18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1684 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

59. mál, friðun rjúpna

Pjetur Ottesen:

Jeg verð að segja, að mjer þykir dálítið kynlegt, að þetta frv. skuli hafa komið fram. Það er svo að minsta kosti á Suðurlandi, og jeg hygg sennilega einnig í öðrum landshlutum, að rjúpum hefir fjölgað svo allmjög síðustu árin, að ekki sjest munur nú og þegar mest hefir verið af henni áður. Það er kunnugt, að rjúpnaveiðar hafa gefið ýmsum hjeruðum allmiklar tekjur, og hygg jeg flesta vera á því, að nú sjeu þeir tímar, að nauðsynlegt sje að framleiða sem allra mest, jafnframt því, sem menn verða að spara. Því tel jeg undarlegt að vilja nú banna mönnum þetta tækifæri til að auka framleiðsluna.

Þessi lög munu og ekki hafa verið vel haldin hjer í námunda við höfuðstaðinn. Það hafa verið sögð allmikil brögð að því, að rjúpur hafi verið skotnar nálægt Rvík, og er sagt, að ekki hafi verið venju fremur skortur á rjúpum til átu hjer í bæ, og að nokkuð hafi jafnvel verið flutt út. Hefir mjer verið sagt, að rjúpur hafi t. d. verið á borðum í einni stórveislu hjer í vetur, sem meðal annara ýmsir löggæslumenn þessa bæjar hafi setið, og hafi þeir friðað samvisku sína með því, að þeir væru að eta norskar rjúpur.