25.04.1924
Efri deild: 54. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1754 í B-deild Alþingistíðinda. (1198)

33. mál, friðun á laxi

Frsm. meiri hl. (Eggert Pálsson):

Þá er loks laxinn kominn aftur á ferð hjer í hv. deild. Er eins og hann hafi legið við hrygningar um tíma, og hann getur, eins og kunnugt er, orðið nokkuð sprettharður, þegar því er að skifta. Og jeg býst við, að svo muni hann reynast að þessu sinni.

Mál þetta er þó í sjálfu sjer mjög einfalt og óbrotið. Það miðar að því einu að kippa í lag aftur því ólagi, er síðasta þing kom á í þessu efni.

Eins og kunnugt er, var gerð undanþága á síðasta þingi um friðun á laxi, að því er snertir Ölfusá. Þingið komst þá að þeirri niðurstöðu, að um Hvítá og þverár hennar skyldu gilda áfram ákvæði laga frá 1886, um það, að net skuli upp taka 36 klukkutíma í viku hverri. En í Ölfusá skyldu þau fá að liggja óhreyfð allan veiðitímann. Virðist þetta óneitanlega vera dálítið undarleg ráðstöfun. Þó má segja, að þinginu þá hafi verið nokkur vorkunn í þessu efni, þar sem það mun hafa litið svo á, að vatnsmagn Ölfusár trygði það, að laxinn gæti gengið upp í ána þrátt fyrir þetta, og auk þess mun það hafa skoðað þetta sameiginlegan vilja sýslubúa, þar sem engum mótmælum gegn þessu var þá hreyft. En nú hafa menn risið öndverðir gegn þessu ákvæði. Er það rjett, sem hv. minni hl. hefir tekið fram, að þetta er allmikið hitamál fyrir austan heiði, enda hjer um hagsmunamál að tefla fyrir mörgum þar eystra. En fyrir okkur nefndarmönnum er þetta ekki og á ekki að vera neitt hitamál, þar eð við engir eigum heima þar og höfum engra eiginhagsmuna að gæta. Vitanlega höfum við margir komið þarna, eigi hvað síst þar sem leið liggur, svo sem t. d. að Selfossi, og sumir nefndarmanna setið þar vikum saman og notið þar góðrar gestrisni, en slíkt á ekki að hafa áhrif á sanngjarna lausn málsins. En það getur ekki talist sanngjarnt, að önnur lög gildi um Ölfusá en Hvítá eða aðrar ár í þessu efni. Er með undanþágunni verið að veita einstökum mönnum einkarjett, en það er ranglátt gagnvart hinum, sem ekki njóta þess sama rjettar.

Eins og tekið er fram í nál. minni hl. þá er aðalorsökin til þverrandi laxveiði talin sú, hve mikið sje um sel í Ölfusá neðan til, og ennfremur stafi það töluvert af ólögmætri veiði. Hvað fyrra atriðið snertir, þá hygg jeg, að of mikið sje gert úr eyðileggingu vegna selsins. Hann er þögull í þessu máli og getur ekki borið hönd fyrir höfuð sjer. En þegar þess er gætt, að þegar landið fyrst var bygt, voru allar ár og lækir, eftir því sem fornsögurnar skýra frá, fullar af laxi, enda þótt selurinn gengi þá eigi síður upp í ármynnin, þá virðist sökin um þverrandi laxveiði ekki hvíla öll á selnum. Miklu meiri ástæða er því til að ætla, að það sje ólögmæta veiðin en selurinn, sem spilli laxveiðinni. Enda sýna friðunarlögin frá 1886, að fyrirrennarar okkar í löggjöfinni hafa litið þannig á; því þess vegna hafa þeir sett ákvæðið um, að net skuli taka upp 36 klukkutíma í viku hverri. Og hafi þeir hjer ratað rjetta leið, þá megum við því ekki fara til baka í þessu efni. Þvert á móti mætti segja, að það hefði verið rjettara að ganga feti framar um friðunina.

Hv. minni hl. minnist á það, að hann hafi í fyrra komið fram með till. um sameiginlegt klak og ráðstafanir til að drepa selinn, er gilda skyldi fyrir alla, er búa við Ölfusá og Hvítá. Jeg skal ekkert um þessar tillögur segja. Getur verið, að þær hafi haft við einhver rök að styðjast. En hitt vil jeg segja, að það dugir ekki að skipa mönnum að ganga í svona lagaðan fjelagsskap. Þó að leiðbeining í þessu efni kunni vitanlega að vera góð þá verður þó slíkur fjelagsskapur að byggjast fyrst og fremst á frjálsum vilja hlutaðeigenda, eða alls þorra þeirra. En slíkar till. liggja ekki fyrir nú, heldur það, hvort undanþágan frá friðunarlögunum eigi að haldast eða ekki. Hv. minni hl. segir, að laxinn haldi sig í miðjum ánum, en ekki við löndin. Jeg held, að hann fari eingöngu eins og honum þykir best í því efni, en fari ekki þar, sem hv. minni hl. segir honum að fara. En ef svo væri, að hv. minni hl. hefði rjett fyrir sjer um þetta, þá væri tilgangslaust að setja net út frá löndunum. En að menn gera það og veiða í þau, sýnir, að laxinn er þar fyrir.

Hv. minni hl. segir, að afnám undanþágunnar sje bygt á 3 ósönnum ástæðum. Hin fyrsta sje sú, að því sje haldið fram, að áin sje stokklögð. Jeg hefi aldrei heyrt þetta fyr, enda mun það vera ómögulegt.

Þá segir hv. minni hl., að önnur og þriðja ósanna ástæðan, sem haldið sje fram, sje sú, að veiðin sje mikil neðra, en hinsvegar lítil eða engin efra.

Með tilliti til þessa skal jeg geta þess, að einn hlutaðeigandi hefir sagt, að hann hafi veitt lax fyrir 6 þús. kr. neðan til. Og þótt það hafi verið í fleiri lagnir, bendir það óneitanlega á, að veiðin hafi verið allmikil að neðanverðu. Aftur á móti, að því er snertir veiðina upp með Hvítá, þá hefir hv. minni hl. prentað brjef í nál. sínu frá Jóni Pálssyni um það, að veiðin hafi verið sjerstaklega mikil þar frá 2 bæjum. Auðvitað er ekki gott að hrinda slíku, nema tilgreindar sjeu fullar heimildir, en það hefir hv. minni hl. ekki gert, heldur tilfærir sem heimild einhvern ónafngreindan dreng. En jeg hygg, að hjer sje ekki rjett frá skýrt. Svo vill til, að jeg hefi hjer í höndum brjef, er sýnir hið gagnstæða, og skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa það upp. Jeg get ekki nafns brjefritarans hjer, en er hinsvegar reiðubúinn til að segja hv. minni hl. frá því utan fundar, ef hann óskar. Brjefið hljóðar svo:

„Á síðasta þingi var samþykt, eins og yður mun kunnugt, undanþága frá laxveiðilögunum fyrir Ölfusá. Samkvæmt þeirri undanþágu ljetu svo bændur við þá á net sín liggja allan veiðitímann hvíldarlaust, og afleiðing þess varð sú, að þrátt fyrir feikimikla veiði þar, veiddist sárlítið, og svo að segja ekkert, hjer ofan til; og þeir fáu laxar, sem veiddust og voru yfir 5 pd., voru allflestir meira og minna skaddaðir eftir net, sem líka er mjög skiljanlegt, þar sem við Selfoss er hægt að stokkleggja ána að miklu leyti, þótt það hafi ekki verið gert fyr en í sumar sem leið. Af undanþágu þessari höfðu aðeins þrjár jarðir stundarhagnað, nefnilega jarðirnar Selfoss og Sandvík í Sandvíkurhreppi og Hellirinn í Ölfushreppi, en beint tjón allir þeir bændur, sem búa við Hvítá og ár þær, sem í hana falla, sem eru Stóra- og Litla-Laxá að austan, en Tungufljót, Brúará og Sog að vestan. En fyrir óbeinu tjóni af undanþágunni verða þessar sveitir, sem allar liggja við Hvítá og ár þær, sem áður eru nefndar og falla í hana: Gnúpverjahreppur, Hrunamannahreppur, Skeiðahreppur, Hraungerðishreppur, Grafningshreppur og Ölfushreppur að svo miklu leyti, sem hann liggur við Sogið og Ölfusá ofan Selfoss (Alviðra, Tannastaðir, Laugarbakki).

Eins og áður er sagt, eru aðeins þrjár jarðir, sem hagnað hafa af undanþágunni, og er sá hagnaður aðeins stundarhagnaður. Því þegar enginn lax kemst á hrygningarstöðvarnar (sem eru mestar og bestar í svo nefndum Laxárgljúfrum, og þar nær engin mannleg hönd að trufla þær), og bændur þeir, sem farnir voru að leggja stund á laxaklak og almennur áhugi var vaknaður fyrir, kippa að sjer hendinni eða hætta að selja seiði burt og sleppa þeim í veiðiárnar heima við tún hjá sjer, þá að öllu þessu athuguðu, ættu menn að sjá, að öll veiði hlýtur að hverfa með tímanum úr ánni.“

Þannig hljóða þá þessi orð. Og það verð jeg þó að álíta, og býst við, að hv. deildarmenn sjeu mjer sammála um, að þau sjeu fult svo gott og gilt „innlegg“ í málinu eins og ummælin eftir hinum ónafngreinda unglingi úr Hreppunum, sem háttv. minni hl. hefir látið prenta með nefndaráliti sínu.

Auk þess veit jeg til, að einn flokksmaður hans, sem er þessu kunnugur, hefir haldið þessu sama fram. Það er bóndinn í Skálholti. Þykist jeg vita, að hv. minni hl. fari ekki að rengja hann um sannsögli. Hv. minni hl. getur þess í nál. sínu, að sýslunefnd Árnessýslu hafi seilst út fyrir leyfileg takmörk, þegar hún fór að ákveða veiðitímann. Jeg sje ekki betur en lögin frá 1886 heimili sýslunefndum að gera það, sem hún hefir gert. Það verður ekki með neinu móti sagt, að hún hafi gert nokkuð rangt í afskiftum sínum af málinu, heldur þvert á móti.

Ennfremur segir í nál. hv. minni hl., að það myndi sýnast nokkuð hverful lagasmíð þingsins, ef farið væri að breyta lögum, sem samþykt voru í fyrra. Jeg álít, að þingið geri ekki nema rjett, þegar það hefir fengið upplýsingar í málinu, að taka þær til greina. Hitt væri miklu fremur þinginu til lasts, ef það skeytti ekkert um slíkar upplýsingar og virti þær að vettugi. Enda sjáum við þessa skoðun koma fram hjá hv. minni hl. í öðrum málum. í dag er sem sje útbýtt hjer í hv. deild nál., sem hv. 5. landsk. þm. (JJ) hefir skrifað undir, og er þar lagt til að afnema lög, sem samþykt voru hjer á þingi í fyrra, lögin um atkvæðagreiðslu utan kjörstaða við alþingiskosningar.

Það er nú komið berlega í ljós, að það er eindreginn vilji sýslubúa og sýslunefndar í Árnessýslu, að þessu máli verði kipt í lag. Hygg jeg, að það ætti að vera hverjum manni nóg til að ganga inn á frv., enda veit jeg, að það verður samþykt.