07.03.1924
Neðri deild: 17. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1861 í B-deild Alþingistíðinda. (1347)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg vildi aðeins vekja athygli hv. allshn., sem fjalla mun um mál þetta, á því, að til þess er ætlast í frv. þessu, að skattgjöldin nái til eigna ríkissjóðs. Jeg hefi lauslega athugað, hvað sá skattur myndi nema af hús-, jarð- og lóðaeignum ríkissjóðs hjer í bæ, og telst, að það muni vera ca. 40 þús. kr. árlega. Hefir sú venja ekki tíðkast áður, að bæjarfjelögin legðu skatt á eignir ríkissjóðs, og get jeg hugsað, að hv. þingdeild verði ekki fús á að ganga inn á þetta atriði frumvarpsins.

Jeg vil taka undir það með hv. 1. þm. Árn. (MT), að á Ísafirði er sú venja, að leggja mjög lágan skatt á utanbæjarmenn þá, er þar stunda atvinnu. Hefir verið litið svo á, að þeir gæfu bænum mikið í aðra hönd í atvinnu og verslun, og ættu því ekki að bera skatta að mun. Get jeg t. d. bent á, að 1919 mun ekki hafa verið lagður meiri skattur á síldarútgerð utanbæjarmanna en 5 aurar á hverja tunnu, sem þeir lögðu á land.