14.03.1923
Neðri deild: 20. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (957)

44. mál, vélgæsla á íslenskum mótorskipum

Magnús Kristjánsson:

Með því að jeg er flm. frv. þess, sem hjer ræðir um, þykir mjer hlýða að láta í ljósi álit mitt á þeim brtt., sem fram hafa komið við það. Jeg þykist hafa gert mjer far um það við samningu frv. að svifta engan mann neinum þeim rjetti, sem með sanngirni er hægt að gera kröfur til, og á hinn bóginn reynt að gæta þess, að sem tryggilegast yrði um hnútana búið. Upphaflega reyndi jeg að ganga eins langt í því, sem mjer fanst um, að engum væri gert óþarflega örðugt að stunda þessa atvinu. En jeg áleit, að þar sem jeg hefði tæplega næga þekkingu á þessum sviðum, þá bæri mjer að leita ráða til þeirra manna, sem jeg vissi besta sjerþekkingu hafa í þeim efnum. Leitaði jeg því álits forstöðumanns vjelstjóraskólans og aðalumsjónarmanns vjelgæslunnar hjer á landi. hr. Ólafs Sveinssonar, og það er því eigi nema sjálfsagt að fara að þeim ráðum í aðalatriðum, þótt jeg á hinn bóginn hefði kosið, að sinn ákvæðin hefðu verið nokkru rýmri. Og hversu gjarnan sem jeg og fleiri þingmenn vildu aðhyllast brtt. háttv. 2. þm. Reykv. (JB), þá verður samt álit þessara manna, sem sjerþekkingu hafa, svo þungt á metunum, að varla mun gerlegt að fara á snið við þá. Þess vegna tel jeg ráðlegast, að frv. verði samþykt óbreytt.