07.04.1924
Neðri deild: 44. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1824 í B-deild Alþingistíðinda. (1287)

120. mál, Landhelgissjóður Íslands

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Sje svo, að jeg hafi eitthvað ofmælt í þessu efni fyrri ræðu minni, þá hefir hv. 2. þm Reykv. (JBald) nú gert grein fyrir fyrir vara sínum og hv. form. nefndarinnar (ÁF) leiðrjett þann misskilning, er orð mín hafa valdið. Það mun rjett vera, að ekkert ákveðið tímatakmark hafi komið til orða hjá nefndinni, en það var okkur öllum ljóst, að við yrðum ekki á næstu árum þess megnugir að byggja stór skip til landhelgisgæslunnar. Því ekki nægir að draga saman fje, sem næmi andvirði skipanna, heldur yrði þeim líka að verða sjeð fyrir rekstrarfje, sem gæti hlaupið allhátt á svona skipum. Því er það augljóst, að við verðum fyrst um sinn að leggja áhersluna á strandvarnir með smáum skipum, og myndi það verða að miklu liði, ekki síst með góðu samstarfi við Dani, en jeg get tekið undir það með hv. 1. þm. G.-K. (ÁF), að við höfum vanrækt meir en þurft hefði að njóta aðstoðar Dana í þessu efni.

Jeg tel víst, að nefndin muni taka til athugunar tilmæli hæstv. fjrh. (JÞ) 0| koma með ákveðnar yfirlýsingar um það við 3. umr. Hinsvegar þori jeg ekki að taka eins djúpt í árinni og hv. 1. þm. G.-K. gerði, að lofa fyrirfram nokkru um það, hvernig nefndin muni snúast í því. Hinsvegar vil jeg skjóta því til hv. flm., hvort það muni ekki vera rjett skilið hjá mjer, að hvorki yfirlýsingar hv. fjvn. nje yfirlýsing sjútvn. í umræðunum um þessi lög nægi til þess, að slík fjárveiting á árinu 1924 sje formlega gild. Jeg hygg, að fjárveitingarvaldið þurfi að koma til skjalanna. Og komist nefndin að þeirri niðurstöðu, að fje úr sjóðnum sje rjett að veita í þessu skyni það ár, mun þál. eða fjáraukalög þurfa að koma til, svo formlegt sje samkv. frv.