12.04.1923
Neðri deild: 40. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

1. mál, fjárlög 1924

Gunnar Sigurðsson:

Háttv. þm. Ísaf. (JAJ) hafði skakt eftir mjer, þar sem hann hermdi eftir mjer, að ekki þyrfti að vara þm. við að leggja fje til verklegra framkvæmda. Þetta sagði jeg nú aldrei, en hitt sagði jeg, að við værum oft of smátækir, þegar um verklegar framkvæmdir væri að ræða, og lentu þær því einatt í fúski og káki, og nefndi dæmi þessa. Háttv. þm. mintist á Skeiðaáveituna: þó að hún komi nú þessu máli ekki beint við, þá er það að vísu satt, að hún hefir orðið afardýr, en það sannar ekki, að fyrirtækið hafi í sjálfu sjer ekki verið rjettmætt, þótt verkið væri framkvæmt á allra dýrasta tíma og stórkostleg mistök væru á framkvæmd þess. Það mun sannast, að áveitan gerir mikið gagn í framtíðinni. Það má segja um verklegar framkvæmdir vor Íslendinga, sjerstaklega að því er landbúnaðinn snertir, að þær standa engum fyrir sól, og veit jeg þó ekki, hvað væri nauðsynlegra en að gera honum eitthvað til umbóta og fá hann til að fylgjast með kröfum tímans. En þess eru mörg dæmi, að afturhaldsgætnin hefir risið á afturfæturna, hafi eitthvað átt að gera af viti í verklegum framkvæmdum, hafi það verið í stærri stíl.