18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

1. mál, fjárlög 1924

Frsm. samgmn. (Þorsteinn Jónsson):

Það hefir verið venja, að samgmn. hefir tekið sjerstaklega til athugunar C-lið 13. gr. fjárlaganna, um fjárveitingar til strandferða og flóabáta. Nefndin sá ekki ástæðu til að gera brtt. við frv. um upphæðir þær, sem til þessa eru veittar. Þó þykir henni ekki ósennilegt, að styrkurinn til strandferða muni reynast of lágur. Svo sem kunnugt er, verður nýtt skip í þeim ferðum á næsta ári, og er engin reynsla fengin fyrir því, hve dýrt það er í rekstri eða hve miklar tekjur verða af því.

Jeg skal leyfa mjer að skýra frá því, að nefndin hefir gert tillögur um aðra tilllögun á strandferðunum en áður. Meðan Sterling hafði þessar ferðir, kom skipið inn á því nær allar hafnir. Nú hefir nefndin gert tillögur um, að nýja skipið, Esjan, komi við á 20–25 höfnum í hverri ferð. Hún á jafnan að koma við á nokkrum stærstu höfnunum, en til skiftis á hinum smærri, svo að hafnirnar verði aldrei fleiri en 25, stundum ekki nema 20. Nefndin hefir einnig lagt til, að skipið fari 2 hraðferðir í kringum land fyrri hluta ágústmánaðar, er báðar til samans taki rúman hálfan mánuð. Býst hún við, að hafa megi talsvert upp úr þessum ferðum, en reynslan verður að skera úr, hvort það er rjett. Nefndin hefir valið þann tíma til þessara ferða, sem flest starfsfólk í Reykjavík tekur sjer sumarfrí. Vill hún haga svo til, að fólk geti farið hjeðan á nokkrar aðalhafnirnar og dvalið á þeim stöðvum svo sem vikutíma, og þó ekki verið lengur í ferðalaginu en hálfan mánuð. Má búast við, að Reykvíkingar noti þessar ferðir mikið og ágóði geti orðið af þeim. Aðrar ferðir skipsins gerir nefndin ráð fyrir, að taki 12 daga, með dvöl í Reykjavík, svo að það fari um 21/2 ferð á mánuði. Með því móti verða strandferðirnar hagkvæmari en áður. Hingað til hafa ferðalög tekið mjög langan tíma fyrir menn, er eiga heima langt frá Reykjavík, verið afardýrar og langt á milli ferða. Þegar hausta tekur, verður skipið að sjálfsögðu seinna í förum, en nefndin hefir ekki gert neinar tillögur um áætlun þess lengur en til loka ágústmánaðar. Þar sem eigi er unt að gera nákvæma áætlun um kostnað við rekstur skipsins, sjer nefndin ekki ástæðu til að koma með brtt. við frv. um hækkun tillagsins, svo sem jeg tók fram, þó að búast megi við, að það sje áætlað of lágt. En þar sem ríkissjóður borgar hallann, hvort sem hann verður mikill eða lítill, skiftir þetta litlu máli. hver áætlunarupphæðin er.

Um styrkinn til flóabáta, 100 þús. kr., skal jeg taka það fram, að nefndinni virðist hann hæfilegur með því verðlagi, sem nú er, og sömu bátarnir verða styrktir, sem nú er. Og þar sem nefndin býst við, að verðfall geti enn orðið, hefir hún ekki farið fram á, að styrkurinn sje hækkaður. Ef hún gerði tillögu um hækkun og verðfall yrði, mundi styrkurinn samt verða notaður allur. En verði ekkert verðfall og styrkurinn reyndist of lítill, getur næsta þing sjeð miklu betur, hvaða upphæð þurfi að verja til flóabáta á því ári og hækkað styrkinn í fjáraukalögum, ef með þarf.

Þá vil jeg fyrir hönd mentmn. fara nokkrum orðum um brtt., er hún hefir flutt. Svo sem mönnum mun kunnugt, eru nokkur ár síðan Sigurður prófessor Nordal hreyfði tillögu um, að landssjóður tæki að sjer eða styrkti útgáfu á þýðingum úrvalsfræðirita og skáldrita erlendra. Þessi hugmynd hefir fengið talsverðan byr, og eru margir þess fýsandi, að sem fyrst verði hafist handa. Hugmynd Nordals er, að ríkið styrki útgáfuna svo ríflega, að unt verði að selja bækurnar svo ódýrt, að almenningi verði kleift að kaupa þær með góðu móti. Nú hefir Þjóðvinafjelagið tekið þessa hugmynd að sjer og vill hefjast handa, ef Alþingi vill styrkja þessa viðleitni. Fjelagið fór fram á það við nefndina, að hún mælti með því, að það fengi 12 þús. kr. árlegan styrk til þessa. Gerir það ráð fyrir að geta gefið út um 30 arkir í sama broti sem Andvari fyrir þessa upphæð. Bækur þær, er fjelagið hygst aðallega að velja, eru fræðirit í þeim greinum, þar sem litlar eða engar bækur eru fyrir á íslensku. Sem kunnugt er, eru bókmentir vorar ekki fjölhliða; það eru aðeins fáar tegundir, sem eru fjölskrúðugar á voru máli. Vjer eigum mikið af sagnfræði- og skáldritum, en fátt í öðrum greinum. Nefndin telur því þetta nauðsynjamál fyrir mentun og menningu þjóðarinnar og vill leggja Þjóðvinafjelaginu lið, svo að það geti þegar hafið þetta starf. En þar sem nefndinni er ljóst, að þingið verður að fara mjög gætilega í fjárveitingum, leggur hún til, að veittur verði helmingur þeirrar upphæðar, er farið var fram á. eða 6000 kr. Vitanlega getur fjelagið ekki gefið út nema litla bók fyrir það fje, um 15 arkir, ef það á að geta selt hana eins ódýrt og það hefir ætlast til, á 1,50 til 2 kr. Er það miklum mun ódýrara en nokkur bóksali getur selt bækur sínar. Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða meir um þessa tillögu og vona, að hv. deild taki henni vel.

Þá kem jeg að brtt. minni viðvíkjandi styrk til barnaskólabyggingar á Eyrum í Seyðisfjarðarhreppi. Till. þessi skýrir sig sjálf, og læt jeg nægja að vísa til fyrri ummæla minna um nauðsynina á því, að ríkið haldi áfram að styrkja barnaskólabyggingar. Er hjer líka aðeins um 2000 kr. að ræða.

Þá vildi jeg víkja nokkrum orðum að till. minni og hv. samþm. míns (BH) um fjárveitingu til símalínu milli Seyðisfjarðar og Loðmundarfjarðar. Fjárveiting þessi er aðeins 16000 þús. kr., samkvæmt áætlun landssímastjóra. Loðmundarfjörður er mjög afskektur og hefir mikla þörf fyrir að komast í símasamband við Seyðisfjörð. Hafa Loðmfirðingar öll sín viðskifti við Seyðisfjörð; þar situr læknir þeirra og prestur, og þingháin er sú sama, en samgöngur eru mjög erfiðar, bæði á sjó og landi.

Eru flestar sveitir við sjávarsíðuna komnar í símasamband, nema þessi. Um símann milli Egilsstaða og Brekku hefi jeg áður talað. Er ljós nauðsyn hans, því að læknissetur er á Brekku og alt Upphjerað fyrir ofan Egilsstaði er símalaust.

Þá kem jeg að brtt. við 16. gr., á þskj. 379, sem er um 500 kr. styrk til Víglundar Helgasonar á Hauksstöðum. Sá maður er stöðvarstjóri og jafnframt er hann símaeftirlitsmaður á einhverjum erfiðasta fjallvegi á landinu. Hrapaði hann fyrir nokkrum árum, í einni eftirlitsferðinni, ofan úr símastaur og meiddist mjög í baki. Hefir læknir skoðað meiðslið og vottað, að maðurinn muni aldrei verða jafngóður. Maðurinn er fátækur, og þar sem meiðsli hans er svo til komið, þá verður það að teljast mjög sanngjörn beiðni, að hann fái þennan litla styrk.

Þá er enn á sama þskj. brtt. við 18. gr. II. f. 14. lið, um 200 kr. styrk til Guðmundar pósts Kristjánssonar. Hann hefir um langt skeið verið póstur, en er nú orðinn bilaður á heilsu og getur ekki gegnt starfi sínu lengur. Vænti jeg þess, að háttv. deild verði samþykk því, að hann fái þennan litla styrk, enda væri það í samræmi við afstöðu hennar til samkynja mála nú undanfarið.