10.04.1924
Neðri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1885 í B-deild Alþingistíðinda. (1359)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Fjármálaráðherra (JÞ):

Mjer þykir rjett að gera hv. þdm. grein fyrir, hverra hagsmuna ríkissjóðsins hjer sje að gæta í þessu máli. Allshn. hefir útvegað sjer upplýsingar í því skyni að sjá, hve miklu þetta munaði ríkissjóðinn, og komist að þeirri niðurstöðu, að með þessum breytingum myndu bæjargjöldin af húsum ríkissjóðs hækka úr 12700 kr. upp í 14900 kr., og getur það ekki kallast mikið. Nú á það sama við um ríkissjóðinn og einstaka menn, sem hús eiga hjer í bænum, að hann hefir sinna hagsmuna að gæta að því er snertir það, að slökkvilið bæjarins og slökkvitækin sjeu í lagi, og með því að bærinn hefir nú nýlega kostað talsverðu til að bæta þetta, þá er það rjett, að ríkissjóður sem húseigandi taki að sínum hlut á sig þá hækkun gjaldanna, sem af þessu leiðir. Frá sjónarmiði ríkissjóðsins sje jeg því ekkert til fyrirstöðu að samþykkja þessa till. um 0,8% gjald af húseignum. Um lóðargjöldin er það aftur á móti að segja, að þar er um mikla hækkun að ræða frá því, sem nú er, bæði fyrir ríkissjóðinn og aðra lóðaeigendur. Lóðir ríkissjóðs eru virtar á um 1½ miljón króna. Þótt nú, samkvæmt ágiskun borgarstjóra, 1/3 hluti fjelli undir lægri taxtann, þá mundi samt frv. hafa í för með sjer, að ríkissjóður eftir því greiddi í lóðargjald 22–23 þús. kr. á ári. Jeg veit að vísu ekki nákvæmlega, hve hátt lóðargjaldið er nú, en hygg þó, að það fari vart fram úr 1000 kr. Það er ekki svo að skilja, að þetta gjald komi neitt öðruvísi niður á ríkissjóðnum en öðrum lóðaeigendum. Það er ljóst, að þetta er mjög mikil gjaldaaukning fyrir alla, sem þar eiga hlut að máli. Eftir till. meiri hl. nefndarinnar reiknast mjer, að þessi lóðargjöld nemi um 9000 kr., með 0,8% í hærri flokknum og 0,2% í þeim lægri. Eftir brtt. minni hl. nefndarinnar verður það nokkuð hærra, um 11000 kr. — Jeg vildi láta þetta koma fram, svo að háttv. þdm. vissu, um hvað þeir væru að greiða atkvæði. En jeg lít svo á, að ríkissjóðnum sje ekkert vandara um hjer en öðrum húseigendum bæjarins. Hinsvegar lít jeg svo á, að of langt sje farið í að leggja á svo mikil lóðargjöld, sem ákveðið er í frv. og nál. hv. minni hl. nefndarinnar. í nál. hv. meiri hl. nefndarinnar er aftur á móti hóflegar farið í sakirnar, og mun jeg vel geta aðhyllst till. hans.

Þá vil jeg svara nokkrum orðum ummælum háttv. 2. þm. Rang. (KlJ). Hann sagði, að samkvæmt landslögum ættu bæjarstjórnir kaupstaða að hafa sem mest frjálsræði og ákvörðunarrjett í málum kaupstaðanna. Hann kannaðist að vísu við það, að stjórnin hefði úrskurðarvald um ýms mál kaupstaðanna, en taldi það vera að mestu formsatriði og stjórnin ætti ekki heldur að nota það vald. Þetta álit ljet hv. þm. í ljós í upphafi ræðu sinnar, en öll ræða hans ósannaði svo þessi orð hans, þar sem hann kvaðst hvorki í einu nje öðru geta felt sig við gerðir bæjarstjórnarinnar í þessu máli. Er jeg samdóma honum í því, en hina skoðun hans get jeg aftur á móti ekki felt mig við. Jeg álít, að þar sje um að ræða mjög hættulega stefnu, sem þegar hafi verið fylgt of langt. Þegar svo mikill mannfjöldi er samankominn í kaupstaðina og eftir að þeir eru búnir að fá svo mikla þýðingu fyrir landið, þá kemur það ekki til nokkurra mála, að ríkisvaldið megi láta afskiftalaust, hverju fram vindur um málefni þeirra. Ef andvaraleysi væri viðhaft, þá gæti svo farið, að þessi stærstu sveitarfjelög ríkisins lentu í slíkri óreiðu með innri málefni sín, að þau yrðu að síðustu að vera upp á ríkissjóðinn komin. Því um hvern annan væri að ræða en ríkissjóðinn til að taka við, ef fjármálum kaupstaðanna yrði siglt í strand? Við höfum nú þegar eitt greinilegt dæmi þessu til sönnunar, þar sem ríkissjóðurinn hefir nú nýlega orðið að greiða um 25 þúsund danskar krónur fyrir hönd Vestmannaeyjakaupstaðar. Af þessu sjest, að full þörf er á því að hafa alla aðgæslu í þessum efnum og meiri en höfð hefir verið til þessa. Það má vissulega fara of langt í því að veita kaupstöðum landsins sjálfsákvörðunarrjett.

Þetta er nú sú hlið málsins, sem veit að ríkissjóðnum. En eftir minni byggju er það líka rangt að framfylgja þessu svo ríkt, ef litið er á málið frá sjónarmiði borgaranna. Get jeg þar að mestu látið mjer nægja að vísa til ræðu háttv. 2. þm. Rang., því við erum fyllilega sammála í því tilliti. Það er sjálfsagt, að kaupstaðaborgarar eiga að hafa sama aðgang að löggjafarvaldinu sem aðrir borgarar landsins.

Um önnur efni frv. skal jeg ekki orðlengja neitt. Jeg vil þó aðeins taka undir eitt, sem hv. 2. þm. Rang. sagði um það, að breyta þyrfti skipun niðurjöfnunarnefndarinnar. Sú skipun, sem nú er og samþykt yrði áfram. með frv., er með öllu óviðunandi. Hefir reyndan sýnt, þennan stutta tíma, sem sú skipun er búin að standa, að sú tilhögun er miklu lakari en hin, sem áður var. Held jeg, að ekki verði hjá því komist að gera breytingu á þessu; jeg ætlaði að gera það áður í nál. allshn., en úr því varð ekki vegna stjórnarskiftanna, og hefi jeg í hyggju að bera fram við 3. umr. hóflega brtt. í því skyni að bæta úr þessu. Það er víst, að nefndin er bæði of fáliðuð, og svo er með öllu óverjandi, að hún skuli kosin af bæjarstjórninni. Hún á auðvitað að vera kosin af borgurunum, eins og áður var. Gæti það orðið að mestu kostnaðarlaust, með því að láta þær kosningar verða samferða einhverjum öðrum kosningum í bæjarins þarfir.