03.05.1923
Efri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

1. mál, fjárlög 1924

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Það þykir hlýða að mæla nokkur orð með brtt. sínum. Jeg á hjer eina brtt. á þskj. 535, þess efnis, að Lárusi Bjarnasyni. kennara við gagnfræðaskólann á Akureyri, verði veittur 1500 kr. styrkur til þess að semja kenslubók í eðlisfræði og efnafræði handa gagnfræðaskólum.

Jeg talaði nokkuð fyrir þessari brtt. við 2. umr. fjárlaganna, en jeg mun þá hafa gleymt að taka það fram, að umsókn þessari fylgdu meðmæli frá dr. Ólafi Dan Daníelssyni, sem er mjög vel hæfur til að dæma um þessi efni. Einnig hafa þeir Þorkell Þorkelsson, forstöðumaður löggildingaskrifstofunnar, og Sigurður Guðmundsson, skólameistari á Akureyri, mikinn áhuga á þessu máli og hafa heitið honum stuðningi.

Jeg bar brtt. þessa fram við 2. umr. fjárlaganna í öðru formi en nú, en af því að hv. fjvn. vildi ekki sinna henni þannig, þótti mjer rjett að breyta henni, og ber hana því fram nú 1000 kr. lægri en áður. Vænti jeg því, að háttv. nefnd vilji nú sinna henni, þótt jeg treysti mjer ekki til að tala eins hjartnæmlega fyrir henni eins og sumir háttv. þm. hafa gert fyrir till. sínum.

Þá vil jeg minnast á nokkrar aðrar brtt., er hjer liggja fyrir, en mjer þykir illa farið, að hæstv. Stjórn skuli ekki vera hjer viðstödd.

Skal jeg þá fyrst nefna till. frá hæstv. fjrh. (KIJ), á þskj. 519, um 1000 kr. til að gefa út manntalið frá 1703. Um brtt. þessa hefi jeg aðeins gott að segja. Mjer er sönn ánægja að greiða henni atkvæði.

Þá vil jeg aðeins minnast á viðaukatillöguna, sem nefndin flytur og ætlast er til, að bætt sje aftan við fjárveitinguna til Ísafjarðarspítalans. Jeg mun greiða henni atkvæði mitt, því jeg tel hana til bóta, þótt jeg annars telji það varhugavert, að fjárveitingar sjeu gefnar mjög á vald stjórnarinnar. Annars verð jeg að játa, að jeg á bágt með að greiða atkvæði með miklum fjárveitingum til byggingar spítala á þessu þingi, þegar búið er að ákveða, að Kleppur verði bygður og til þess varið eflaust 300 þús. kr. Þetta þykir nú kanske ekki vera „kollegielt“, en jeg tala hjer sem þingmaður, en ekki sem læknir.

Það mun líka vera full ástæða til að vera varkár í fjárveitingum nú, því að ekki mun von mikils hvalreka fyrir ríkissjóð þann tíma, sem eftir er þessa þings, þar sem kunnugt er orðið, að fjvn. Nd. mun ætla að sitja á vörutollslögunum, sem þó voru afgreidd hjeðan með miklum atkvæðamun. Var þar þó um mikinn tekjuauka að ræða, sem ekki mundi hafa orðið minni en 300-400 þús. kr. Enn fremur hefir háttv. Nd. ekki þótt ástæða til að senda þessari deild frv. um framlengingu útflutningsgjaldsins, og jeg hefi jafnvel heyrt pata af því, að sumum hjer í deildinni þyki maklegt, að það fari sömu leiðina og vörutollsfrumvarpið. Hafa líka engu síður komið mótmæli utan af landi gegn þeim lögum en öðrum sköttum til ríkissjóðs.

Þá get jeg verið með till. hæstv. dómsmálaráðherra (SE) um styrkinn handa lækni til augnlækninganáms erlendis, því að það gæti vel borgað sig fyrir þjóðfjelagið að stuðla að því, að augnlæknar yrðu fleiri en einn, því að þá myndi koma samkepni þeirra á milli, og auk þess síður hætta á, að landið yrði augnlæknislaust.

Um styrkveitinguna til Skúla V. Guðjónssonar þarf jeg ekkert að tala. Jeg greiddi henni atkvæði við 2. umr. fjárlaganna, án þess þó að jeg ætli að fara að veita honum landlæknisembættið. Enda er það nú ekki á mínu valdi, og svo er heldur ekki víst, að þetta embætti sje svo laust, sem margir hyggja, þó mikið hafi verið um það talað nú í seinni tíð, því vel má vera, að það sannist hjer hið fornkveðna, að þeir lifa lengst, sem með orðum eru vegnir.

Þá vil jeg minnast á ræðu hv. 5. landsk. þm. (JJ), þar sem hann talaði fyrir hönd nefndarinnar um 10 þús. kr. fjárveitingu til Þjóðvinafjelagsins. Háttv. þm. vildi láta heita svo, sem hjer væri verið að koma í framkvæmd hugmynd Sigurðar prófessors Nordals, sem hann hefir oft minst á hjer í deildinni. En þó jeg hafi ekki nýlega lesið ritgerð prófessorsins, veit jeg að þetta er alveg rangt. Jeg skal láta þess getið, að jeg ber mikla virðingu fyrir Sigurði Nordal fyrir glæsilegar gáfur hans og listfengi. En jeg hefi þó ekki haft miklar mætur á tillögum hans um útgáfu í stórum stíl á þýddum bókum. Hugmynd prófessorsins var sú, að slík bókaútgáfa ætti að miklu leyti að bæta úr alþýðuskólaþörfinni. Á þetta atriði var lögð mest áherslan hjá honum. Staðhæfingin um, að svo gæti orðið, vakti vitanlega töluverð mótmæli, og meðal þeirra, sem mótmæltu, var hinn ágæti skólamaður sjera Magnús Helgason, forstöðumaður kennaraskólans.

Þýðingar þessar, í eins stórum stíl og gert var ráð fyrir, gætu tæplega orðið heilladrjúgar fyrir frumlegar bókmentir í landinu, og ætti þannig að hella heimsbókmentunum í þýðingum yfir þjóðina, þá sjá allir, hverjar afleiðingar það myndi hafa. Jeg get þessa hjer, af því að í þessari háttv. deild hefir verið talað um þessa tillögu prófessorsins sem svo einkar viturlega og sjálfsagða. Svo viturleg hefir hún þótt, að talað hefir verið um að verja allmiklu af því fje, sem ríkissjóði áskotnaðist fyrir leyfilega og óleyfilega áfengissölu í landinu, til þess að koma þessari hugmynd í framkvæmd. Annars var sú tillaga vitanlega mjög loftkend, eins og tillaga prófessorsins. En nú sje jeg, að tillögur þessar eru komnar niður á jörðina, þar sem ekki er farið fram á meira en 9 þús. kr. til slíkrar bókaútgáfu. Jeg er því fús á að greiða brtt. þessari atkv. mitt, því jeg sje ekkert eftir, þó bætt sje við þessum 3 þús. kr. eftir till. nefndarinnar.

Þá eru tvær brtt. frá hv. þm. Vestm. (KE); hin fyrri um að veita Byggingarfjelagi starfsmanna ríkisins 15% byggingarkostnaðar, en hin síðari um ábyrgð fyrir 70 þús. kr. láni til sama fjelags.

Mjer heyrðist hæstv. atvrh. (KIJ) mæla með síðari till., en ekki hinni fyrri.

Því er nú svo varið fyrir mjer, að jeg hefi ekki heyrt þetta Byggingarfjelag starfsmanna ríkisins nefnt fyr en jeg sá það á þessu blaði. Það má vera, að fjelag þetta sje búið að afkasta miklu, og sitji því ekki á mjer að vera að mæla á móti því, og skal jeg heldur ekki gera það að því er snertir síðari tillöguna. En hinni fyrri verð jeg aftur að mæla á móti, því jeg sje enga ástæðu til að fara að gefa fjelagi þessu 15% af öllum byggingarkostnaði þess, því að jeg tel minni ástæðu til að byrja hjer í Reykjavík en annarsstaðar á landinu. Við höfum vitanlega heyrt, að það væri mjög mikil dýrtíð hjer í Reykjavík. En það er nú svo, að hver einn veit það best, er skeður í hans eigin heimkynni. Reykvíkingar vita vel, að skórinn kreppir að hjá þeim, en lítið um aðra: og jeg veit ekki betur en að t. d. í kauptúni því, sem jeg á heima í, sje fult eins dýrt að lifa og hjer í Reykjavík. Jeg get því alls ekki verið með þessari tillögu. meðan ekkert er farið að hugsa um embættismannabústaði úti um land. En sjái ríkissjóður sjer aftur á móti fært að leggja fje fram til þeirra, þá væri öðru máli að gegna, því að þær kröfur, um byggingu embættisbústaða úti um land. eru ekki komnar fram fyrst í gær.

Skal jeg ekki tala um fleiri tillögur, sem hjer liggja fyrir, en mun sýna með atkvæði mínu afstöðu mína til þeirra.