05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

54. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Frsm. (Jón Þorláksson):

Háttv. deild sýndi þessu máli þá velvild að lofa því að ganga umræðulaust til 3. umr., en nú vil jeg, áður en það fer út úr deildinni, gera grein fyrir helstu atriðum málsins. Frv. var flutt af þingmönnum Reykjavíkur, en allshn. hafði það til meðferðar. Nefndin átti þátt í því að leita samninga og samkomulags milli bæjarstjórnar Reykjavíkur annars vegar og hreppsnefndanna í Seltjarnarnes- og Mosfellshreppum hins vegar. Samkomulag hefir náðst við Seltjarnarneshrepp á þeim grundvelli, sem lagður er í frv. Hreppsnefnd Mosfellshrepps veitti afsvar, en gerði þó kost á samningi, með því skilyrði, að jarðirnar Árbær og Ártún yrðu ekki teknar undan Mosfellshreppi, heldur aðeins Elliðaárnar og land, sem þeim þyrfti að fylgja. Bæjarstjórn Reykjavíkur vildi ekki ganga að þessu. En af því að mismunurinn var svo lítill á þeirri upphæð, sem Mosfellshreppur krafðist, og þeirri er bæjarstjórnin vildi greiða — aðeins 2 þús. kr. — og Mosfellshreppur bauð einnig góða borgunarskilmála, þá vildi nefndin ekki láta málið stranda á þessu, en samþykti þá upphæð, sem Mosfellshreppur krafðist að fá, og hefir borgarstjóri tjáð, að bæjarstjórn Reykjavíkur mundi fallast á þetta, ef ekki fengjust betri kostir.

Síðan nefndin skilaði málinu hafa komið tvö erindi til þingins því viðvíkjandi, annað frá Seltjarnarneshreppi, um að sveitin verði aðnjótandi þeirra náttúrugæða, vatns og raforku, sem Elliðaárnar láta Reykjavíkurbæ í tje. Nefndinni fanst þetta sanngjarnt, þar sem árnar eru teknar úr sveitarfjelagi þeirra og lagðar undir Reykjavík aðallega vegna þessara náttúrugæða, að þeir yrðu ekki útilokaðir frá hlutdeild í þeim, einkum þar sem þeir hafa verið sanngjarnir í fjárkröfum. Enda fóru þeir ekki fram á annað en það, sem vatnalögin heimila þeim, sem nú eru nýsamþykt hjer í deildinni. Þess vegna ber nefndin fram brtt. um þetta.

Hitt erindið er frá sýslunefnd Kjósarsýslu, sem mótmælir samningunum við hreppana. Ekkert samkomulag hefir náðst við sýslunefndina, og allshn. hefir ekki leitað eftir því á þessu þingi, þar eð málið hefir áður verið borið undir sýslunefndina árangurslaust. Tekjur sýslusjóðs af jörðunum renna fyrst í sveitarsjóðina. Við burtnám þessara jarða úr hreppunum er tekið fult tillit til allra tekna af þeim, og skaðabótaupphæðin ákveðin samkvæmt því, einnig sá hluti, sem hreppurinn á að greiða af jörðunum í sýslusjóð Kjósarsýslu. Allar tekjur, sem þeir geta vænst af jörðunum, eru borgaðar hreppnum, og af því á hann að greiða sýslusjóði sinn hluta.

Þegar svona er greitt úr málinu, getur allshn. ekki sjeð, að Kjósarsýsla eigi neina sanngirniskröfu til Reykjavíkurbæjar um þetta gjald, sem hreppurinn hefir fengið greitt. En það ætti aftur á móti að vera samningsmál milli hreppsins og sýslufjelagsins, hvort eitthvað af bótunum væri látið renna í sýslusjóðinn. Allshn. lítur svo á, að ef tekin væri til greina krafa Kjósarsýslu og henni greidd sjerstök uppbót, þá yrði þar um tvíborgun að ræða.