30.04.1923
Efri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

1. mál, fjárlög 1924

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Fyrsta brtt. hv. fjvn. á þskj. 458 er um það að lækka fjárveitingu til hagstofunnar um 2300 kr.

Forstöðumaður hagstofunnar var hjá mjer í morgun og átti tal um það við mig, af hverjum ástæðum nefndin mundi hafa lagt þetta til, enda eru engar ástæður færðar fyrir því í greinargerð nefndarinnar. Jeg bjóst helst við, að nefndin hefði hugsað sjer að færa launin niður um sem svaraði 30%, en hefði eigi aðgætt það, að búið var áður að færa þau niður um þessa upphæð. Líka var sú ástæða hugsanleg, að nefndinni þætti þessi stofnun dýr og vildi færa upphæðina niður í 40 þúsund krónur, sem er óneitanleg falleg tala.

Jeg skal nú ekkert fullyrða um rjettmæti þessarar till. Jeg er einn af þeim, sem þótt hefir þessi stofnun æðidýr. En jeg sje þó ekki glögt. hvar á að spara á þessum lið. Laun forstöðumanns og aðstoðarmanns eru lögákveðin, svo ekki er hægt að spara á þeim. Það ætti þá að vera á launum skrifstofufólksins, en það munu vera fjórir menn. En forstöðumaðurinn hefir miðað kaup þeirra við það, sem gerist í stjórnarráðinu, enda heyrir skrifstofan undir það og má nánast skoðast sem ein deild þess. En þó er sá munur á, að í stjórnarráðinu eru aðstoðarmennirnir aðeins þeir, sem tekið hafa fult embættispróf, en aðstoðarmaður hagstofustjóra hefir aðeins tekið fyrri hluta hagfræðisprófs í Kaupmannahöfn.

Að það megi minka störf hagstofunnar skil jeg varla að sje meining nefndarinnar. Mjer finst miklu fremur þörf á að auka þau. Að vísu mun nú bráðum vera búið að vinna úr síðustu manntalsskýrslunum, og þá ættu önnur störf hennar að fara að ganga fljótar, því enn þá eru margar skýrslur fyrirliggjandi, sem er óunnið úr.

Ef þessi brtt. fjvn. nær samþykki þingsins, þá mun stjórnin reyna að láta þessa fjárhæð duga, en telur sjer þó leyfilegt að fara fram úr þessari upphæð, ef nauðsyn krefur.

Þá er 3. brtt. fjvn., til embættisskeyta. Þetta er nú að vísu engin breyting, önnur en sú, að af þessum 50 þús. kr., sem verja á til embættisskeyta, eiga 5000 kr. að ganga til þess að útvega skeyti um markaðshorfur og vöruverð erlendis. Það er nú að vísu gott að fá þessa heimild og að geta haft þessar skýrslur á reiðum höndum. En á þessa fjárveitingu verður þó að líta sem áætlunarupphæð. Er óvíst að hún hrökkvi til, því þessi skeytakostnaður hefir aukist ár frá ári undanfarið. Það hefir þó verið lagt fast að embættismönnum að nota þessa skeytasendingu sem allra minst að fært er. Senda í brjefum það, sem ekki krefst meiri hraða en póstflutningur veitir. En þetta hefir verið mikið misnotað, því þrátt fyrir þessar áminningar hafa þó embættaskeytin aukist mjög og mörg þeirra verið alveg óþörf.

Hv. fjvn. hefir auðsjáanlega viljað feta sömu braut og stjórnin vill fara, að skila fjárlögunum sem tekjuhallaminstum. En ráðið til þess hefir verið hjá nefndinni að skera niður nærri allar fjárveitingar til verklegra framkvæmda, og sparar við það nærri 200 þús. kr. Hún leggur til, að feldar verði niður símafjárveitingar, að undantekinni einni, og stór upphæð til sútunarhúss til Sláturfjelags Suðurlands. Með þessu næst takmarkið!

Jeg skal nú játa það, að Nd. hefir máske verið fulllin á þessu sviði, því hún bætti við upphæðum til símalagninga. En mjer þykir þó of langt gengið hjer í Ed., ef það á að skera allar símalínur niður, að undantekinni einni. Jeg hefði viljað láta 4 standa, nr. 1, nr. 2, nr. 3 og nr. 6. Þessum línum öllum er eiginlega margbúið að lofa.

Ennfremur hefði jeg haft von um, að 7. liðurinn fengi að standa, liðurinn um loftskeytastöð í Grímsey og Flatey. Það er öllum ljóst, sem þekkja til í Grímsey, að þessi stöð væri þeim til ómetanlegs gagns. En Grímseyingar hafa hingað til einskis styrks notið. Grímsey er mjög afskekt, póstur kemur þar sjaldan og skipagöngur eru fáar þangað. En þessi loftskeytastöð setti þá í samband við landið, þeim til ómetanlegs hagnaðar. Ef fjárhagurinn reynist mjög örðugur, þá má að vísu, eða verður að láta þetta bíða eitt ár.

Nefndin hefir sem sagt lagt til, að aðeins ein lína yrði lögð. Er það vegna þess, að til þeirrar línu var búið að kaupa staura; og stjórnin hefir jafnvel fengið ámæli fyrir að hafa ekki látið leggja þá línu, þar sem staurarnir til hennar liggja og grotna niður. En þessi lína verður nú væntanlega lögð á þessu ári.

Nefndin fer mjög varlega í orðavali sínu, þar sem hún neitar því ekki, að nokkur þægindi muni vera að símunum. En jeg hygg, að hlutaðeigandi hjeraðsbúar mundu komast nokkuð öðruvísi en nefndin að orði um nauðsyn þeirra. Þeir mundu telja þá mikil þægindi eða jafnvel bráðnauðsynlega.

Jeg býst ekki við, að jeg geti talið nefndina á að láta þær línur standa, sem jeg áður nefndi, en vona þó, að hún taki það til nánari athugunar til 3. umr.

Frsm. sagðist óska eftir því, að allir liðirnir væru bornir upp í einu lagi. Jeg skal nú ekki hafa á móti því, jafnvel þótt líkurnar minki fyrir því, að þessar línur, sem jeg nefndi, fái þá að standa. Máske er líka einhver huggun í því, að eitt gangi yfir alla.

Um 16. till. nefndarinnar er það að segja, að mjer þótti Nd. ganga fulllangt í því að veita öllu starfsfólki landssímans launauppbót. Það voru aðeins stúlkurnar á bæjarstöðinni, sem jeg taldi rjett að fengju launahækkun. En till. nefndarinnar um persónulega launauppbót handa einni stúlku mundi eflaust draga dilk á eftir sjer. Mjer er til dæmis persónulega kunnugt um, að þrír menn aðrir eru mjög illa staddir þar. Einn af þeim telur landssímastjóri sig alls ekki mega missa, en er þó líklegt, að hann fari, fái hann annað betur launað starf. En verði einum veitt slík uppbót, þá verður erfitt að neita hinum.

Jeg er mjög þakklátur nefndinni fyrir brtt. sína um, að greiðslan til Petersens, 5000 krónur, sje kölluð endanleg greiðsla til hans. Það væri mikill ljettir, að þessu máli verði einhvern tíma lokið. Áður hafði hann gert kröfu um 5000 kr., en nú hefir hann hækkað hana. Jeg skal ekki leggja á móti því að hann fái þessar 5000 kr., en þá sem fullnaðar borgun og í þeirri von, að næsta þing sinni ekki frekari kröfum frá hans hendi. Jeg tel líklegt, eftir fyrri framkomu hans að dæma, að hann geri enn kröfur til skaðabóta.

Þá er lækkun á skrifstofukostnaði vitamálastjóra. Þetta getur máske tekist, einkum ef ódýrara húsnæði fæst. En að hækka þá skrifstofukostnað biskups jafnframt er hreinasta „anomali“. Þegar kol, ljósmeti o. fl. lækkar, þá er þessi liður hækkaður. Þegar skrifstofukostnaður t. d. landlæknis er ákveðinn „alt að“ 2000 kr., þá hefði þó átt að hafa sömu ákvæði um skrifstofukostnað biskups. Bendi jeg háttv. fjvn. á þetta, ef hún vildi laga það til 3. umr.

Þá þykir mjer mjög leitt, að nefndin vill fella niður fjárveitinguna til rafmagnsveitunnar á Hólum. Jeg álít, að þann skóla þyrfti að setja í stand, eins og aðra skóla. Undir 32. lið leggur nefndin til að veita 15000 kr. til byggingar barnaskóla. En jeg álít, að þá skóla, sem fyrir eru, ætti að gera sem fullkomnasta áður en farið væri að bæta nýjum við. Jeg hefi ekki á móti tillögu nefndarinnar um barnaskólana, en þá ætti nefndin ekki að kippa að sjer hendinni um þennan eina búfræðiskóla á Norðurlandi. Hvanneyri hefir þegar fengið rafmagnsveitu. Sanngjarnt er, að Hólar fái hana líka. Vil jeg því mælast til þess við háttv. fjvn., að hún leyfi þessari fjárveitingu að standa.

Brtt. einstakra þingmanna koma mjer ekki við, og skal jeg þá heldur ekki tala um þær.