24.03.1924
Neðri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

1. mál, fjárlög 1925

Jörundur Brynjólfsson:

Háttv. þm. Barð. (HK) drap á það, sem jeg mintist á smiðju landsins og taldi þau ummæli á misskilningi bygð. Læt jeg þau ummæli mjer í ljettu rúmi liggja.

Þá er það ekki mín sök, þó að hann vissi ekki, hvað timbur kostaði hjer síðastliðið ár. En það get jeg sagt honum, og því má hann trúa, að matið á efninu úr Geysishúsinu var miðað við það verð, sem þá var á byggingarefni á Eyrarbakka, en ekki við það verð, sem kann að hafa verið hjá honum vestur í Haga. En eins og jeg hefi margtekið fram, getur hv. þm. fengið að sjá þessa reikninga, og þá mun hann sannfærast um, að hagnaðurinn af þessum húsakaupum hefir enginn verið. Jeg trúi ekki, að hann þori að vefengja þá reikninga, að þeir sjeu rjettir.

Háttv. frsm. (ÞórJ) mótmælti því, að fjvn. hefði gert upp á milli manna í tillögum sínum. Það má vel vera, að hún hafi ekki ætlað að gera það, en jeg verð þá að segja, að henni hafa verið mjög mislagðar hendur. Því að jeg vík ekki frá því, sem jeg sagði í fyrri ræðu minni, að sá mælikvarði, sem tillaga mín er miðuð við, er rjettur og er orðinn að fastri venju; því að, eins og jeg hefi margtekið fram, hafði hjeraðið ekki eyrisvirði í hagnað af húsakaupunum. Út af því sem frsm. nefndarinnar sagði um þetta, vil jeg með leyfi hæstv. forseta lesa nokkrar línur upp úr nál.:

„Grímsneshjerað hefir þegar bygt sjúkraskýli og læknisbústað. Hafði það keypt af stjórninni hið svo nefnda Geysishús til byggingarinnar. Var því haldið fram á síðasta Alþingi, að læknishjeraðið hefði fengið óbeinlínis styrk til fyrirtækisins, þar sem það hafði komist að óvenjugóðum kaupum á húsinu, og mun Nd. Alþingis af þeirri ástæðu hafa felt 3000 kr. styrkbeiðni til byggingarinnar, er þá lá fyrir þinginu frá hjeraðsbúum.“

Háttv. nefnd veit ekki síður en jeg, á hverju hún byggir þessi ummæli sín. Og það læt jeg henni eftir, með hvaða hætti hún kemst frá þeim.