25.04.1924
Efri deild: 54. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1771 í B-deild Alþingistíðinda. (1204)

33. mál, friðun á laxi

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Mjer finst, að hv. frsm. meiri hl. (EP) hafi ekki komist vel frá þessu máli í ræðu sinni. Það stendur svo á, að það var hjer á þingi á sínum tíma talað um það, að vatnsmagnið trygði það, að laxinn gengi upp í ána, þrátt fyrir þær hindranir, sem samþyktar voru á þinginu í fyrra, og sama játar hv. meiri hl. í nál. sínu. Eina ályktunin af ræðu hv. frsm. meiri hl. hlýtur því að verða sú, að áin hafi minkað síðan í fyrra, — en því leyfi jeg mjer að mótmæla. Þá rangfærði hv. frsm. meiri hl. orð mín viðvíkjandi vexti árinnar. Venjulega er áin svo, að hægt er að leggja net við bakka hennar, en ekki út í miðja ána, vegna straumsins, er leggur möskvana saman. Þá tók sami hv. ræðumaður það fram, að veiðin hætti snemma á Kiðjabergi. Jeg skal ekki neita því, en jeg veit með sannindum, að á Kiðjabergi hafa veiðst 150–200 laxar í sumar sem leið, og það er meðaltal á þeim bæ, en hvað seint eða snemma, veit jeg ekki. Stafar það af ókunnugleik hv. frsm. meiri hl., er hann heldur því fram, að hægt sje fyrir bændur neðan til við ána að hafa eftirlit með ádrætti ofan til í sýslunni. Borgar sig ekki að halda „spion“ upp á kaup til þeirra hluta. Ef hv. 1. þm. Rang. vildi taka þetta að sjer, er hann lætur af prestsskap fyrir aldurs sakir, og vinna fyrir nógu lítið, gæti hann með því friðþægt fyrir eitthvað af gömlum syndum, þá er það gott. En alment eftirlit er óframkvæmanlegt, því svo hagar til, að árnar eru bæði langar og margar. Er alt annað að hafa eftirlit með netum á fáeinum stöðum eða að vera á verði um alla hylji, þar sem ádrætti má koma við. Þetta er ástæðan til, að málið er hitamál. Bændur neðan til skoða sig ekki siðferðilega bundna við friðun, ef þeir, sem ofan til eru við veiðiárnar, gera sig seka um að brjóta laxfriðunarlögin á haustin og þurka hyljina í nánd við það, sem laxinn hrygnir. Hv. frsm. meiri hl. kvað ekki ástæðu til að taka tillit til þess, þó að bændur brytu friðunarlögin. Það væri eins um það og um lögin um friðun á æðarfugli — menn brytu þau á þeim stöðum, þar sem þeir hefðu ekki hagsmuni af því, að fuglinn væri friðaður. Þessi skoðun hv. frsm. meiri hl. er ekki í fullu samræmi við skoðun þess flokks, sem hann telst til, því allur þorri þess flokks hefir viljað afnema áfengisbannlögin, vegna þess að farið væri á bak við þau. Málið heyrir ekki undir valdsvið sýslunefnda, enda hefir það ekki verið borið undir þær. Hv. 2. landsk. þm. (SJ) játar, að kisturnar í Laxfossi hafi verið í trássi við alla bændur ofan við Laxamýri, og hafi þeir kært til þingsins 1918. Hann tók ennfremur fram, að þessi þvergirðing á Laxá hafi verið algerlega lögleg. Þetta vil jeg láta banna, svo að ekki haldist við það ástand, að einn bær hafi svo að segja alla veiðina í heilli á, en um 60 bæir ofan við enga. Jeg lít svo á, að mál þetta komi fyrir næsta þing, og treysti jeg því, að hv. 1. þm. Rang. styðji þá að lagabanninu. Tel jeg ekki rjett að vera að grauta í lögunum nú, þar sem það stendur til, að stjórnin leggi fyrir næsta þing ítarlegt frv. um laxamálin, þar sem væntanlega verður tekið tillit til staðhátta.