10.04.1924
Neðri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1865 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Nefndin hefir ekki alveg orðið sammála um þetta frv. Þó er það raunar ekki mikið, sem á milli ber, en það er aðallega viðvíkjandi 2. gr. frv. Þar er fasteignagjaldið ákveðið 0,8% af húsum, en af byggingarlóðum alt að 2%, og öðrum lóðum, sem gerðir hafa verið sjerstakir samningar um og ætlaðar eru til sjerstakrar notkunar, ½%. Meiri hl. gat ekki fallist á að setja þetta gjald svo hátt. Lóðargjald í bæjum, sem líkt stendur á um og Reykjavík, er yfirleitt tekjustofn, sem um er deilt, og það er til samkomulags, að meiri hl. hefir gengið inn á að setja það eins og hjer er gert.

Nokkuð skilur á milli gjalda af húsum og lóðum. Gjald af húsum kemur að nokkru leyti fyrir verk, sem bærinn lætur vinna, sóthreinsun, sorphreinsun o. fl. í stað þess að heimta borgun fyrir hvert þessara verka um sig, eru þau öll tekin saman í fasteignagjaldinu. Ýmsir eru nú hræddir um, og er það ef til vill ekki að ástæðulausu, að bærinn kynni að hætta að láta vinna þessi verk, en gjaldið hjeldi áfram. Okkur í meiri hl. fanst því rjett, að svo væri ákveðið í lögunum, að þetta gjald væri bundið við, að bærinn framkvæmdi þessi verk.

Um b-lið 2. gr. urðu allmiklar deilur. Er það, eins og alkunnugt er, stefnuatriði, hvort rjett sje að leggja fasteignaskatt á lóðir, sjerstaklega í bæjum, þar sem þær eru þegar komnar í allhátt verð. Ef slíkur skattur, jafnvel þó hann væri nokkuð hár, hefði verið settur áður en lóðirnar hækkuðu í verði, mætti segja, að hann væri ekki órjettmætur. Þá hækkar hann smátt og smátt, í hlutfalli við verðhækkun lóðanna, og verður ekki tilfinnanlegur fyrir eigendurna. Þetta er alt annað en að skella á háum skatti þegar lóðirnar eru komnar í hátt verð. Eigendurnir geta þá ekki náð honum inn með verðhækkun lóðarinnar, heldur verða þeir að borga hann úr sínum vasa, og rýmar eignin það í verði, sem skattinum nemur. Og ætti nú að fara að leggja á alt að 2% skatt — sem yrði vitanlega 2% — kæmi það órjettilega niður. Því ekki er hægt að fallast á þær röksemdir, að menn sjeu rjettir til að borga skatt af þeim eignaauka, sem þeir hafi þannig hlotið fyrir beinar aðgerðir bæjarfjelagsins, nema í þeim tilfellum, þegar menn hafa eignast lóðir með lágu verði og átt þær allan tímann, sem þær stigu í verði. En menn vita, að lóðir hjer í bæ hafa stöðugt gengið kaupum og sölum, og þeir, sem eiga þær nú, hafa flestir keypt þær þessu dýra verði. Yrði því eiginlega aðeins um eignarnám að ræða með þessari skattaálagning, eignarnám hjá þeim, sem af tilviljun eru eigendur lóðanna á þessu augnablikinu.

Afleiðingin af þessu er sú, að meiri hl. vildi ekki fara lengra en að ákveða gjaldið svo lágt, að það yrði ekki tilfinnanlegt. Auðvitað verður það altaf af handahófi, hvaða % skuli ákveðin, en okkur þótti handhægast að ákveða sama gjaldið af lóðum og húsum, og um leið lækkað hlutfallslega gjald það af lóðum, sem sjerstakir samningar gilda um og ætlaðar eru til ákveðinnar notkunar.

Býst jeg við, að ekki verði á móti því mælt, að þetta er næst sanni, ef menn fallast á röksemdir þær, sem jeg hefi nú fram borið.

Annað atriði í frv., sem nefndin gat ekki fallist á, er viðvíkjandi rjetti bæjarfjelagsins til að leggja útsvör á utanbæjarmenn. Virtist henni of freklega í málið farið, ef hægt væri að leggja á menn eftir 4 vikur, og var öll nefndin sammála um að hafa þetta í samræmi við það, sem gildir í sveitunum, það er 3 mánuði. Annars má geta þess, að Reykjavík hefir búið við eldri ákvæði í þessu efni heldur en nokkurt annað sveitar- eða bæjarfjelag.

Þá hefir meiri hl. lagt til algert nýmæli, þar sem mönnum er heimilað að áfrýja úrskurði bæjarstjórnar í útsvarsmálum til yfirskattanefndar. Er þetta sjerstaklega gert vegna þeirra manna, sem nú verða útsvarsskyldir án þess að eiga hjer heima. Væri það hart fyrir þá að mega aðeins skjóta máli sínu til bæjarstjórnar, sem þeir fá engu um ráðið, hvernig skipuð er. En þá virðist og eðlilegt, að búsettir menn hjer megi skjóta kærum sínum til yfirskattanefndar. Hafa heyrst háværar kröfur um þetta. Mönnum finst bæjarstjórn aðili í málinu og geta ekki sætt sig við úrskurð hennar sem hins æðsta dómstóls. Hinsvegar er alls ekki farið fram á, að þetta úrskurðarvald sje algerlega tekið af bæjarstjórninni. Þó komu fram raddir um, að svo væri gert, og fengi bæjarstjórnin í staðinn að auka 2 mönnum í yfirskattanefnd. En meiri hl. fanst þetta ekki rjettmætt. Það er ekki kunnugt, að bæjarstjórnin hafi yfirleitt misbeitt þessu valdi sínu, og meiri hl. áleit, að hún gæti hjeðan af sem hingað til úrskurðað svo flestar kærur, að allir mættu vel við una. En svo framarlega sem það tækist ekki, mætti skjóta málinu til yfirskattanefndar. Er þetta í rauninni ekki stórt atriði, því fáar kærur berast til bæjarstjórnar og lítill hluti þeirra færi til yfirskattanefndar. En auk þess eru hjer settar nokkrar hömlur á það, að menn færu af þrætugirni einni að skjóta málinu frá bæjarstjórn til yfirskattanefndar, þar sem svo er ákveðið, að áfrýjendur greiði nokkurn hluta kostnaðarins, þó þeir vinni málið, en allan, ef þeir tapa því. Er þetta gert til þess, að menn skuli forðast að skjóta öðrum málum til yfirskattanefndar en þeim, sem þeir eru sannfærðir um í hjarta sínu, að þeir vinni, og áfrýi heldur ekki nema þeim upphæðum, sem talsverðu nema.

Enn vil jeg geta um eitt atriði. Það hefir verið og er sá siður, að gjalddagarnir sjeu tveir, og mörgum hefir fundist upphæðin nógu há í hvort skifti, til þess að geta goldið hana. Virðist því rjett, að þetta haldist. Enda mundi það ekki ljetta innheimtuna, þó aðeins einn gjalddagi verði, því ekki er nóg að ákveða gjalddagann, heldur verður að fara heim til manna og toga út peningana, og fást þeir trauðla allir í einu. Myndi því litlu máli skifta, hvort einn gjalddagi væri ákveðinn í því tilliti eða fleiri.

Jeg hefi gleymt að geta þess, að slæm prentvilla er í nál. í 3. gr. b. Þar stendur:

„Nú fær áfrýjandi lækkun á útsvari sínu, og ber honum þá að endurgreiða allan kostnað af áfrýjuninni.“ Þar á auðvitað að standa: „Nú fær áfrýjandi ekki lækkun á útsvari sínu“ o. s. frv., enda sjest það á áframhaldinu. Þetta vil jeg taka fram til að firrast misskilning, og verður það leiðrjett í uppprentuninni.

Held jeg svo, að jeg þurfi ekki að segja fleira að sinni, en bíð átekta. Aðeins vil jeg óska þess að lokum, að deildin afgreiði nú mál þetta fljótlega, því lengi hefir á því staðið, og bærinn hefir orðið að búa við gamalt fyrirkomulag í þessu efni og hefir beðið við það allmikið tjón.