18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

1. mál, fjárlög 1924

Frsm. samgmn. (Þorsteinn Jónsson):

Jeg hafði eigi ætlað að taka til máls nú, en verð þó að gera það, vegna þess, hve mjög hefir verið deilt á samgmn. Einkum kom mjer það þó kynlega fyrir. þegar einn úr þessari nefnd (HK) fór að deila á hana. Hann hafði engan ágreining gert í nefndinni, og ræðst því jafnframt á sjálfan sig. (MG: Hann er bara partur úr nefndinni. — MP: Það hefir bara verið hugsað um Austurland). Nei, hv. þm. Barð. (HK) hefir engan ágreining gert, og var þó á fundi, þegar þessi till. var gerð um fyrstu ferðir Esju.

Aðalkjarni þessa máls er sá, að samgmn. varð við þeirri beiðni hr. Nielsens, sem væntanlegs framkvæmdarstjóra skipsins, að gera till. um nokkrar fyrstu ferðirnar. Samgmn. beggja deilda höfðu verið send þessi tilmæli, og þær ekki orðið sammála um tillögurnar, en hvor sent sínar. Mátti líta svo á, að báðar deildir þingsins væru jafnrjettháar í þessu efni, og þá till. nefndanna líka. Framkvæmdastjóranum var jafnframt skýrt frá því í brjefi, að þetta væru aðeins tillögur.

Nefndin hafði engan tíma til þess að bera þetta undir þingmenn, því hún hafði aðeins 2 daga til að gera þessar till., áður skipið færi, sem þær urðu að fara með. Það er því naumast rjett, að nefndin hafi farið að baki þingsins með þetta. Og um það, að hún hafi farið á bak við stjórnina með till. sínar, er það að segja, að hr. Nielsen er umboðsmaður stjórnarinnar á þessu sviði. Þar sem hann vinnur á hennar ábyrgð, og er því ekki hægt að segja, að farið sje á bak við stjórnina.

Háttv. 2. þm. Húnv. (ÞórJ) tók það fram, að till. um samgöngur hefðu jafnan verið lagðar fyrir deildina. Þetta er rjett að því er snertir fjármálahliðina. En það hefir alls ekki verið gert með áætlanirnar. Þingmenn hafa að vísu átt aðgang að því að sjá þær; en þó hefir stundum naumast unnist tími til þess. T. d. fyrir eitthvað tveimur árum var áætlunum ekki lokið fyr en á síðasta degi þingsins og nokkrir hv. þm. fóru sama kvöldið. Hjer er því ekki um neina nýja aðferð að ræða.

Eins og hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sagði, þá er þetta ekki nein fullnaðaráætlun eða búið að slá neinu föstu, nema að búið er að auglýsa eina ferð. Og ef bíð, hefði átt eftir því, að alt þingið hefði átt að verða sammála um, hvernig henni skyldi haga. Þá hefði Esja áreiðanlega fengið að liggja við hafnargarðinn til þingloka.

Þá deildi hv. 2. þm. Húnv. (ÞórJ) á samgmn. út af flóabátastyrknum. Hið eina, sem nefndin hefir lagt til í því efni, er, að till. stjórnarinnar um hann verði samþyktar. En ef hann hefir verið að deila á nefndina fyrir þetta yfirstandandi ár. Þá skil jeg ekki (ÞórJ: Nei, alls ekki). Já, þá skil jeg enn síður, hvers vegna nefndin ætti að fara að gera till. um niðurskipun þess styrks, hvað sem þörfum liði næsta ár. Úr því yrði bara togstreita milli þm. Jeg geri ráð fyrir því, að næsta þing sjái betur þörfina í þessu efni, og getur það þá veitt fje í fjáraukalögum til viðbótar, ef með þarf. Sami háttv. þm. (ÞórJ) sagði, að fjvn. ætti að hafa till. um strandferðirnar í sinni hendi. Sumum fjárveitinganefndarmönnum finst sjálfsagt rjett, að sú háttv. nefnd hafi flest eða öll mál þingsins til meðferðar. Á síðasta þingi taldi hún t. d. fræðslumálunum best borgið í sínum höndum. Rjettast væri þá líklega að kjósa aðeins mátulega marga menn í fjvn. á þing! En þá yrðu það líklega ekki allir þeir sömu menn, sem nú sitja í nefndinni.

Jeg get annars huggað þessa háttv. þm. með því, að þingið hefir enn fult vald og tækifæri til að breyta ferðunum frá þessum till. samgmn. En jeg sje ekki, hvernig þingið alt á að fjalla um þessi mál, nema þá að það væri borið fram í frumvarpsformi.