12.04.1923
Neðri deild: 40. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (724)

1. mál, fjárlög 1924

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg á enga brtt. en það er ekki af því, að mitt kjördæmi hafi ekki beðið um ýmislegt og þurfi ekki styrk ríkissjóðs til ýmsra framkvæmda, heldur af því, að þegar jeg sá þann halla, sem áætlaður er á fjárlögunum, vildi jeg ekki verða til þess að auka hann.

Háttv. 1. þm. Rang. (GunnS) sagði, að ekki þyrfti að vara þdm. við að leggja fje til verklegra framkvæmda, en jeg álít, að þess sje engin vanþörf. Nú hefir verið veitt óvenjumikið af láns- og ábyrgðarheimildum, og þá er ekki illa fallið að benda á Skeiðaáveituna og Flóaáveituna, þótt ekki sjeu þar öll kurl komin til grafar. Jeg ætla því ekki að lofa háttv. fjárveitinganefnd eins og mjög hefir verið gert hjer í háttv. deild, því að hún hefir, að mínu áliti, farið mjög ógætilega í þessu efni. Skal jeg í því sambandi benda á niðursuðuverksmiðju á Akureyri. Þar hefir nefndin þá afsökun, að Búnaðarfjelagið og Fiskifjelagið hafa talið þessa verksmiðju nauðsynlega, en hitt veit nefndin ekkert um, hvort maðurinn, sem á að standa fyrir verkinu, hefir þekkingu, traust eða hæfileika til þess. Þetta verð jeg að telja mjög gáleysislega farið með fje ríkissjóðs.

Sama er um allflestar láns- og ábyrgðarheimildir, sem háttv. þm. hafa borið fram. Jeg tek hjer af handahófi t. d. till. háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) um klæðaverksmiðju á Austurlandi. Háttv. þm. Dala. (BJ) hefir sýnt og sannað, að það er til niðurdreps fyrir ullariðnaðinn að hafa margar og smáar verksmiðjur. Og háttv. þm. (SvÓ) hefir sjálfur sannað þetta, þvert á móti ætlun sinni, þar sem hann skýrði frá því, að Austfirðingar keyptu dúka sína eða ljetu vinna þá hjá norskri verksmiðju, því að þeir væru ódýrari en dúkar frá íslenskum verksmiðjum; vinnan langt um ódýrari. Þetta er svo ljóst, að ekki þýðir í móti að mæla. Og ef litið er til Noregs, kemur hið sama fram. Þar hefir mörgum smáum verksmiðjum verið slegið saman í stærri verksmiðjur, þar sem smáiðnaður ber sig ekki í þessari grein, og því hverfur hann.

Þá kem jeg að sljettinum, þúfnabananum, jarðvöðlinum, eða hvað menn vilja nefna hann. Háttv. þm. (SvÓ) vill fá einn vöðul til Austfjarða. Jeg er feginn, að enginn hefir farið fram á að fá þetta verkfæri til Vestfjarða, því að samkvæmt áliti þess manns, sem með verkfærið hefir farið, borgar það sig ekki nema þar, sem jarðrækt er rekin í því stærri stíl, svo sem við kaupstaðina. Annars er hestaflið ódýrara. Þetta fullyrðir sá maður, sem unnið hefir með verkfærinu og hefir best vit á málinu, og jeg held, að Austfirðingum yrði eins heppilegt að verða „aftur úr“ í þessu efni, en það óttaðist háttv. þm. (SvÓ). Maðurinn, sem verkfærinu hefir stjórnað, segir, að það megi ekki kosta yfir 40 þús. kr. og verði að endast í 9 ár til þess að verða ekki of dýrt í rekstri, jafnvel þótt bestu jarðræktarskilyrði sjeu fyrir hendi. Nú er ekki slíku til að dreifa; verkfærið kostar 60–70000 kr. hingað komið, og óvíst er, að það endist í 9 ár. Auk þess engin reynsla fengin fyrir ræktunarskilyrðum eftir að búið er að tæta jörðina. Jeg tel því þessa till. óráðlega.

Það má benda á það í þessu sambandi, að Ræktunarsjóðurinn hefir verið notaður til þess að kaupa nýjan sljettil á síðasta ári, og hafa því bændur ekki getað fengið ræktunarlán þar. Jeg held, að heppilegra hefði verið að veita fje þetta til þarfra fyrirtækja, t. d. áveitu í smærri stíl og sandgræðslu.

Þá ætla jeg að minnast á sútunarverksmiðjuna. Jeg vona, að þessi fjárveiting verði ekki til þess að gefa Sláturfjelagi Suðurlands undir fótinn og þar með líta svo á sem Alþingi vilji hvetja fjelagið til stórra framkvæmda í þessari grein. Markaður er ekki viss, og þá er illa farið, ef byrjað er í stórum stíl. En annars verð jeg að taka undir með háttv. þm. N.-Ísf. (SSt), að það sje óviðkunnanlegt að vera að lofa mönnum lánum, þegar vitanlegt er, að engir peningar eru til í Viðlagasjóði, og því ekki hægt að inna loforðin af hendi.

Að síðustu vil jeg minnast á till., sem útbýtt var nú á fundinum. Mjer þykir það undarlegt, að háttv. 1. þm. N.-M. (ÞorstJ) skuli vilja veita þessi eftirlaun, því í fyrra var hann á móti því að veita manninum styrk.