26.02.1924
Neðri deild: 8. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1717 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

33. mál, friðun á laxi

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg þarf ekki að fylgja frv. því, sem hjer liggur fyrir, úr garði með langri ræðu. Helstu ástæðurnar, sem til þess liggja, að það er fram komið, má finna í greinargerð þeirri, sem því fylgir, en þó eru nokkur atriði, sem jeg vildi gjarnan fara nokkru ítarlegar út í.

Það orð hefir lengi legið á oss Íslendingum, að vjer kynnum illa að gæta þeirra hlunninda, sem land vort býður. Er þess getið meðal annars í Landnámabók, að þá hafi ár allar og lækir verið full af fiski, er vorir fyrstu landnámsmenn settust hjer að. Mjer þykir vel hlýða að minna á þetta í þessu sambandi, svo vel sem það er fallið til samanburðar við það, sem nú er. Og engum efa er það undirorpið, að orsakanna til þeirrar breytingar, sem orðin er í þessu efni, er að leita hjá oss sjálfum. Gegndarlaus misbrúkun þessara hlunninda, sem svo margra annara, er land vort hefir átt, hefir komið oss sjálfum í koll og vjer höfum verið tornæmir á það, sem dýr reynsla ætti að hafa kent oss fyrir löngu, að svo er helst arðs að vænta af þeim hlunnindum, sem landið býður oss, að vjer gætum þeirra sem best, og því er það skylda allra góðra manna að leggja sitt til, að sem mestrar fyrirhyggju sje gætt og sem ötulast sje staðið á verði gegn öllu því, sem rýrt getur þessi gæði landsins, hvort sem það kemur fram við nútíðina eða þær kynslóðir, sem byggja landið á eftir okkur.

Einmitt með þetta fyrir augum hefi jeg leyft mjer að leggja þetta frv. fyrir hv. deild. — Öllum, sem kunnugt er um það, hvernig laxinn í Ölfusá hagar göngu sinni, hlýtur að koma saman um það, að mjög sje óheppilegt, að leyft sje að hafa veiðivjelar í ánni allan þann tíma, sem laxinn veiðist. — Hv. þm. munu allflestir kannast við frv. þetta frá í fyrra, þó það kæmi þá fram í nokkru öðru formi og annars efnis. Á því máli á jeg ekki sök og svara ekki til þeirra athafna, sem þá væru gerðar. Hitt þori jeg að fullyrða, að þessi breyting var ekki heillavænleg, hvorki þeim, sem veiði áttu í þessari á, eða annarsstaðar. Fái lögin frá 1923 að standa, er alveg víst, að það hefir skaðleg áhrif á göngu laxins eftir ánni, og það er fullvíst, að menn munu færa sjer slíka undanþágu á ýmsan hátt í nyt. Það er sem sje í ráði að útbúa nýjar veiðistöðvar í Ölfusá, miklu neðar á ánni en áður hefir verið stunduð veiðin, niðri undir ósum hennar, og það er álit manna, að hægt muni að taka með þessu móti máske nær hvern lax, sem gengur í ána. Með þessu er auðvelt að eyðileggja á örfáum árum mikilsverð laxveiðahlunnindi fyrir þeim, sem ofar búa við ána, og að lokum alla veiði í ánni á fáum árum.

Á síðasta þingi var laxveiðimálið afgreitt frá Ed. til stjórnarinnar, þannig að á hana var skorað að endurskoða laxveiðilögin gömlu og leita álits sýslunefnda og bæjarstjórna um málið, og gera þær breytingar á lögunum, sem hún áliti best henta. En sá undirbúningur hlýtur að taka talsverðan tíma og löng bið getur orðið á þessu máli, til stórspillis veiðinni. Þess vegna er þetta frv. fram. komið. Fregnin um þessa nýju veiðiaðferð í Ölfusá, sem mun vera í ráði að byrja, ýtti mjög undir, að þetta frv. kæmi þegar fram.

Gömlu laxveiðalögin mæla svo fyrir, að árnar skuli vera opnar 36 stundir á viku, og er það síst of mikið, og því óhyggilegt, ef á að draga úr því. Erlendis eru lögin mjög víða miklu strangari í þessu efni. Hjá Norðmönnum t. d. standa árnar opnar um veiðitímann 72 stundir á viku, og sumstaðar þar í landi jafnvel lengur, þar sem þess er álitin þörf vegna viðhalds veiðinnar. Á síðari árum er hjer víða kominn upp lofsverður áhugi hjá mönnum að auka laxveiði með klaki, og er það vel farið; en þessi lög frá síðasta Alþingi eru rothögg á þá viðleitni manna. Til hvers er að klekja upp laxi, ef hann er tekinn allur jafnóðum og hann vex upp við árósana, og þannig upprættur á fáum árum? Fái þessi undanþága að standa í lögum til lengdar, mun hún verða til að eyðileggja laxveiði í mörgum ám, og er það illa farið. Menn ættu heldur að stuðla að því að auka laxgönguna. Jeg býst eins vel við því, að ef þessi lög gilda áfram um Ölfusá, muni fleiri undanþágur koma á eftir, og sjá nú allir, hvert þá stefnir. Fer jeg svo ekki fleiri orðum um þetta mál, en vona, að hv. deild taki frv. þessu vel. Legg jeg svo til, að þessu frv. verði vísað til allshn. að umræðunni lokinni.