12.04.1923
Neðri deild: 40. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

1. mál, fjárlög 1924

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg er hjegómagjarn, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði í gær, og langar mig því til, að háttv. þingmenn sjeu viðstaddir meðan jeg tala. Mjer er ekki þörf að svara svo mjög aðfinslum til nefndarinnar, því að það er næstum svo, að jeg hefði ástæðu til að standa upp og hneigja mig fyrir því óskapa þakklæti, sem til hennar hefir verið beint, því það hafa mest verið þakkarorð, sem til nefndarinnar hafa verið töluð.

Fyrst og fremst ætla jeg að snúa mjer til hæstv. atvrh. (KIJ), því jeg held jeg hafi ekki neitt, sem nemur, að tala við hæstv. forsrh. (SE).

Um styrkinn til Dansk Kunstflidsforening hefi jeg tekið það áður fram, er jeg gerði grein fyrir ástæðum nefndarinnar um að liðurinn fjelli niður, að jeg álít það ekki geta átt sjer stað að styrkja danskt fjelag til þessara hluta. Þar við bætist það, sem hæstv. atvrh. (KIJ) hefir sagt, að stúlkur gætu fengið þessa kenslu hjer heima.

Þegar jeg athuga fylgiskjöl þessa máls betur, er jeg hissa á því, að stjórnin skuli hafa tekið þennan lið upp í frv. sitt, því hún hlýtur að hafa lesið skýrsluna um þessa starfsemi fjelagsins og skóla þess. Þar er sagt, að dansk-íslenska fjelagið, sem veittur var styrkur í gær af misskilningi eins þm., hafi styrkt þetta fjelag; og til þess að háttv. þm., sem ekki hafa lesið þessa skýrslu, geti fengið dálitla hug mynd um, hvað það er, sem kent er nemendum á þessum skóla, ætla jeg að lesa þar upp nokkur atriði úr skýrslu fjelagsins (Dansk Kunstflidsforening) :

„Það var haldið sumarnámsskeið frá 1. júní til 1. okt. fyrir 8 fátækar stúlkur frá Íslandi, Færeyjuni, Grœnlandi og Suður-Jótlandi.“

Síðar er sagt frá tilgangi þessarar mentunar, sem veitt er á þessu námsskeiði. Jeg les það á dönsku fyrst:

„Dette aarlige Kursus har foruden at være til Gavn gennem Uddannelsen sin Betydning i national Henseende, da der her i Moderlandet ellers er taget saa lidt Sigte paa den kvindelige Befolkning i de til Danmark knyttede Lande i Forhold til, hvad der ydes den mandlige Ungdom. Og dog holdes Nationalfölelsen bedst vedlige gennem Kvinderne og Hjemmene.“

Þetta verður á íslensku svo:

„Auk þess, sem þetta árlega námsskeið er til gagnsemdar með náminu, þá er það og mikils vert hvað þjóðernið snertir, þar sem menn hafa hjer í móðurlandinu tekið harla lítið tillit til kvenþjóðarinnar í löndum þeim, sem eru Danmörku áhangandi, í samanburði við unga karlmenn. Og þó lifir þjóðernið best fyrir tilverknað kvenmannanna og heimilanna.“

Jeg held þess vegna, að það verði fleiri en jeg og nefndin, sem verði hissa, ef Alþingi á sjerstaklega að fara að veita þessu fjelagi styrk til þessara fræða. Hjer er ekki um þessa smáupphæð nje neinn sparnað að ræða, heldur miklu meira, sem væntanlega allir háttv. þm. skilja.

Hæstv. atvrh. (KIJ) gat þess, að sjer þætti leiðinlegt, að farið væri að betla af Dönum. Fjvn. datt alls ekki í hug, þó að þessi styrkur væri feldur niður, að nokkur maður mundi grípa til þess úrræðis. Jeg veit einnig, að háttv. þm. vilja heldur veita stúlkunum einhvern námsstyrk en fara að vísa þeim inn á þá braut, sem hjer var bent á.

Jeg kysi því helst, að hæstv. stjórn lýsti því yfir úr sæti sínu, að þetta væri alt sprottið af misskilningi, að þessi liður var settur í fjárlögin, og að svo yrði ekki meira um þetta rætt á Alþingi.

Þá ætla jeg að lýsa afstöðu nefndarinnar til till. háttv. þm. Mýra. (PÞ). Nefndin hefir ekki orðið sammála um þennan lið; nefndarmenn eru ekki nógu kunnugir til þess að geta með vissu um þetta dæmt, en sumir þeirra hjeldu því fram, að þarna væri ekki nægileg umferð til þess, að bóndi þessi ætti rjett til styrks þess, sem veittur er búendum við fjölfarna vegi eða á fjallvegum.

Tillögu háttv. þm. Borgf. (PO) vill nefndin mæla með, enda er hún ekki nýr gestur hjer á þingi og hefir áður verið þar allvel tekið. Sama er að segja um brtt. hv. þm. V.-Sk., — sem hann tók aftur og rjett var að gera, eins og á stóð, — að nefndin mælir með þessari beiðni. Um brtt. hv. þm. Dala. (BJ). um eftirlaun tveggja presta, vil jeg geta þess, að þar hafa nefndarmenn óbundnar hendur, hvernig þeir greiða atkvæði. Enn er hv. þm. Barð. (HK) með ofurlitla till. um greiðslufrest á láni einnar sveitar í hans kjördæmi, og þykist nefndin hafa gengið langt með því að fallast á 5 ára greiðslufrest. Sje jeg ekki, að það hafi neina þýðingu fyrir þennan háttv. þm. (HK) að keppa að því að fá þennan frest lengdan enn þá meir, enda hafa engir aðrir farið fram á neitt þessu líkt; og er vel hugsanlegt, að á næstu 5 árum batnaði svo hagur þessa sveitarfjelags, sem hjer á í hlut, að óþarfi væri að lengja nú frestinn meira. Þetta ætti því að nægja í svipinn. Jeg efast ekki um það, að hið háa Alþingi muni eftir 4 ár líta jafnsanngirnislega á þetta mál og það hefir gert nú, og getur því háttv. þm. verið óhræddur fyrir þessarar sveitar hönd, ef þörfin verður þá jafnbrýn og hún er nú.

Jeg get þakkað samnefndarmanni mínum. hv. 1. þm. Árn. (EE), góðan stuðning og meðmæli með ýmsum brtt. nefndarinnar, en jeg verð nú, því miður, í nafni nefndarinnar að mótmæla brtt. hans og háttv. 2. þm. Árn. (ÞorlG), um tillagið til þessarar ljósmóður á Eyrarbakka. (ÞorlG: Þetta eru ekki eftirlaun). Háttv. 2. þm. Árn. tekur fram, að þetta sjeu ekki eftirlaun, en jeg man ekki betur en að þessi brtt. sje gerð við 18. gr. frv., og þar eru vanalega aðeins standandi upphæðir. (EE: Þetta er fremur ellistyrkur; en annars ætti að vera sama, hvað það er látið heita. Nefndin ber hlýjan hug til þessarar stjettar, og amast því ekki við þess háttar smáviðurkenningum). Það er satt, að bæði nefndin og allflestir háttv. þm. bera hlýjan hug til ljósmæðranna, eins og hv. 1. þm. Árn. (EE) komst að orði, en þó vill nefndin alls ekki setja þær á eftirlaun úr ríkissjóði, því þá gæti farið svo, að sami straumurinn yrði af þeim eins og póstunum o. fl. inn í fjárlögin, og vill nefndin því ekki gefa fordæmi í því efni. Það er heldur engin ástæða til þessa, þar sem sýslusjóðunum ber að styrkja ljósmæður í þessu tilfelli, og efast jeg ekki um, að sýslu sjóður Ánessýslu geri skyldu sína þar eins og aðrir og sje ekki ómannúðlegri en í öðrum hjeruðum landsins, og vænti jeg þess fastlega, að sýslan geri skyldu sína við þessa ágætiskonu.

Satt að segja er það alveg eins og háttv. 1. þm. Árn. (EE) sagði sjálfur, að hin stóra tillaga hans, sem kemur þannig á síðustu stundu, kemur okkur samnefndarmönnum hans all-„spanskt“ fyrir sjónir, er við höfðum aldrei heyrt um þetta tal að í nefndinni, og er það alveg nýtt, að svona till. um jafnstórar upphæðir komi frá einstökum nefndarmönnum, án þess að því hafi verið hreyft í nefndinni áður. Það hafði verið talað um ullariðnaða. — málið í nefndinni, og hafði þá þessi hv. samnefndarmaður minn tækifæri til þess að hreyfa þessari stóru till. sinni, ef hann hefði viljað gera það. Nefndin ákvað að bíða með að gera nokkuð í þessu máli þangað til hæstv. atvrh. hefði svarað fyrirspurn hv. 1. þm. Árn. (EE) um ullariðnaðarmálið, vegna þess að nefndin hafði engan grundvöll til að byggja á þangað til. En svo kemur þessi sami háttv. þm. með þessa till. sína, og fer svo að svara fyrirspurn sjálfs sín, — svara sjálfum sjer, eins og hann var að gera nýlega.

Sje nú gert ráð fyrir því, að farið verði eftir tillögum ullariðjunefndarinnar, þá er þetta aðeins hluti stofnkostnaðarins, og veit jeg ekki, hvort hv. þm. (EE) ætlast til, að þessi upphæð verði veitt í 10 ár samfleytt og verksmiðjan komist ekki fyr á stofn.

Nefndin getur heldur alls ekki mælt með till. háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Furðar mig mjög á framferði þessara tveggja þm., háttv. 1. þm. Ám. (EE) og háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), þegar svo stendur á, að eftir örfáa daga munu koma fram gögn í þessu máli. Er það máske gert til þess að vera á undan þeim, áður en háttv. deildarmenn eru búnir að átta sig á málinu? Ef það er ekki, ættu þessir háttv. þm. báðir að taka till. sínar aftur, til að gefa öðrum þm. kost á að átta sig og mynda sjer ákveðnar skoðanir í þessu máli eftir að nál. ullariðjunefndarinnar verður lagt fram. Þær eru annars allundarlegar skoðanir háttv. 1. þm. S.-M. (SvO) í ullariðnaðarmálinu og ályktanir hans út skjölum ullariðjunefndar, en annars mun verða vikið að því síðar.

Mjer finst kynleg sú niðurstaða hv. 1. þm. S.-M, (SvÓ), að ullariðjunefndin leggi til, að fleiri ullarverksmiðjur verði reistar, þó hún tilnefni staði, sem sökum aðstöðu sinnar væru ekki illa til þess fallnir, að þar yrðu einhvern tíma reistar verksmiðjur, ef hagkvæmasta fyrirkomulagið fengi ekki byr. Einkennilegt var líka hjá háttv. 1. þm. Árn. (EE), er hann vildi láta afskiftalausa brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), en vildi forðast alla skiftingu og deilingu á þessum hlutum. Þá sagði sami háttvirtur þm., að ef mönnum líkaði ekki till. hans að upphæð eða efni, þá mætti koma með brtt. við hana til 3. umr. Ætlar hv. þm. þá að bæta við þessu núlli, sem á vantar, til þess að verksmiðjan verði fullkomin? Ekki dylst það heldur, að mjög mikill reipdráttur mun vera um það á Austurlandi, hvar verksmiðjan eigi að vera. Annars er ekki þörf að fara frekar út í þetta að sinni, hv. deild mun fá tækifæri td að sjá skjölin, sem því við koma. síðar.

Þá er það 2. brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), um kaup á nýjum jarðvöðli eða þúfnabana. Jeg ætla mjer ekki sjerstaklega að fara að mæla á móti þeirri tillögu, en geng þess þó eigi dulinn, að mjög varhugavert sje að kaupa fleiri vjelar af þessu tægi, áður nokkur veruleg reynsla er fengin um þær, sem þegar hafa verið keyptar. Um hagnaðinn af þessum tækjum er það að segja, að hann er, eftir því sem á sama hv. þm. mátti heyra, mjög vafasamur, og enda alveg óvíst nema ódýrara reynist að nota hestaflið. Því er engin ástæða enn sem komið er að keppa svo mjög eftir að fjölga þeim. En verði reyndin á þeim góð, má að sjálfsögðu gera ráð fyrir, að þess verði ekki langt að bíða, að Austfirðingar fái sinn jarðvöðul.

Þá vill nefndin ekki taka aftur athugasemdina um styrkinn til Árna Th. Pjeturssonar. Fjvn. vill ekki, að fordæmi sje gefið fyrir því að veita barnakennurum eftirlaun í fjárlögum. Það eina, sem gat gefið tilefni til þess að fara að veita þessum manni styrk, var það, að ekki haf verið farið með hann sem skyldi. Eða ætti kannske að fara að veita þeim mönnum eftirlaun sjerstaklega, sem vísað væri frá starfi sínu sökum óreglu? En eins og nefndarálitið ber með sjer, stóð sjerstaklega á með þennan mann. Því var ekki nema um tvent að velja, annaðhvort að veita enga upphæð, vegna þess að hann hafi eigi átt það skilið. eða veita hana á þennan hátt.

Út af ræðu hv. þm. Ak. (MK) um tillögu hans, skal þess getið, að nefndin er henni ekki mótfallin, en vill spyrja hæstv. stjórn að því, hvort eftirsókn sje mikil eftir þessum .lánum. því sje svo, þarf auðvitað talsvert fje að vera fyrir hendi til þeirra. Þá skaut sami háttv. þm. (MK) því að nefndinni, hvort ekki væri rjett að veita fjelaginu Íslendingi nokkurn styrk. Jeg skal sjá um, að nefndin taki það til íhugunar, og skal láta háttv. þm. (MK) vita, ef nefndin sinnir því ekki, svo hann geti komið með brtt. til 3. umr.

Hv. 1. þm. Eyf. (StSt) get jeg svarað því, að nefndin mun að sjálfsögðu taka til yfirvegunar mál það, sem hann ber fyrir brjósti.

Hv. þm. N.-Ísf. (SSt) talaði um það, að lánveitingarnar væru ískyggilega miklar, en hins vegar ekkert fje fyrir hendi. Mjer finst nú, að ekki verði sagt, að fjvn. hafi lagt mikið til um lánveitingar. Ef til vill ætti sumt af þeim ekki að vera lán, heldur styrkveitingar, og margt af því svo sjálfsagt, að Alþingi að rjettu lagi gæti ekki neitað um styrk til þess. Skal tekin til dæmis till. hv. þm. V.-Sk. (LH) um kaup læknisbústaðar á Síðu. líkt og var um Austur-Húnvetninga.

Jeg vona því, að háttvirt deild sjái, er hún athugar það mál, að flestar lánsheimildir nefndarinnar eru svo vaxnar, að ósanngjarnt og ómögulegt var að neita um þær. Hæstv. stjórn mun heldur ekki þurfa að óttast, að hún hafi mikinn átroðning og eril út af þeim; svo margar eru þær ekki. Enda kemur það auðvitað mest niður á þeim, sem lánanna eiga að njóta, ef fje er ekki fyrir hendi. Nei, — þá er skörin fyrst farin að færast upp í bekkinn, þegar till. þm. koma til sögunnar, og þar má háttv. deild vera á varðbergi.