bæjarfógetans í Reykjavík tillögur hans til stjórnarinnar, en fært hann þó niður um 500 kr. Annars eru þar fastir starfsmenn með föstum launakjörum, svo litlum sparnaði verður hægt að koma við á þeim lið. En til skrifstofukostnaðar annara sýslumanna fára þá aðeins 42000 kr. Jeg segi þetta ekki af því, að mjer finnist hann lítill, heldur til þess að benda á, að eftir þessu er gert ráð fyrir, að hann lækki um nær 20 þús. kr. frá því, sem hann nú er ákveðinn. Vill nefndin láta í ljós ánægju sína yfir því, ef hægt er að færa þessa útgjaldaliði nokkuð niður. Getur nefndin vel skilið, að svo megi verða, því sumar upphæðirnar til skrifstofuhalds eru of háar, sjerstaklega þar sem ekki þarf sjerstaks mannahalds við.

17. og 18. brtt. eru í samræmi við þetta.

Nefndin vill ekki láta líta svo út, þegar til gæslu landhelginnar kemur, sem farið sje út á þá braut að minka eftirlitið frá því, sem áður hefir verið, og vill því hækka styrkinn. Telur hún það fje, sem varið hefir verið í þessu skyni undanfarið, hafa komið að góðum notum.

Þá hafði stjórnin fært niður skrifstofukostnað landlæknis um 1000 kr. Jeg býst helst við, að þetta hljóti að vera misgáningur. því í frv. hennar um niðurlagning þess embættis var gert ráð fyrir, að skrifstofukostnaðurinn væri 2000 kr. Við hjeldum okkur því við þá upphæð, enda sýnilegt, að hún getur ekki verið minni; til skrifstofunnar fara tvö herbergi, og auk þess er þar fastur starfsmaður, ætti hæstv. forsrh. (SE) að vera þetta kunnugt, svo mörg erindi sem fara milli skrifstofu hans og landlæknis.

Jeg vona, að jeg þurfi ekki að vera langorður um hverja brtt. og treysti því, að hv. þm. beri sig upp við mig, ef þeim finst skorta á upplýsingar, og ætti þá síðar að gefast tækifæri til að koma með þær.

Oss þótti rjett að hækka nokkuð borgunina til aukalæknisins á Ísafirði, til þess að halda samræmi við laun annara starfsmanna ríkisins, en laun hans hafa verið lækkuð hlutfallslega meira en þeirra, og 40 eru þau enn þá lægri en vera ætti, samanborið við þá.

Þá hefir nefndin talið rjett að hækka nokkuð fjárveitinguna til Vífilsstaðahælisins; má máske segja, að það hafi ekki mikla þýðingu, þar sem hjer er aðeins um áætlunarupphæð að ræða, en hún álítur hins vegar, að ekki sje heppilegt að nema þennan lið við nögl sjer, þar sem það mundi aðeins spilla fyrir eignum ríkisins og hælinu. Um laun starfsmannanna er farið eftir tillögum læknisins, og eru þau svipuð og verið hafa, og ekki ástæða til að ætla, að þau muni lækka að mun.

Jeg hefi skrifað greinilega um það í nefndarálitinu, að taka á leigu franska spítalann á Fáskrúðsfirði. Og þó ekki sje langt síðan berklavarnalögin komust á og jeg hafi aðeins stuttan tíma verið hjer í Reykjavík, er mjer þó fullkunnugt um það, hversu erfitt er oft að útvega berklaveikum mönnum rúm. Og fyr eða síðar hlýtur að reka að því, að stofna verður ný hæli. Þess vegna fanst nefndinni það vera eins og fundið fje, að fá þarna spítala með góðum útbúnaði og rúm fyrir ca. 24 sjúklinga, án sjerstaks stofnkostnaðar og gegn tiltölulega lágri leigu. Vjer gerum ráð fyrir, að ríkið reki hann á líkan hátt og Vífilsstaðahælið, og fer okkar áætlun eftir því, og ætti að minsta kosti ekki að vera dýrara að reka spítala þar austur frá en hjer.

Þá er mönnum kunnugt, að farið var þess á leit af Ísfirðingum, að lagt yrði fje fram til fyrirhugaðs spítala þar, samtímis Eyrarbakkaspítalanum, sem styrk hlaut, þar sem þegar hafði verið hafist handa með þá byggingu. En gert var ráð fyrir því, að Ísafjörður yrði næstur. Nefndin vill nú reyna til þess að standa við þetta loforð, þó hún hins vegar sjái sjer ekki fært að veita alla upphæðina — 80 þús. kr. — í einu lagi, eins og fjárhag landsins er varið. En þó ekki verði veitt þetta árið nema 25 þús., ætti það ekki að koma Ísfirðingum að sök, þar sem með þeirri upphæð mætti hefja verkið. Og verði þetta samþykt, felst auðvitað í því skuldbinding um það frá þingsins hálfu að veita næstu árin það, sem á vantar. Þá vill nefndin skjóta því til stjórnarinnar, að hún krefjist sannana fyrir því, að það fje, sem lagt skal fram á móti ríkinu, sje fyrir hendi. Enda munu engin vandkvæði vera á því, eftir því sem jeg veit best.

Þá hefir nefndin hækkað styrkinn til heilbrigðiseftirlits með alþýðuskólum. Taldist okkur hann vera of lágur í frv. stjórnarinnar.

Hjúkrunarfjelagið „Líkn“ hefir starfað lengi hjer í bænum með ágætum árangri og hefir síst brugðist vonum manna. Vill nefndin því hækka styrkinn til þess fjelags, enda mun fje verða lagt til á móti, og gæti þetta orðið hvöt fyrir fjelagið eftirleiðis.

Þá er það nýr liður, að styrkja sjúklinga til að leita sjer lækninga við geitum. Öllum ætti að skiljast, hvílíkt nauðsynjamál það væri, ef hægt væri að útrýma þessum leiða kvilla úr landinu. Vill nefndin láta byrja á því strax á þessu ári, og verður því samskonar brtt. við fjáraukalagafrv. þessa árs; er ætlast til, að því verði haldið áfram, uns sjúkdómurinn er upprættur.

Eins og hv. deild mun kunnugt, hefir staðið í fjárlögunum upphæð til styrktar væntanlegu berklavarnafjelagi, en það hefir enn ekki verið stofnað, og má búast við, að það dragist nokkuð, En oss læknunum hefir dottið í hug að undirbúa málið með almennri fræðslu og reyna að kenna mönnum, á hvern veg hægt sje að verjast berklaveikinni. Í þessum tilgangi höfum vjer hugsað oss að gefa út rit um þessi efni, og er þá nauðsynlegt, að það geti orðið svo ódýrt, að engum verði tilfinnanlegt að kaupa það. En til þess verður mikill hluti af útgáfukostnaðinum að koma utan að. Oss þykir líklegt, að gamla Heilsuhælisfjelagið muni fást til að styrkja útgáfuna að nokkru, og gerum því að skilyrði, að 1000 kr. verði lagðar til móts við ríkissjóðsstyrkinn.

Þá vil jeg skjóta því til hæstv. forseta, að nefndin óskar, að 31. brtt. komi ekki til atkvæða, því hún mun koma sem brtt. við væntanlegt fjáraukalagafrv.

Þá kemur að 13. gr. Þar er einu liður, sem snertir póstmálin. Nefndin sá sjer ekki annað fært en hækka þennan lið nokkuð. Jeg býst ekki við, að samningsbundið kaup póstafgreiðslumanna geti lækkað, enda er það álit aðalpóstmeistara, að ekki verði komist af með minni upphæð í þessu skyni en verið hefir. Og þó farið yrði að auglýsa stöðurnar lausar og þoka þóknuninni niður með undirboði, þá gæti það verið mjög varhugavert og tæplega verjandi að velja menn í svo ábyrgðarmiklar stöður eftir kaupkröfunum einum. Það er alkunna, að mjög mikið fje fer um hendur þeirra, og því næsta áríðandi, að góðir menn fáist í þær stöður.

Um vegakaflann get jeg verið stuttorður og leyfi mjer að vísa til þess, sem í nefndarálitinu stendur. Þó skal þess getið, að engin hreppapólitík átti sjer stað um þetta atriði innan nefndarinnar, eins og þó stundum hefir viljað brenna við. Nefndin vill láta þess getið, að hún hefði gjarnan viljað fara lengra í þessum efnum, og hafði enda orð á því við vegamálastjóra, og óskaði hann þess, að ef nefndin sæi sjer fært að hækka upphæðina, þá gengi það til viðhalds veganna.

Þá er nýr liður, veiting til viðhalds slitlagi á akvegum. Við teljum, að það sje sama sem samþykt, þar sem bifreiðaskatturinn er kominn inn í fjárlögin. Þá er hækkað tillag til akfærra sýsluvega, og er það samkvæmt till. vegamálastjóra.

Þá kem jeg að stórum gjaldalið, 200 þús. kr. til nýrra símalína og loftskeytastöðva. Nefndin þorði ekki annað en slá þann varnagla, að þessi upphæð yrði því aðeins veitt, að fjeð væri fyrir hendi. Við framkvæmdina gerum við ráð fyrir, að nokkuð verði farið eftir þeirri röð, sem tillögurnar bera með sjer.